Tæknimál

Á þessari síðu er fjallað um helstu tækniatriði sem snúa að spjaldtölvum og þurfa að vera í lagi svo þær nýtist sem best í námi og kennslu.

ÞRÁÐLAUS NET

Aðgangur að öflugu og stöðugu þráðlausu neti, Wi-Fi, er algert grundvallaratriði til að spjaldtölvurnar komi að sem bestum notum. Um haustið 2015 var lokið við að setja upp í öllum grunnskólum Kópavogs þráðlausa senda sem í daglegu tali kallast punktar. Punktarnir voru á öllum göngum skólanna og í opnum rýmum. Síur eru á neti bæjarins sem sía burtu óæskilegt og ólöglegt efni eins og klám og ofbeldi sem á ekkert erindi til nemenda.

nethradi
App sem mælir hraða á þráðlausu neti

Lærdómur

Þegar spjaldtölvurnar voru afhentar fyrstu nemendunum í september 2015 hrundi kerfið. Það þoldi ekki álagið sem fylgdi því að rúmlega eitt þúsund spjaldtölvur voru að tengjast því á nokkurn veginn sama tíma. Þetta kom á óvart því að tæknimenn töldu fyrirfram að kerfið myndi þola álagið. Næstu vikurnar kom í ljós að þráðlausu punktarnir á göngum skólans drifu ekki nógu vel inn í skólastofurnar. Var þá brugðið á það ráð að setja einn þráðlausan punkt í hverja einustu skólastofu og eftir það lagaðist ástandið. Þráðlaust net vantaði þó enn í mörg íþróttahúsin og var ekki komið í öll húsin ári eftir upphaf innleiðingar. Skýringarnar voru þær að reksturinn á sumum íþróttahúsunum heyrði undir íþrótta- og tómstundarráð og því óljóst hver ætti að borga fyrir uppsetningu. Allt kemur féð samt úr bæjarsjóði og ekki ætti að láta svona atriði tefja fyrir uppsetningu þráðlausra punkta.

Nemendur geta komist fram hjá síum Kópavogsbæjar með því að nota svokallaðan VPN-aðgang sem segir manni að ef nemendur vilja komast í óæskilegt efni þá geta þeir það. Ef ekki með þessum VPN-aðgangi þá með 4G-aðgangi snjallsíma. Þessi VPN-aðgangur er óheimill en það er erfitt að koma í veg fyrir að nemendur noti hann ef brotaviljinn er einbeittur.

HLEÐSLA SPJALDTÖLVANNA

hledslutaeki
Hleðslutæki fyrir iPad-spjaldtölvu

Við venjulega notkun endist hleðslan á rafhlöðunni í spjaldtölvunni heilan skóladag. Nemendum er því uppálagt að hlaða spjaldtölvurnar heima og koma með þær fullhlaðnar í skólann en skilja hleðslutækið eftir heima. Fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi er spjaldtölvan hreyfanlegt tæki sem auðvelt er að fara með út úr skólastofunni, til dæmis til að taka myndir og myndbönd en ef spjaldtölvan þarf að vera í hleðslu er girt fyrir þennan hreyfanleika og þá notkunarmöguleika sem honum fylgja. Í öðru lagi eru einfaldlega ekki nógu margar innstungur í kennslustofunum til að hlaða mörg tæki í einu og straumlaus spjaldtölva er gagnlaust námstæki. Ef nemandi gleymir að hlaða spjaldtölvuna fyrir skóladaginn er mælst til þess að hann komi með hleðslutækið sitt og fái að hlaða í skólanum.

Lærdómur

Flestir nemendur koma alltaf með spjaldtölvurnar fullhlaðnar í skólann þó að stundum vilji það gleymast. Ef nemendur gleyma að koma með spjaldtölvuna hlaðna þá fá þeir að hlaða hana í skólanum og þá yfirleitt í skólastofunni. Ef nemendur hafa gleymt að koma með hleðslutækið fá þeir lánað hleðslutæki hjá einhverjum samnemanda eða kennara.

LYKLABORÐ

Á kynningarfundum fyrir foreldra var spurt hvort lyklaborð fylgdu spjaldtölvunum en svarið við því var neikvætt. Spjaldtölvuverkefnið keypti ekki nein lyklaborð, hvorki fyrir nemendur né kennara enda er spjaldtölvan ekki öflugt ritvinnslutæki. Nemendum og kennurum var hins vegar heimilt að kaupa lyklaborð eða hulstur með áföstu lyklaborði en til þess var alls ekki ætlast.

Lærdómur

Einstaka nemendur og kennarar keyptu lyklaborð í upphafi en þeim hefur farið fækkandi frekar en hitt frá haustinu 2015. Skýringarnar á fækkuninni eru margvíslegar en mörg lyklaborðin voru léleg að gæðum, ekki með íslenska stafi og svo þurfti að hlaða þau sérstaklega.

TJÓN Á SPJALDTÖLVUM

Ef óhapp verður og spjaldtölva nemenda skemmist, bilar eða týnist á nemandi tafarlaust að láta umsjónarkennara sinn vita. Það sem nemandi þarf að gera áður en skemmdu tölvunni er skilað er að skrá sig út af iCloud og gefa upp lykilnúmer sem opnar spjaldtölvuna. Umsjónarkennari sendir foreldrum tölvupóst og lætur vita af tjóninu. Foreldrum ber þá að skrá tjónið á Íbúagáttina á vef Kópavogsbæjar en Íbúagáttin er lokað rafrænt þjónustusvæði fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þegar þessu er lokið er nemandanum svo úthlutað sambærilegri spjaldtölvu eins fljótt og hægt er svo ekki verði truflun á námi nemandans. Oftast fær nemandi þá spjaldtölvu sem annar notandi, nemandi eða kennari, hefur skilað inn en ekki glænýja.

Nánari upplýsingar um þetta ferli má sjá hér en þessar leiðbeiningar voru sendar öllum foreldrum í 5.-10. bekk, sem og öllum umsjónarkennurum, í skólabyrjun haustið 2016. Þessar leiðbeiningar voru þýddar á ensku, pólsku og portúgölsku.

Ef spjaldtölva kennara skemmist hefur hann samband við tölvuumsjónarmann skólans sem útvegar honum annað tæki. Kennari þarf líka að skrá sig út af iCloud og gefa upp lykilnúmer sem opnar spjaldtölvuna.

Að loknu fyrsta ári innleiðingar höfðu um þrjú prósent spjaldtölvanna skemmst eða bilað og er það svipað og reiknað var með í upphafi.

Lærdómur

Fyrsta skólaárið sáu tölvuumsjónarmenn eða leiðtogi innleiðingar hvers skóla um að skrá niður tjón á tækjum nemenda og í framhaldi höfðu þeir samband við verkefnastjóra innleiðingarinnar til að fá nýtt tæki. Þetta fyrirkomulag þótti full „þægilegt“ fyrir nemandann. Ef tækið skemmdist í hans vörslu, hvort sem það var vegna ógætilegrar meðferðar eða var algert óhapp, þá gat nemandinn bara farið og fengið nýtt tæki án eftirmála. Með þessu fyrirkomulagi, að foreldrar þurfi að skrá óhappið áður en nemandinn fær annað tæki er tryggt að foreldrar séu inni í öllum málavöxtum.

Eins og kemur fram í leiðbeiningum um tjón á spjaldtölvu er nauðsynlegt að notendur skrái sig út úr iCloud eftir að bilun kemur upp. Ef það er ekki gert getur annar notandi ekki notað tækið þegar það kemur úr viðgerð. Það dugir ekki einu sinni að strauja spjaldtölvuna því tækið biður alltaf um þann notanda sem skráður var í iCloud. Það voru allt of mörg tilvik þar sem skemmd tæki komu til viðgerðar án þess að notendur hefðu skráð sig út af iCloud. Þetta flækti málin að óþörfu því þá þurfti verkefnastjóri innleiðingar að hafa samband við skólann sem tækið kom frá, hafa uppi á nemandanum og fá lykilorðið. Best væri því að Spjaldtölvuverkefnið hefði í sínum skrám lykilorð Apple-auðkenna hjá öllum notendum.

TÖLVUUMSJÓNARMENN

Í öllum grunnskólum Kópavogs hafa um árabil starfað tölvuumsjónarmenn í hlutastarfi til að sjá um viðhald á tölvukosti skólanna. Í flestum tilvikum er um að ræða grunnskólakennara sem hafa bætt við sig tækniþekkingu til að taka þessi störf að sér. Tölvuumsjónarmenn skóla bera ábyrgð á þeim úrlausnarefnum sem tengjast tölvukerfum og tölvukosti skólanna og eiga að styðja kennara og starfsmenn komi upp tæknileg vandamál, svo sem í tengslum við þráðlaust net eða tengingar spjaldtölva við skjávarpa í kennslustofum. Tölvuumsjónarmenn sinna einnig notenda- og hópaumsjón í Google-umhverfinu, umsýslukerfinu AirWatch og ýmsu sem lýtur að áskriftum að kennsluforritum á borð við Nearpod og Showbie og kaupum á hugbúnaði. Í flestum skólanna eru tölvuumsjónarmenn í innleiðingarteymi skólans og sinna því einnig störfum þess og eru oftar en ekki svokallaðir leiðtogar innleiðingar skóla en nánar er fjallað um þá á síðunni Leiðsögn, ráðgjöf og stefnumótun. Tölvuumsjónarmenn þurftu líka að vera umsjónarkennurum innan handar við afhendingu á nemendatækjum þó að afhendingarferlið væri sett upp með þeim hætti að umsjónarkennarar ættu að geta farið í gegnum afhendingarferlið einir.

Lærdómur

Við spjaldtölvuinnleiðinguna jókst álag á tölvuumsjónarmenn meira en reiknað var með. Sem dæmi má nefna að vikurnar og mánuðina eftir fyrstu afhendingu nemendatækja voru mikil vandræði með að tengja spjaldtölvurnar við þráðlausa netið og óhjákvæmilega lenti það á tölvuumsjónarmönnum að bjarga því.

Þótt tölvuumsjónarmenn séu allir af vilja gerðir til að sinna þessum fjölbreyttu verkefnum sem talin voru upp hér að ofan þá skortir marga þeirra þekkingu til að leysa þau. Endurmenntun tölvuumsjónarmanna er nánast engin eða að minnsta kosti mjög óformleg og mikilvægt er að bæta úr því.

SKÝJALAUSNIR

Til að deila verkefnum og til að geyma öryggisafrit af gögnum er nauðsynlegt að spjaldtölvunotendur hafi aðgang að skýjalausnum. Þær lausnir sem Spjaldtölvuverkefnið hefur notað eru iCloud frá Apple sem stendur öllum til boða, Google Apps for Education eða GAFE sem var fyrst notað í sex skólum af níu en er nú notað í öllum skólunum og Microsoft OneDrive sem var notað í þremur skólum í upphafi en er nú nær ekkert notað lengur.

Hér á eftir er umfjöllun um þær skýjalausnir sem Spjaldtölvuverkefnið hefur notað og nánari útskýringar á hverri skýjalausn fyrir sig.

iCloud

Öllum iPad spjaldtölvum fylgir skýjalausnin iCloud frá Apple. Þessi skýjalausn er sjálfgefin í öllum iOS öppunum en hefur þann galla að vera einungis 5 GB að stærð og því fljót að fyllast. Á haustmánuðum 2015, eftir afhendingu fyrstu nemendatækja, voru þeir nemendur sem höfðu verið duglegir að taka myndir og myndskeið sífellt að fá tilkynningu um að geymslurýmið í iCloud væri að fyllast og þeim boðið að kaupa meira geymslupláss. Spjaldtölvuverkefnið sá ekki ástæðu til þess þar sem aðrar ókeypis skýjalausnir voru í boði eins og GAFE og OneDrive og útbjó leiðbeiningar hvernig aftengja mætti sjálfkrafa öryggisafrit af myndum í iCloud.

Google Apps For Education – GAFE

Google Apps For Education eða GAFE eins og það var kallað í daglegu tali er skýjalausn frá Google. Það nefnist reyndar núna G Suite for Education en virkar á svipaðan hátt og áður. Þetta er ókeypis námskerfi sem stendur skólum til boða. Það eina sem þeir þurfa að gera er að senda Google staðfestingu á að þeir séu menntastofnun en ekki fyrirtæki og þá geta allir nemendur og starfsmenn skóla fengið sitt eigið netfang og geymslusvæði án þess að sérstakt gjald komi fyrir. Notendur hafa aðgang að mörgum öppum svo sem ritvinnslukerfi, töflureikni og glærugerðarappi. G Suite fylgir einnig Google Classroom sem er rafræn skólastofa þar sem kennari getur lagt fyrir verkefni og nemendur skilað úrlausnum. Allir grunnskólar í Kópavogi nota G Suite en í mismiklum mæli þó.

classroom
Dæmi um kennarasýn í Google Classroom

OneDrive

Microsoft býður einnig upp á skýjalausnir fyrir skóla sem nefndist OneDrive en núna kallað Microsoft Education. Þar hafa notendur aðgang að Word, Excel og PowerPoint en einnig að rafrænni skólastofu sem nefnist Microsoft Classroom og virkar svipað og Google Classroom.

Þrír skólar í Kópavogi ákváðu haustið 2015 að nota OneDrive-skýjalausn til að geyma og deila skjölum. Strax í upphafi voru vandræði með að nota þessa skýjalausn með spjaldtölvunum. Notendur lentu í vandræðum með að vista og deila skjölum og þrátt fyrir að tæknimenn frá hugbúnaðarframleiðandanum og Kópavogi reyndu að laga kerfið fór svo að þessir þrír skólar gáfust upp á þessari lausn og fóru yfir í GAFE.

Moodle

Fyrir spjaldtölvuinnleiðinguna í Kópavogi höfðu nokkrir skólar notað kennslukerfið Moodle og þrír skólanna höfðu áhuga á að halda því áfram þó að þeim stæði til boða bæði Classroom frá Google og Microsoft. Frá árinu 2013 höfðu grunnskólar í Kópavogi haft aðgang að Moodle-vef Reykjavíkurborgar þeim að kostnaðarlausu en um vorið 2016 ákvað Reykjavíkurborg að setja upp nýjan Moodle-vef þar sem sá gamli var úr sér genginn. Jafnframt ákvað Reykjavíkurborg að hafa þann vef einungis fyrir grunnskóla borgarinnar. Þar sem skólarnir þrír í Kópavogi höfðu áhuga á að nýta sér Moodle áfram gerði Spjaldtölvuverkefnið verktakasamning við umsjónarmann Moodle-vefs Reykjavíkurborgar um að setja upp vef fyrir þessa þrjá skóla.

AIRWATCH

Með AirWatch-umsýsluhugbúnaðinum er hægt að setja inn netstillingar svo spjaldtölvan tengist sjálfkrafa þráðlausu neti bæjarins. Einnig er hægt að sjá hvaða öpp eru á tækinu, hvenær tækið var síðast í netsambandi og loka fyrir ákveðna virkni eins og App Store í bekkjarsettum.

Rafbókarskápurinn Content er hluti af AirWatch-kerfinu.

Lærdómur

AirWatch-kerfið hefur ekki staðið undir væntingum að því leyti að virkni þess hefur ekki verið sú sem söluaðili hélt fram. Rafbókarskápurinn Content hefur heldur ekki virkað sem skyldi og verður AirWatch því skipt út á næstu misserum fyrir umsýslukerfið Lightspeed, en það er sérhannað fyrir skólakerfi.

AIRSERVER OG SKOTT

airplay
Hver tölva í Kópavogi er með sitt eigið númer. Notandi velur þá borðtölvu sem hann vill tengjast.

AirServer er streymihugbúnaður sem settur er upp í borðtölvum sem eru svo tengdar skjávörpum. Með þessum hugbúnaði getur spjaldtölvan tengst þráðlaust við borðtölvuna í gegnum þráðlausa netið í kennslustofunni og þar með við skjávarpann. Þetta er mjög mikilvægt þegar verið er að sýna og kenna nemendum á öpp eða eitthvað sem tengist spjaldtölvunum.

Einnig er hægt að tengja spjaldtölvu við skjávarpa beint með sérstöku millistykki sem tengist í skjávarpasnúruna og nefnist í daglegu tali skott og var það til í öllum skólum í mismiklum fjölda þó.

Lærdómur

Því miður virkaði AirServer sjaldan og illa. Í elstu borðtölvunum virkaði hann ekki þar sem þær voru ekki nógu öflugar til að ráða við að streyma myndböndum. Einnig voru truflanir vegna þess að spjaldtölvurnar voru ekki á sama neti og borðtölvurnar og svo datt AirServer út hjá öllum notendum eftir eina uppfærslu á stýrikerfi spjaldtölvanna. Vonast er til með nýrri uppfærslu á Windows-stýrikerfinu í borðtölvunum haustið 2017 að AirServer-hugbúnaðurinn virki eins og hann á að gera.

Skottin voru heldur ekki virka auðveldlega. Til þess að tengja spjaldtölvu við skjávarpasnúruna þurfti að losa snúruna frá borðtölvunum sem í mörgum tilvikum skapaði mikil vandræði þar sem hún var annað hvort flækt undir kennarborði eða að hún stóð svo stutt út úr veggnum að kennari gat ekki athafnað sig auðveldlega þegar búið var að tengja spjaldtölvuna. Svo var fjöldi skotta takmarkaður og því var ekki farið út í kaup á skottum fyrir alla kennara vegna mikils kostnaðar. Eitt skott kostar um 8.000 krónur og því hefði kostað 3,5 milljónir króna að kaupa skott fyrir alla kennara í Kópavogi.

HVAÐ HEFUR BREYST Í TÆKNIMÁLUM MEÐ TILKOMU SPJALDTÖLVUNNAR?

Fyrst bera að nefna að kennsla í tölvuverum hefur snarminnkað. Með tilkomu spjaldtölvunnar geta nemendur unnið að gagnaöflun og kynningum í sinni spjaldtölvu og þurfa því ekki að sækja í tölvuverin eins og áður. Þegar endurnýja á borðtölvur í tölvuverum stendur skólum til boða að kaupa fartölvur í stað borðtölva og hafa nokkrir skólar nýtt sér það eða ætla að nýta sér það á næstu misserum.

Nemendur mega koma með sín eigin snjalltæki í skólann svo sem síma eða iPod og geta þeir fengið aðgang að þráðlausa netinu með því að sækja sérstaklega um það á þar til gerðu eyðublaði. Með tilkomu spjaldtölvunnar minnkaði notkun nemenda á eigin snjalltækjum í skólunum.

 

TÆKNIMÁL – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Þráðlaust net þarf að vera þétt og gott og með góðum netsíum
  • Skýrir verkferlar þurfa að ráða för ef spjaldtölva verður fyrir tjóni og nemendur, kennarar og foreldrar þurfa að vera upplýstir um þá
  • Tölvuumsjónarmenn þurfa þekkingu og tíma til að sinna verkefnum tengdum spjaldtölvum
  • Allir notendur þurfa að hafa aðgang að ókeypis skýjalausn með stóru geymsluplássi
  • Gera þarf öllum notendum kleift að tengja spjaldtölvu við skjávarpa, hvort sem það er með þráðlausum hætti eða millistykkjum sem tengjast skjásnúrum