Spjaldtölvur

Eftir að stefna var mótuð og ákvörðun tekin um að nýta spjaldtölvur til að bæta skólastarf í Kópavogi eins og sagt var frá hér á forsíðunni þurfti að vanda val á búnaði og bjóða út kaupin á honum eins og skylda er þegar opinber aðili kaupir vörur fyrir svona háar fjárhæðir. Þessi vefhluti fjallar um valið á spjaldtölvunum, útboð, tegund, hulstur, bekkjarsett, öpp og rafbækur.

VAL Á SPJALDTÖLVUM

Í ársbyrjun 2015 var ráðist í matsferli til að ákveða hvaða tegund af tækjum myndi henta best fyrir skólastarfið í Kópavogi. Hópur tölvuumsjónarmanna úr grunnskólunum undir stjórn forstöðumanns upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar bjó til matsformið. Valið var í matsnefnd úr hópi kennara og nemenda frá öllum grunnskólum bæjarfélagsins ásamt tæknifólki frá upplýsingatæknideild. Fyrir valinu varð iPad Air 2 og voru kaup á þeim búnaði boðin út. Nemenda- og kennaraspjaldtölvur skyldu vera með 64 GB geymsluminni en spjaldtölvur í bekkjarsettum með 16 GB geymsluminni. Nánar er fjallað um bekkjarsettin neðar á síðunni. Spjaldtölvurnar þurftu ekki að vera með SIM-korti og gátu því ekki þegar upp var staðið tengst 4G farsímakerfi símafélaganna heldur er látið nægja að tengja þær venjulegu þráðlausu neti sem á ensku nefnist Wi-Fi.

Lærdómur

Gagnrýni kom fram um þau atriði sem lágu til grundvallar á matsblaðinu. Til dæmis fékk stýrikerfi á íslensku ekki hátt vægi. Umboðsaðilar Samsung gagnrýndu þetta harðlega eins og sjá má hér og má vel taka undir sjónarmið sem þar koma fram.

ÚTBOÐ

Á vordögum 2015 var haldið útboð á 1.700 iPad Air 2-spjaldtölvum og var Skakkiturn ehf. sem er rekstraraðili Eplis með lægsta tilboðið en Epli starfar undir samningum við Apple International er varða dreifingu, sölu og þjónustu á Apple vörum. Alls voru keyptar 1.400 spjaldtölvur fyrir alla kennara og stjórnendur í grunnskólum Kópavogs og nemendur í 8. og 9. bekk sem hófu nám haustið 2015. Rúmlega þrjú hundruð spjaldtölvur voru til afnota í svokölluðum bekkjarsettum.

Skakkiturn ehf. var einnig með lægsta útboðið í desember 2015 á 1.000 spjaldtölvum sem voru ætlaðar nemendum í 6. og 7. bekk en þær voru afhentar í febrúar 2016.

Skakkiturn ehf. var enn og aftur með lægsta útboðið um kaup á 1.045 spjaldtölvum í júní 2016, tölvum ætlaðar nemendum sem hófu nám í 5. og 6. bekk haustið 2016.

Lærdómur

Það eru ekki margir aðilar í Íslandi sem geta tekið þátt í útboðum eins og þeim sem hér hafa verið nefnd þar sem Apple gerir mjög strangar kröfur til endursöluaðila. Það er því ekkert undarlegt að sama fyrirtækið hafi átt lægsta tilboðið í öll þrjú skiptin sem útboð hafa farið fram.

HULSTUR

Spjaldtölvurnar eru viðkvæm tæki og geta skemmst við að detta í gólfið og annað hnjask. Þess vegna var öllum þeim sem fengu spjaldtölvur í hendur frá Spjaldtölvuverkefninu útvegað hulstur þeim að kostnaðarlausu og þeim gert skylt að nota það öllum stundum. Bæði kennarar og nemendur máttu nota önnur viðurkennd hulstur en þau sem Kópavogsbær útvegaði en þá var þeim notendum uppálagt að skila Kópavogshulstrunum. Ef hulstur hjá kennurum skemmdust þannig að þau þóttu ekki lengur góð vörn fyrir spjaldtölvuna fengu þeir ný. Ef nemendahulstur skemmdust bar nemendum (foreldrum þeirra) að útvega ný hulstur. Nemendahulstur komu yfirleitt í þremur litum og Spjaldtölvuverkefnið eftirlét skólum að skipuleggja hvernig þeim var skipt á milli nemenda. Í flestum tilvikum ákváðu kennarar viðkomandi bekkja þessa skiptingu en misjafnt var hvort nemendur máttu skipta um lit innbyrðis eftir afhendingu.

Lærdómur

Spjaldtölvuverkefnið hefur keypt fimm mismunandi tegundir af hulstrum. Kennarar fengu eina tegund, nemendur í 8. og 9. bekk aðra, nemendur í 6. og 7. bekk þá þriðju, nemendur í 5. og 6. bekk haustið 2016 þá fjórðu og svo var enn ein tegundin í bekkjarsettunum. Það hulstur var vandaðast, enda fyrir spjaldtölvur sem nemendur í 1.-4. bekk nota en þeir eru líklegri til að missa tækin í gólfið en eldri nemendur.

Það er erfitt að mæla með einhverri einni tegund af hulstrum. Sterk og góð hulstur eru þyngri en þau veikbyggðari og líka dýrari. Ef við tökum dæmi um tvö hulstur og annað kostar eitt þúsund krónum meira en hitt í innkaupum verður kostnaður vegna innkaupanna fjórum milljónum króna meiri fyrir allar fjögur þúsund spjaldtölvurnar sem Kópavogsbær hefur nú keypt í sína skóla. Til samanburðar mættu fimmtíu spjaldtölvur eyðileggjast við notkun ef ódýrari hulstrin væru tekin og er þá miðað við áttatíu þúsund króna innkaupsverð á hverri spjaldtölvu.

BEKKJARSETT

Rúmlega þrjú hundruð spjaldtölvur eru í svokölluðum bekkjarsettum. Hver skóli hefur því á milli þrjátíu og fjörutíu spjaldtölvur sem hann getur notað með nemendum í 1.-4. bekk en nemendur í þessum árgöngum hafa ekki spjaldtölvur til persónulegra nota líkt og hinir árgangarnir hafa.

bekkjarsett3
Bekkjarsett Snælandsskóla

Lærdómur

Spjaldtölvurnar sem eru í bekkjarsettunum eru með 16 GB geymsluminni og hefur reynslan sýnt að það er of lítið. Geymsluminni þeirra eru fljót að fyllast og þá þarf reglulega að henda út öppum og gögnum til að koma nýju efni fyrir. Það hefði sparað mikla vinnu ef geymsluminni þeirra hefði verið stærra.

UMSÝSLA BEKKJARSETTA

 

Bekkjarsett
Handbók um umsýslu bekkjarsetta

Misjafnt er eftir skólum hvernig umsýslu spjaldtölva í bekkjarsettum er háttað. Í sumum skólum eru spjaldtölvurnar geymdar saman á einum stað og kennari getur pantað þærfyrir fram til að nota í sinni kennslu. Með þessu fyrirkomulagi þarf einhver að bera ábyrgð á að tækin séu hlaðin í lok dags og einnig að sjá til þess að stýrikerfi og öpp séu uppfærð reglulega. Þá þarf að henda út gögnum sem ekki eru lengur í notkun, eins og myndum og myndböndum. Í öðrum skólum hefur spjaldtölvunum verið skipt niður á yngstu árgangana fjóra. Þá sjá kennarar um hleðslu tækjanna og uppfærslu á hugbúnaði.

Hér má sjá nánari leiðbeiningar um utanumhald bekkjarsetta.

Lærdómur

Óháð því hvort fyrirkomulagið, sem lýst var hér að ofan, er notað þarf einhver að bera ábyrgð á búnaðinum og hafa tíma og þekkingu til að sinna bekkjarsettunum. Þó að settar séu notendareglur um að henda út myndum og óþarfa gögnum eftir notkun verður oft misbrestur á því.

ÖPP

Öppin sem eru í spjaldtölvunum við afhendingu eru þessi hefðbundnu öpp sem fylgja iPad-spjaldtölvum almennt svo sem vafri, tölvupóstur, iCloud geymsluský, iBooks rafbókarskápur, Pages til að nota í ritvinnslu, töflureiknirinn Numbers, iMovie-myndklippiappið og tónlistarappið Garageband.

Kennurum er heimilt að setja í spjaldtölvurnar öll þau öpp sem þeir kjósa svo framarlega að þau séu fengin með löglegum hætti. Nemendum er þetta einnig heimilt svo framarlega að öppin hæfi þeirra aldri. Öll öpp í App Store eru merkt með aldurstakmörkunum.

Engin mörk eru sett á það magn af leikjum eða forritum sem nemendur geta sett inn í tölvurnar fyrir utan að komi til plássleysis þá víkur það sem er ekki námslegs eðlis.

Mörg góð öpp kosta peninga og í þeim tilvikum hefur hver og einn skóli kreditkort til umráða frá Spjaldtölvuverkefninu til að kennarar geti keypt öpp í sína spjaldtölvu til að nota í kennslu eða öpp fyrir nemendur. Skólaárið 2016-2017 gat hver skóli keypt öpp sem nam 40.000 krónum á mánuði. Í einhverjum tilvikum eru öpp keypt fyrir einstök nemendatæki og þá sérstaklega tengd sérkennslu en í örfáum tilvikum hafa verið keypt öpp fyrir heilu árgangana. Rafbókargerðarappið Book Creator er þar algengast.

Apple býður menntastofnunum upp á að kaupa öpp í miklu magni og fá þannig verulegan afslátt en því miður er sú þjónusta ekki í boði á Íslandi.

Foreldrar geta stýrt notkun barna sinna á spjaldtölvunum með stillingum sem eiga að takmarka aðgang að neti, myndavél og ákveðnum samfélagsmiðlum. Farið var yfir þetta með foreldrum á foreldranámskeiðum en einnig útbjó Spjaldtölvuverkefnið stuttar kennslumyndir sem foreldrar gátu nýtt sér í þessu skyni.

Ekki er ætlast til að kennarar séu í eftirlitshlutverki og reglulega að fylgjast með því hvaða öpp nemendur eru með á sinni tölvu hverju sinni. Stefna Spjaldtölvuverkefnisins er að leggja upp með traust til nemenda. Umsýslukerfin gefa möguleika á ýmiskonar eftirliti og inngripum þegar þess gerist þörf, en þar sem markmiðið með innleiðingu breyttra kennsluhátta er að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og að þeir hafi meira um nám sitt að segja, er nauðsynlegt að beita ekki slíkum takmörkunum nema þegar nauðsyn krefur og aðeins gagnvart þeim nemendum sem þurfa á því að halda. Allar slíkar takmarkanir eru ákveðnar í samstarfi kennara og foreldra. Markmiðið er að ala nemendur upp í ábyrgri notkun á tækninni og skila þeim þannig út í samfélagið að þeir kunni sig í stafrænum heimi.

Lærdómur

Reynslan sýnir að hvorki kennarar né nemendur óska neitt sérstaklega mikið eftir því að fá að kaupa öpp. Spjaldtölvuverkefnið borgar fyrir kennaraaðgang í Nearpod, Showbie og Explain Everything. Fyrir sérkennara og sérkennslunemendur er keypt appið Voice Dream en það app er talgervill sem les rafbækur á íslensku og hentar lesblindum nemendum einkar vel.

Varðandi leikjanotkun nemenda, þá eru flestir þeir leikir sem nemendur nota ókeypis. Í einstökum tilvikum kaupa foreldrar leiki og við mælum með því að leikirnir séu gefnir börnum frekar en að kortanúmer foreldra sé slegið inn í tæki nemenda. Í einhverjum tilvikum hefur það gerst að foreldrar hafa slegið greiðslukortanúmer inn á spjaldtölvur nemenda í þeim tilgangi að kaupa handa þeim leiki eða önnur forrit en ekki gætt að því að fjarlægja kortanúmerið að því loknu. Í einhverjum tilvikum hefur þetta haft í för með sér að ósamþykktar færslur birtast á kortareikningnum, þar sem nemendur hafa ekki áttað sig á að þeir væru að kaupa forrit eða viðbætur sem kosta peninga.

Engin sérstök vandamál hafa komið upp varðandi aldurstakmörk á öppum. Kennarar á miðstigi hafa stundum beðið mig að ræða við einstaka nemendur þar sem þeir óttast að nemandi sé að spila leiki sem eru ætlaðir fyrir eldri notendur. Ég hef þá rætt við nemendur og fengið að skoða þessa leiki og í langflestum tilvikum eru þeir ekki fyrir yngri börn en 12 ára en í einstaka tilvikum ekki fyrir yngri en 17 ára. Í þeim tilvikum hef ég rætt við kennara nemandans og mælt með því að appið sé fjarlægt úr tækinu.

APPLE-AUÐKENNI (APPLE ID)

Til að geta nýtt fulla virkni iPad-spjaldtölvunnar þurfa allir nemendur að eiga svokallað Apple-auðkenni (Apple ID). Þetta auðkenni gefur nemanda kost á að nálgast hugbúnað í App Store, sem er hugbúnaðarverslun Apple og er aðgengileg beint úr spjaldtölvunni. Notendanafn Apple-auðkennis er virkt netfang og lykilorðið er að eigin vali.

appleid
Apple-auðkenni í iPad

Auðkennið gerir nemanda einnig kleift að vista og deila gögnum með kennurum og öðrum nemendum, veitir aðgang að dagatali og öðrum skipulagsforritum, virkjar staðsetningarbúnað spjaldtölvunnar og ýmislegt fleira. Hægt er að nota spjaldtölvuna án þess að vera með Apple-auðkenni en þá bara þau öpp sem fyrir eru í spjaldtölvunni og ekki er hægt að láta spjaldtölvuna taka öryggisafrit í iCloud og ekki hægt að virkja Find my iPad.

Til að búa til Apple-auðkenni þarf að gefa upp fullt nafn nemandans, fæðingardag og ár og virkt netfang. Einnig þarf að búa til lykilorð. Þar sem reglur Apple heimila ekki notendum yngri en 13 ára að stofna sitt eigið Apple-auðkenni bað Spjaldtölvuverkefnið foreldra þeirra nemenda sem ekki voru orðnir 13 ára við afhendingu spjaldtölva haustið 2015 að stofna slíkt fyrir þau, en það voru þeir nemendur í 8. bekk sem áttu afmæli í september til desember það ár.

Við síðari afhendingarnar til nemenda á miðstigi útbjó upplýsingatæknideild Kópavogsbæjar netföng og lykilorð fyrir nemendur með samþykki foreldra. Umsjónarkennari og foreldrar höfðu því upplýsingar um Apple-auðkenni nemenda og gátu aðstoðað nemendur ef þeir gleymdu lykilorðinu sínu.

Lærdómur

Apple-auðkennið hefur að mínu mati verið stærsti einstaki þröskuldurinn í þessari innleiðingu. Strax í kennaraafhendingunni komu upp vandkvæði við að stofna Apple-auðkenni. Það á að vera hægt að stofna Apple-auðkenni án þess að þurfa að skrá inn kreditkort. Hjá nokkrum kennurum var það ekki hægt og þeir þurftu því að slá inn sín eigin kort og reyna að taka þau út síðar. Eðlilega var mörgum illa við það en Spjaldtölvuverkefnið bjó til leiðbeiningar sem sýndu hvernig hægt væri að taka kortaupplýsingarnar út og setti á vefinn hjá sér.

Þeir sem eiga iPhone þurfa líka að vera með Apple-auðkenni og því áttu margir unglingar slíkt auðkenni haustið 2015. Þeir höfðu val um hvort þeir notuðust við það auðkenni eða Apple-auðkenni sem Kópavogsbær útvegaði þeim. Það voru mistök því Kópavogsbær hafði upplýsingar um lykilorð þeirra auðkenna sem bærinn útvegaði en ekki lykilorð fyrir persónuleg auðkenni nemenda og ef þeir nemendur gleymdu því lykilorði voru hvorki kennarar né foreldrar með þau. Þá þurfti að fara í vafra og endursetja lykilorðið með því að fá nýtt í tölvupósti en í einhverjum tilvikum mundu nemendur ekki notendanafn eða lykilorð til að komast í póstinn. Í þeim tilvikum þurftu nemendur að stofna nýtt Apple-auðkenni.

Við afhendingar á miðstigi útvegaði Kópavogsbær öllum nemendum netfang og lykilorð sem átti að nota til að búa til Apple-auðkenni sem nemendum var skylt að nota. iPad býður upp á að hægt sé að vera með mörg Apple-auðkenni og þeir nemendur sem áttu slíkt fyrir máttu nota það til persónulegra nota ef þeir vildu. Ef þeir gleymdu lykilorði þess auðkennis var það ekki vandamál Spjaldtölvuverkefnisins.

Þegar spjaldtölvur skemmast eða bila þurfa notendur að skrá sig út af iCloud en þá þarf notandinn að muna lykilorðið á Apple-auðkenninu. Það hefði sparað mikla vinnu ef Spjaldtölvuverkefnið hefði haft þessi lykilorð í sínum skrám hjá öllum notendum strax í upphafi.

RAFBÆKUR

Kennarar og nemendur sækja sér rafbækur aðallega með tvennum hætti; af vef Menntamálastofnunar eða í gegnum Content sem er hluti af AirWatch-umsýslukerfinu.

Menntamálastofnun heldur úti tveimur rafbókarskápum. Í öðrum rafbókarskápnum eru rafbækur á venjulegu PDF formi en í hinum gagnvirkar rafbækur. Nemendur og kennarar geta hlaðið niður PDF-bókunum í sínar spjaldtölvur, annað hvort í iBooks eða í PDF-lesara en með þeim hætti geta notendur yfirstrikað texta og skrifað inn í bækurnar.

rafbaekur
Rafbókarskápar Menntamálastofnunar

Ekki eru allar þær námsbækur sem eru á pappírsformi og notaðar eru í grunnskólum Kópavogs aðgengilegar í rafbókarskápum Menntamálastofnunar. Sumar bækur eru á læstu svæði kennara vegna höfundarréttarmála eða af öðrum ástæðum. Ef kennari óskar eftir því að bók á þessu læsta svæði sé aðgengileg fyrir nemendur hefur Spjaldtölvuverkefnið fengið leyfi Menntamálastofnunar til að setja þær á læsta svæðið Content sem er rafbókarskápur í öllum spjaldtölvum Kópavogsbæjar.

Allir kennarar fengu rafbókina Nýjar námsleiðir eftir Rakel G. Magnúsdóttur í sínar spjaldtölvur en samið var við höfund um að dreifa bókinni með þessum hætti. Bókin geymir leiðbeiningar um notkun nokkurra algengra appa, hugmyndir að verkefnum, kennslufræðilegar útlistanir og fleira.

Lærdómur

Kennarar og nemendur þeirra sækja rafbækur í mun minna mæli en Spjaldtölvuverkefnið reiknaði með í upphafi. Einungis þrjár bækur í rafbókarskápnum Content hafa verið sóttar af fleiri en eitt hundrað notendum (134 skipti sú mest sótta) og því lágt hlutfall nemenda í Kópavogi sem sækir rafbækur. Reyndar hafa verið mikil tæknileg vandræði með rafbókarskápinn Content en hann opnast stundum ekki í tækjum notenda og má vera að það skýri litla notkun að hluta.

Menntamálastofnun hefur sömu sögu að segja um niðurhal rafbóka. Sviðsstjóri miðlunarsviðs stofnunarinnar kom á fund Spjaldtölvuverkefnisins vorið 2017 og á þeim fundi kom fram að á landsvísu eru rafbækur eru sóttar í mun minna mæli en Menntamálastofnun hafði reiknað með. Niðurhalið var ekki greint niður eftir landssvæðum eða sveitarfélögum svo ekki er vitað hve stór hlutur Kópavogs er í þessu niðurhali. Verið er að kanna hvort hægt sé að fá þessar niðurhalstölur úr Kópavogi.

 

SPJALDTÖLVUR – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Það þarf að vega og meta vandlega kosti og galla spjaldtölva og hulstra áður en sá búnaður er keyptur
  • Geymsluminni spjaldtölva í bekkjarsettum þarf að vera stærra en 16 GB og helst jafn stórt og í nemendatækjum sem í Kópavogi hefur verið 64 GB
  • Það þarf einhver að bera ábyrgð á og hafa umsjón með bekkjarsettum
  • Best er að þeir sem sjái um og beri ábyrgð á spjaldtölvunum útbúi einnig Apple-auðkenni fyrir nemendur
  • Hvetja þarf kennara og nemendur til að nýta meira þær rafbækur sem eru í boði