Leiðsögn, ráðgjöf og stefnumótun

Margvíslegur stuðningur er nauðsynlegur þegar breyta á kennsluháttum með innleiðingu spjaldtölva. Stuðningur þarf að vera við skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra. Á þessari síðu segir frá þeim stuðningi sem Kópavogsbær stóð fyrir. Sagt er frá ráðningu sérfræðinga í upplýsingatækni og hvernig hinir ýmsu hópar voru myndaðir til að styðja við verkefnið.

RÁÐNING STARFSFÓLKS

Verkefnastjóri

Í mars 2015 var Björn Gunnlaugsson ráðinn verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í grunnskólum Kópavogs og hóf hann störf 1. apríl. Björn hafði stýrt spjaldtölvuinnleiðingu í Norðlingaskóla og Dalvíkurskóla og hafði því reynslu af því að stýra innleiðingu á spjaldtölvum í grunnskólum. Björn þekkti líka til í Kópavogi þar sem hann starfaði sem aðstoðarskólastjóri í Smáraskóla þegar hann var ráðinn í þetta starf.

Hlutverk verkefnastjóra er að hafa yfirumsjón með spjaldtölvuinnleiðingunni. Hann er í reglulegum samskiptum við skólastjórnendur, yfirmenn menntasviðs Kópavogs, forstöðumann upplýsingatæknideildar og bæjarstjóra. Hann situr í Stýrihópi og Verkefnahópi en nánar er fjallað um hlutverk þessara hópa hér neðar á síðunni. Verkefnastjóri vinnur náið með þremur kennsluráðgjöfum og tæknistjóra og saman mynda þessir fimm einstaklingar svokallað spjaldtölvuteymi. Verkefnastjórinn var ráðinn til þriggja ára og rennur ráðningasamningur hans út vorið 2018.

Lærdómur

Ráða hefði átt verkefnastjórann fyrr í ferlinu. Val á gerð spjaldtölva var í janúar og upphaflegar áætlanir gengu út á að skipta þeim niður á skólana og láta þá sjá um innleiðinguna. Sem betur fer báru menntayfirvöld í Kópavogi gæfu til að ráða verkefnastjóra og svo kennsluráðgjafana í framhaldi. En þar sem þeir komu til starfa þegar aðeins tveir mánuðir voru eftir af skólaárinu gafst lítill sem enginn tími til að undirbúa kennara fyrir spjaldtölvuvæðinguna á því skólaári eins og fram kemur á síðu um kennara.

KENNSLURÁÐGJAFAR

kristin
Kristín Björk kennsluráðgjafi í skapandi vinnu

Eftir að verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingarinnar var kominn til starfa var fljótlega ákveðið að ráða þrjá kennsluráðgjafa í upplýsingatækni til að starfa. Gerð var krafa um að þeir hefðu kennslureynslu úr grunnskóla og hefðu viðbótarmenntun á sviði upplýsingatækni. Gengið var frá ráðningu þeirra í maí 2015 og þeir ráðnir frá 1. ágúst 2015. Kennsluráðgjafarnir voru og eru Kristín Björk Gunnarsdóttir sem starfaði áður sem upplýsingatæknikennari í Salaskóla í Kópavogi, Eyþór Bjarki Sigurbjörnsson kennari og margmiðlunarhönnuður en hann kom úr Háaleitisskóla í Reykjavík og Sigurður Haukur Gíslason höfundur þessa vefs og kennari við Snælandsskóla í Kópavogi. Kennsluráðgjafarnir og verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingarinnar mynda saman teymi sem er oft kallaði Spjaldtölvuteymið í daglegu tali en á þessum vef nefnt Spjaldtölvuverkefnið.
Kennsluráðgjafarnir áttu að vera nemendum, kennurum og skólastjórnendum til halds og trausts varðandi innleiðingu og notkun á spjaldtölvum. Ráðning kennsluráðgjafanna er ótímabundin.

Lærdómur

Ráða hefði mátt kennsluráðgjafa fyrr í ferlinu en 1. ágúst 2015 þegar haft er í huga að afhending kennaratækja fór fram í júní 2015 og nemendatækja í september 2015. Þá hefðu þeir haft rýmri tíma til að skipuleggja námskeið og fleira er sneri að afhendingu tækjanna. Við kennsluráðgjafarnir vorum þó til staðar þegar kennaratækin voru afhent í júní 2015.

Samstarf okkar í teyminu hefur verið afar gott og farsælt og við vinnum mjög vel saman. Við erum öll ólíkir einstaklingar og styrkleikar okkar liggja því víða. Björn verkefnastjóri hefur mikla stjórnunarreynslu og þekkingu á upplýsingatækni og jafnframt ríka þjónustulund og hæfilegt æðruleysi gagnvart verkefninu, sem skiptir máli í svona umfangsmikilli innleiðingu, þar sem ýmislegt getur farið úrskeiðis, eins og þegar mörg hundruð hulstur fyrir spjaldtölvur skiluðu sér ekki til landsins sem gerði að verkum að fresta þurfti afhendingu spjaldtölva í tveimur árgöngum eða þegar reiðir foreldrar og kennarar finna þessari innleiðingu allt til foráttu. Þá er um að gera að fara ekki á taugum og bregðast ekki við í fljótfærni. Kristín Björk hefur mikla reynslu af að kenna börnum upplýsingatækni og ekki síður að kenna kennurum að nýta upplýsingatækni í kennslu. Hún nær því einstaklega vel til nemenda og kennara sem skiptir mjög miklu máli í þessu starfi. Eyþór Bjarki hefur mikla kennslureynslu af mið- og unglingastigi og menntun hans á sviði margmiðlunar hefur komið Spjaldtölvuverkefninu einstaklega vel. Hann hefur yfirumsjón með uppsetningu og útliti á öllu því efni sem Spjaldtölvuverkefnið sendir frá sér og hefur meðal annars hannað öll veggspjöldin sem Spjaldtölvuverkefnið hefur gert. Ég sjálfur hef mikla reynslu af að kenna unglingum og svo hefur reynsla mín af trúnaðarstörfum fyrir kennara nýst mér vel. Í meistaranámi mínu sem nú er að ljúka hef ég lært mikið um stafræna borgaravitund og má heita sérfræðingur Spjaldtölvuverkefnisins í þeim málum.

Skipulag á kennsluráðgjöf

Grunnskólar Kópavogs eru níu og sá því hver kennsluráðgjafi um þrjá skóla. Skólunum var skipt niður á kennsluráðgjafana með þeim hætti að hver kennsluráðgjafi fékk einn fjölmennan skóla, einn fámennan og einn skóla sem var í tveimur byggingum en svo vildi til að þannig var ástatt um þrjá skóla í Kópavogi. Ákveðið var að kennsluráðgjafar væru úti í skólunum þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga að sinna kennsluráðgjöf. Upphaflega var ætlunin að skipta hverjum degi úti í skólunum í þrennt þannig að hver kennsluráðgjafi myndi fara í alla sína þrjá skóla hvern dag frá þriðjudegi fram á fimmtudag. Með því móti væri hægt að veita skólunum þjónustu á hverjum degi þessa þrjá daga. Áður en það kom til framkvæmda var þessu breytt og ákveðið að skipta dögunum í tvennt en ekki þrennt þar sem skólarnir eru ekki í göngufæri hverjir frá öðrum og því mikill tími sem færi í ferðir milli skóla. Hver skóli fékk því heimsókn kennsluráðgjafa tvo daga í viku. Skólarnir gátu komið með óskir um hvaða daga kennsluráðgjafi kæmi.

Tvo daga í viku eða á mánudögum og föstudögum unnu kennsluráðgjafarnir með verkefnastjóra og tæknistjóra að stefnumótun, námsefnisgerð, undirbúningi námskeiða og að leysa þau verkefni og vandamál sem komu upp í innleiðingunni. Einnig gafst kennsluráðgjöfum tækifæri til að sinna endurmenntun sinni á þessum dögum sem er mjög mikilvægt í þeirra starfi.

Skólarnir höfðu alveg frjálsar hendur um hvernig kröftum kennsluráðgjafa var varið þegar þeir voru í skólunum. Sett var upp pöntunarskjal þar sem kennarar gátu bókað tíma, hvor sem þeir vildu fá einstaklingsráðgjöf eða aðstoð inni í kennslustund. Eftir kennslu voru kennsluráðgjafar með ýmiss konar námskeið fyrir kennara bæði valkvæð og svo fyrir alla kennara á fundartíma.

kennaranamskeid
Kennarar í Lindaskóla á námskeiði

Viðvera mín í skólunum breyttist svo í febrúar 2016 á þann hátt að í stað þess að vera tvo hálfa daga í skólunum var ég einn heilan dag í hverjum skóla. Á fyrsta ári innleiðingar töldum við nauðsynlegt að koma tvisvar í viku í hvern skóla til að kennarar þyrftu ekki að bíða lengi eftir þjónustu. Gallinn við þetta fyrirkomulag var að kennarar voru ekki alveg með það á hreinu hvenær nákvæmlega kennsluráðgjafi var í skólanum. Sem dæmi má nefna að kennari kom að máli við kennsluráðgjafa að morgni og óskaði eftir því að fá aðstoð með eitthvað þegar hann væri búinn að kenna eftir hádegi, en þá var kennsluráðgjafi farinn í annan skóla. Það var því hentugra að vera heilan dag í hverjum skóla og auðveldara fyrir kennara að muna hvaða dag kennsluráðgjafi kæmi.

Starfslýsingu kennsluráðgjafa má sjá hér.

Lærdómur

Nýting á kennsluráðgjöfum úti í skólunum hefði mátt vera betri. Kennsluráðgjafar sendu póst reglulega á kennara og minntu á sig og hvöttu þá til að skrá sig á pöntunarskjalið eða koma bara að máli við kennsluráðgjafa þegar hann væri í skólanum. Fyrstu mánuðina höfðu kennsluráðgjafar aðsetur í vinnuherbergjum kennara en til að verða sýnilegri færðu þeir sig yfir í kaffistofu starfsmanna þannig að ekki færi framhjá kennurum þegar kennsluráðgjafi var í húsi. Skólastjórar hvöttu kennara til að nýta sér aðstoð kennsluráðgjafa en það dugði ekki til. Í skólum Kristínar var meiri eftirspurn eftir aðstoð og veltum við því fyrir okkur af hverju það stafaði. Er það af því að hún er kona og konur eru 80% af grunnskólakennurum? Það væri áhugavert að rannsaka frekar. Svo er það líka rannsóknarefni af hverju kennarar nýta sér ekki að fá menntaðan grunnskólakennara sem vinnur sem kennsluráðgjafi inni í kennslustund sér til aðstoðar. Þegar við fórum inn í kennslustundir til kennara voru þeir svo þakklátir eftir á og ánægðir en létu samt líða langan tíma þar til þeir óskuðu eftir aðstoð næst.

Það voru samt fjórir til sex kennarar í mínum skólum sem leituðu til mín reglulega. Þeir vildu bæði fá ráðleggingar og hugmyndir en einnig fá mig inn í kennslustundir til að sýna og kenna nemendum á öpp eða annað sem tengdist spjaldtölvum. Það voru því kennarar sem höfðu mestu færnina í notkun spjaldtölva sem nýttu sér mest aðstoð kennsluráðgjafa þegar þeir voru í húsi.

Hlutverk skólastjórnenda er mikilvægt og áhugavert fyrir mig sem kennsluráðgjafa að sjá starf þeirra frá öðru sjónarhorni en sem starfandi kennari sem ég var áður. Þeir þurfa að veita kennurum hæfilegt aðhald, það er að gefa þeim skýr skilaboð til hvers er ætlast og að nýta þær bjargir sem eru til staðar eins og krafta kennsluráðgjafa. Skólastjórnendur geta þó ekki skyldað kennara að taka á móti kennsluráðgjafa í kennslustundum en þeir geta skipulagt námskeið á fundartíma sem allir eiga að mæta á. Það virkar miklu betur heldur en að vera með námskeið í bundinni viðveru kennara því þeir geta þá verið á alls konar teymisfundum og komast ekki á námskeið eða nota það sem ástæðu að fara ekki á námskeið.

Kennsluráðgjafar eiga almennt ekki að sinna tæknilegri þjónustu, svo sem í tengslum við þráðlaust net eða bilanir í spjaldtölvum en hvorki nemendur né kennarar gera greinarmun á tölvuumsjónarmönnum eða kennsluráðgjöfum. Flestir gera ráð fyrir að fólk sem gefur sig út fyrir að vera svona frótt um kennslufræði tengda upplýsingatækni hljóti að kunna allt sem varðar tæknimálin. Mikil vinna kennsluráðgjafa fyrsta ár innleiðingar fór því í að leysa tæknivandamál tengd spjaldtölvum.

Mikilvægt er að kennurum sé gefinn tími til að sinna breyttum kennsluháttum eins og innleiðingu spjaldtölva í skólastarf. Skólastjóri þarf að gera ráð fyrir því á skóladagatali og í skipulagi. Tímaskortur er stærsta einstaka ástæðan sem kennarar gefa fyrir að vera ekki komnir lengra í innleiðingunni.

Húsnæðismál

Spjaldtölvuverkefnið hafði til að byrja með aðsetur í einni kennslustofu í Kópavogsskóla. Hún var rúmgóð á fínum stað nálægt kaffistofu starfsmanna og því miðsvæðis í skólanum. Ókosturinn var að við urðum oft fyrir truflun af hávaða frá nemendum sem voru að fara eða koma úr frímínútum og svo var leiksvæði nemenda beint fyrir neðan glugga kennslustofunnar. Eins hikuðu nemendur og kennarar ekki við að banka upp á í tíma og ótíma þegar þeir áttu í vandræðum með eitthvað sem tengdist spjaldtölvunum. Þetta var okkar vinnuaðstaða en ekki þjónustuver þó svo við værum oft boðin og búin að aðstoða. Kópavogsskóli fékk því mun meiri aðstoð en aðrir skólar í Kópavogi þennan tíma sem Spjaldtölvuverkefnið hafði þar aðstöðu.

Vegna fjölgunar nemenda í Kópavogsskóla á haustönn 2016 þurfti skólinn að fá kennslustofuna sína aftur og Spjaldtölvuverkefnið flutti til bráðabirgða í desember 2016 í Fannborg 2 þar sem bæjarskrifstofur Kópavogs voru til húsa. Sumarið 2017 fékk svo Spjaldtölvuverkefnið inni í Hábraut 2 sem áður hýsti Tónlistarsafn Íslands. Spjaldtölvuverkefnið deilir þar húsnæði með bæjarstjórn Kópavogs sem heldur þar sína fundi en þess á milli nefnist húsnæðið Snjallheimar.

snjallheimarvelkomin
Eyþór Bjarki kennsluráðgjafi að bjóða alla velkomna í Snjallheima

Lærdómur

Það hefur sína kosti og galla að vera með aðsetur í skóla þessa tvo vikudaga sem spjaldtölvuteymið er að vinna saman. Kostirnir eru að það er styrkur fyrir skóla að hafa Spjaldtölvuverkefnið á staðnum. Það er líka kostur fyrir Spjaldtölvuverkefnið að geta prófað ýmsa hluti eins og forprófanir á uppsetningarferli og fleiri tæknileg atriði. Ókosturinn er áðurnefnd truflun. Kennarar og nemendur hikuðu ekki við að banka upp á þó að við settum Ekki ónáða!-spjald á hurðina þegar við vorum að funda. Húsnæðið í Fannborg 2 var bara til bráðabirgða þar sem bæjarskrifstofurnar voru að flytja í nýtt húsnæði á Digranesvegi 1. Þar hafði menntasvið bæjarins aðsetur en ekki var pláss fyrir Spjaldtölvuverkefnið þar líka. Samkvæmt skipuriti tilheyrir Spjaldtölvuverkefnið menntasviði en samt var ekki gert ráð fyrir því í nýju húsnæði bæjarskrifstofa að Digranesvegi 1. Það kom svolítill þrýstingur frá menntasviði á að við værum frekar úti í skólum en að Hábraut 2 en við töldum betra að vera í húsnæði þar sem ekki væri mikið ónæði og halda mætti námskeið fyrir allt að 30 manns í einu.

Tæknistjóri

Hlutverk tæknistjóra er að sjá um tæknilega umsýslu spjaldtölvanna, það er að þær séu rétt skráðar í AirWatch-kerfið og tengist sjálfkrafa þráðlausu neti skóla. Tæknistjóri er ekki í fullu starfi við innleiðinguna heldur gegnir hann líka starfi kerfisstjóra bæjarins.

Lærdómur

Það skipti okkur kennsluráðgjafanna miklu máli að tæknistjóri væri hluti af Spjaldtölvuverkefninu, sérstaklega fyrsta árið því þá voru tæknivandamálin mun meiri en við reiknuðum með í upphafi. Þegar kennsluráðgjafi var úti í skólunum var gott fyrir hann að geta haft beint samband við einn og sama aðilann þegar leysa þurfti úr tæknivandamálum. Á sameiginlegu vinnudögum okkar í Spjaldtölvuverkefninu var gott að hafa tæknistjóra með í ráðum þegar við vorum að skipuleggja starfið.

STÝRIHÓPUR

Allra veigamestu ákvarðanirnar varðandi kaup spjaldtölva og aðrar er snerta fjármál innleiðingarinnar eru teknar af stýrihópi um spjaldtölvuverkefnið og heldur hann fundi um það bil einu sinni í mánuði. Í honum er verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingarinnar, bæjarstjóri og bæjarritari, forstöðumaður upplýsingatæknideildar og sviðsstjóri menntasviðs.

Lærdómur

Það er mikilvægt að þeir sem bera fjárhagslega ábyrgð á verkefninu eins og bæjarstjóri séu vel upplýstir og komi að allri ákvarðanatöku um fjármál.

VERKEFNAHÓPUR

Allra veigamestu ákvarðanir varðandi faglegu hliðar innleiðingarinnar voru teknar af verkefnahópi um spjaldtölvuverkefnið en hann var stofnaður haustið 2014. Í hópnum þá voru nokkrir skólastjórnendur og deildarstjóri grunnskóladeildar en frá haustinu 2015 bættust kennsluráðgjafarnir þrír, verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingarinnar og formaður Samkóp í hópinn en Samkóp eru samtök foreldrafélaga í Kópavogi.

Lærdómur

Þessi hópur fór vel af stað fyrsta ár innleiðingarinnar og fundaði alls sex sinnum skólaárið 2015-2016 en einungis tvisvar sinnum annað árið. Ég veit ekki hvað olli því en það þyrfti að rannsaka betur. Ábyrgðin á faglegri stefnu seinna árið var nær eingöngu á höndum verkefnastjóra og kennsluráðgjafanna.

INNLEIÐINGARTEYMI

Í hverjum skóla er teymi kennara sem hefur tekið að sér það hlutverk að draga vagninn við innleiðingu spjaldtölva í skólanum. Hlutverk innleiðingarteymis er að vera öðrum kennurum til ráðgjafar og aðstoðar um efni, aðferðir og notkun spjaldtölva í námi og kennslu. Teymið kemur einnig að stefnumótun skólans í samvinnu við stjórnendur og á hver skóli að eiga sér sína innleiðingaráætlun þar sem markmið og leiðir eru skilgreind nánar. Innleiðingarteymi ber ábyrgð á nánari útfærslu innleiðingarinnar í sínum skóla og aðlagar hana að skólastarfinu. Það er misjafnt eftir skólum hversu margir eru í teymunum, allt frá fjórum og upp í níu manns. Einnig er misjafnt hvort skólastjórnendur eru í teymunum en í þeim öllum eru tölvuumsjónarmenn, upplýsingatæknikennari auk áhugasamra kennara og leiðtoga innleiðingar skóla en um þá er fjallað í næsta kafla.

Það er misjafnt eftir skólum hve teymin funda oft en yfirleitt tvisvar til fjórum sinnum í mánuði og eru það skólastjórar sem bera ábyrgð á að boða fundi eða leiðtogar innleiðingar skóla.

“Nánar má lesa um innleiðingarteymin sem einnig eru kölluð leiðtogateymi í meistararitgerð Maríu Jónsdóttur, „Þetta eru þeir sem leiða og draga vagninn“. Hvernig gegna leiðtogateymi í innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs hlutverki sínu? sem finna má hér.

Lærdómur

Innleiðingarteymin fóru öll vel af stað haustið 2015 og mikill hugur í kennurum. Þegar leið á veturinn þá fækkað þeim sem drógu vagninn og í sumum skólum voru það einn eða tveir einstaklingar sem báru hitann og þungann af innleiðingunni þó svo að teymismeðlimir mættu á teymisfundi. Skólastjórar þurfa að halda vel utan um innleiðingarteymin í sínum skóla og sjá til þess að þau fundi reglulega.

Samráðsfundir innleiðingarteyma

Spjaldtölvuverkefnið skipulagði sameiginlega fundi innleiðingarteyma í janúar og nóvember 2016, þar sem teymi úr þremur skólum hittust til skrafs og ráðagerða. Skólarnir voru valdir þannig að einn skóli hvers kennsluráðgjafanna þriggja voru saman á fundi og voru því allir kennsluráðgjafarnir á fundunum og stýrðu þeim. Vegna fjölda kennara í teymunum þótti ekki ráðlegt að hafa öll teymin úr grunnskólunum níu saman á fundi.

Lærdómur eftir janúarfundina 2016

Fundirnir voru mjög gagnlegir en oft var erfitt að finna tímasetningu sem hentaði öllum. Á þessum fundum komu fram gagnlegar ábendingar og kennarar voru duglegir að segja hver öðrum frá því hvernig þeir notuðu spjaldtölvurnar í kennslu. Á fundunum kom fram ánægja með Facebook-hópinn og að kennarar sæktu þangað hugmyndir með því að nota leitargluggann. Kennsluráðgjafar höfðu hvatt kennara til að segja frá góðum verkum sem þeir eru að fást við í sínu starfi en á þessum fundum kom fram að kennarar væru feimnir að segja frá sínu starfi og töldu betra að kennsluráðgjafarnir segðu frá því.

Mikilvægt er að kennarar endurskipuleggi starf sitt þegar breyta á kennsluháttum með því að innleiða spjaldtölvur. Vinna með spjaldtölvuna á ekki að bætast ofan á aðra vinnu kennara heldur á að gefa kennaranum tækifæri til að endurskoða verkefni og vinnubrögð, taka eitthvað út og setja annað inn í staðinn. Spjaldtölvan á að auðvelda kennurum vinnuna til lengri tíma. Kennarar virðast vera ragir við að sleppa því sem þeir hafa gert áður og því gengur þeim erfiðlega að finna tíma til að prófa eitthvað nýtt.

Á þessum fundum kom einnig fram að skólastjórnendur forgangsröðuðu ekki þessu verkefni innan skólans og að sumir þeirra væru jafnvel á móti innleiðingunni. Það rímar alveg við upplifun kennsluráðgjafa og verkefnastjóra innleiðingarinnar. Menntasvið hefði átt að halda öðrum verkefnum í lágmarki á meðan innleiðingin væri í gangi en ýmiss konar þróunarverkefni voru í gangi á sama tíma.

Tímaskortur kennara var einnig til umræðu á þessum fundum og að ígrundun væri mikilvæg. Það væri ekki gott að gera allt á hlaupum.

Starf kennsluráðgjafa var til umræðu og ánægja með örnámskeið sem þeir hafa haldið í sínum skólum. Kennarar sögðu það gott að hafa aðgang að kennsluráðgjöfunum en ekki endilega að fá þá inn á gafl til sín. Það þekkjum við kennsluráðgjafarnir vel. Það er fín lína á milli þess að vera hjálplegur og uppáþrengjandi.

Sumir kennararnir sögðu að spjaldtölvurnar væru alger bylting og sérstaklega fyrir þá sem eru með einstaklingsnámskrá.

Almenn ánægja var með notkunina á bekkjarsettunum en allir sammála því að geymsluminni þeirra væru fljót að fyllast. Þessar athugasemdir eru réttmætar enda eru geymslurýmið í spjaldtölvum í bekkjarsettunum aðeins 16 GB. Nánar er fjallað um bekkjarsettin á síðunni Spjaldtölvurnar.

Umræða var um hlutverk tölvuvera eftir tilkomu spjaldtölvunnar og hvort þeirra sé þörf. Víða hafa tölvuverin verið færð inn á bókasafn og eru hluti af upplýsingaveri.

Stundataflan var oft rædd og þá að hún væri hamlandi á skólastarf með spjaldtölvum. Sumir vildu meina að hún væri gamaldags og jafnvel óþörf. Það eru til dæmis mikil tækifæri sem felast í því að unglingarnir vinni með yngri nemendum en það er illmögulegt með niðurnjörfaðri stundatöflu.

snae 2
Myndir segja meira en mörg orð

Lærdómur eftir nóvemberfundinn 2016

Kennarar voru betur undirbúnir enda búnir að vera með tækin í eitt ár. Spjaldtölvan virtist orðin eitt af verkfærunum í verkfærakistu kennarans. Mikil endurnýjun á kennurum hafði verið í einum skólanum og þar með hafa sumir í kennarahópnum litla sem enga reynslu af notkun spjaldtölva í skólastarfi en þeir voru jákvæðir og tilbúnir að læra.

Á þessum fundum kom fram að einhverjir foreldrar hefðu lýst yfir óánægju með að spjaldtölvurnar færu heim þegar engin væri heimavinnan sem krefðist notkun spjaldtölvu. Tölvurnar færu því heim sem leiktæki. Nokkrir kennarar tóku undir þessa gagnrýni og töldu að tækin hefðu farið of snemma heim eftir afhendingu til nemenda í 5. og 6. bekk. Í stað þess að nemendur færu heim með tækin nokkrum dögum eftir afhendingu hefði átt að bíða í nokkrar vikur meðan nemendur væru að læra á tækin og að nýta þau til náms. Kennsluráðgjafar höfðu heyrt þessar gagnrýnisraddir áður og á þær ber að hlusta en Spjaldtölvuverkefnið taldi það einungis frestun á vandamálinu að seinka heimför tækjanna. Þetta voru ný og spennandi tæki fyrir marga nemendur og viðbúið að þeir myndu nota þau mikið fyrstu mánuðina.

Til að bregðast við þessari gagnrýni gætu kennarar oftar lagt fyrir heimanám sem krefðist þess að spjaldtölvan væri notuð við vinnuna. Einnig mætti senda nemendur heim og biðja þá að sýna foreldrum sínum einhver spjaldtölvuverkefni sem þeir hafa unnið að í skólanum. Í þeim tilvikum þar sem foreldrar eru virkilega í vandræðum með spjaldtölvunotkun barna sinna höfum við bent kennurum og skólastjórnendum á að þeir bjóðist til að geyma spjaldtölvu viðkomandi nemanda í skólanum í viku eða tvær þó að almenna reglan sé sú að spjaldtölvurnar fari heim með nemendum.

Á þessum fundum kom fram að skylduverkefnin í stafrænni borgaravitund sem og skylduverkefnin sem fjallað var um á síðunni Námsefni og veitur væru ekki mikið notuð. Kennarar hefðu ekki tíma og gætu ekki „troðið þessu ofan á allt annað“ svo notuð séu þeirra orð. Þessi verkefni þyrftu að liggja fyrir í upphafi skólaárs. Þó má geta þess að þessi verkefni taka einungis eina til tvær kennslustundir og spyrja má hvort kennarar séu virkilega með svo þétta kennsluáætlun yfir veturinn að þeir komi þessu ekki við.

Bekkjarreglur í einum skóla voru ræddar og þóttu helst til stífar. Spjaldtölvuverkefnið hefur lagt á það áherslu við skóla, þegar umgengnisreglur varðandi spjaldtölvurnar eru settar, hvort fyrirliggjandi skólareglur dugi ekki. Agabrot tengd spjaldtölvunotkun eiga að fá sömu meðhöndlun og önnur agabrot. Mikið var rætt um aldurstakmörk á samfélagsmiðlum og mjög skiptar skoðanir hvort eigi að banna notkun samfélagsmiðla alfarið í og fyrir utan skóla eða einskorða bannið við skóla. Spjaldtölvuverkefnið leggur áherslu á að virða aldurstakmörk en reglur verða samt að vera raunhæfar. Það er óvinnandi vegur fyrir kennara að fylgjast með því daglega hvort nemendur séu með öpp sem ekki hæfa þeirra aldri auk þess sem nemendur komast á marga samfélagsmiðla í gegnum vafra og ekki er hægt að banna notkun á þeim. Niðurstaðan á þessum fundi var að upplegg Spjaldtölvuverkefnisins sem er fræðsla og að kenna ábyrga notkun væri affarasælast. Það þyrfti að upplýsa foreldra betur um þá samfélagsmiðla sem eru í gangi á meðal barna í 5.-7. bekk og hvetja þá til að ræða saman.

Innleiðingin í 5. bekk gekk hægar en í 6. og 7. bekk hálfu ári áður. Hluti af skýringunni er að nemendur eru ári yngri en einnig að kennarar nemenda í 5. bekk höfðu í nær öllum tilvikum tekið við þessum nemendum þá um haustið og voru að kynnast nemendunum um leið og þeir voru að innleiða spjaldtölvurnar.

Peppfundur í nóvember 2016

peppEinn svokallaður peppfundur hefur verið haldinn með innleiðingarteymunum þar sem kennararnir fengu að prófa þrívíddargleraugu og hópeflisleikinn Breakout EDU en hann er bæði fyrir börn og fullorðna. Í lokin voru léttar veitingar sem þótti tilhlýðilegt þar sem þessi fundur var eftir hádegi á föstudegi.

 

Lærdómur

Markmiðið með þessum fundi var bæði að hvetja og þakka kennurum í innleiðingarteymunum og um leið að efla tengsl milli kennara skólanna. Þetta var vel heppnað í alla staði og mætti gera oftar.

LEIÐTOGI INNLEIÐINGAR Í SKÓLA

Í öllum grunnskólunum níu eru svokallaðir leiðtogar innleiðingar, stundum kallaðir lykilstarfsmenn. Hlutverk þeirra er að vera tengiliður skólans við verkefnisstjóra og kennsluráðgjafa og bera ábyrgð á að innleiðingarteymin fundi reglulega í samráði við skólastjóra. Þessir leiðtogar eru kennurum innan handar og veita þeim fagleg ráð er varðar notkun spjaldtölva í námi og kennslu. Í flestum tilvikum er þessi einstaklingur einnig tölvuumsjónarmaður skólans og/eða upplýsingatæknikennari.

Lærdómur

Þessir starfsmenn bera bæði starfsheitin sín með réttu. Þeir eru sannir leiðtogar og algert lykilatriði að Spjaldtölvuverkefnið hafi góðar tengingar inn í skólana.

SKÓLASTJÓRNENDUR

Skólastjórnendur gegna stóru hlutverki í innleiðingunni. Spjaldtölvuverkefnið hefur ekkert boðvald yfir kennurum og getur ekki sagt kennurum fyrir verkum. Því þarf að senda öll verkefni í gegnum skólastjórana eins og skylduverkefnin um stafræna borgaravitund sem fjallað var um á síðunni Námsefni og veitur. Kennsluráðgjafar veita kennurum, nemendum og skólastjórnendum ráð og segja hvað þeir geta gert en ekki hvað þeir eiga að gera. Það er svo í höndum þessara aðila hvernig þeir nýta þessi ráð. Þess vegna er nauðsynlegt að halda skólastjórum vel upplýstum á öllum stigum mála og verkefnastjóri innleiðingar fundar því með skólastjórnendum hvers skóla að minnsta kosti einu sinni á önn og þá einnig með kennsluráðgjafa hvers skóla til að ræða stöðu innleiðingar og hvaða skref ætti að taka næst.

Skólastjórar eru ábyrgir fyrir símenntun kennara og bera því ábyrgð á að kennarar mæti á þau námskeið sem Spjaldtölvuverkefnið leggur áherslu á og hvetji kennara sína til að nýta þá aðstoð sem er í boði í innleiðingunni.

kennaranamskeid6
Kennarar í Kársnesskóla á námskeiði

Skólastjórnendur úr öllum skólunum hafa hist á svokölluðum peppfundum einu sinni á skólaári þar sem erlendir ráðgjafar hafa komið með góð og gagnleg ráð fyrir þá og þeir um leið getað skipst á skoðunum og hugmyndum. Skólastjórnendur hafa líka hist allir saman einu sinni á ári með Spjaldtölvuverkefninu til skrafs og ráðagerða og til að stilla saman strengi.

Lærdómur

Fyrirlagning skylduverkefna um stafræna borgaravitund er gott dæmi um mikilvægi skólastjóra í innleiðingunni. Í einum skólanum báðust kennarar undan því að gera skylduverkefnin um stafrænu borgaravitundina vegna anna og samþykkti skólastjórinn að þau mættu mæta afgangi hjá kennurum. Þetta var svo síðar eini skólinn þar sem varð mikil óánægja foreldra í einum árgangi á miðstigi, sem endaði með því að þeir skrifuðu harðort bréf til verkefnastjóra spjaldtölvuinnleiðingarinnar og sviðsstjóra menntasviðs þar sem þeir óskuðu eftir að bærinn hætti með þessa spjaldtölvuinnleiðingu. Spjaldtölvuverkefnið taldi beint samhengi á milli óánægju foreldra og skorts á fræðslu til handa nemendum um stafræna borgaravitund.

Mæting kennara á námskeið Spjaldtölvuverkefnisins var líka í beinu samhengi við hversu mikla áherslu skólastjórnendur lögðu á að kennarar mættu. Ef skólastjórar sýndu ekki áhuga í verki og mættu sjálfir ekki á námskeiðin var þátttaka kennara oft dræm.

STEFNUMÓTUN

Á haustmánuðum 2015 var skólunum sent sniðmát að stefnumótunarskjali varðandi notkun á spjaldtölvum og fleira tengt þeim. Markmiðið með þessu skjali var að hver skóli myndi aðlaga spjaldtölvunotkunina að skólastarfinu en ekki öfugt og það væri skjalfest hvar skólinn væri staddur og hvert skyldi stefna. Skólum var uppálagt að vinna skjalið með innleiðingarteymunum og það væri fullgert í lok skólaárs. Fengnir voru þrír utanaðkomandi sérfræðingar skólunum til aðstoðar. Sérfræðingarnir voru Ingvi Hrannar Ómarsson, Hjálmur Dór Hjálmsson og Ragnar Þór Pétursson. Hver þeirra var með þrjá skóla og funduðu með innleiðingarteymunum einu sinni í apríl og einu sinni í maí 2016.

Lærdómur

Stefnumótunarvinnan gekk mun hægar en við í Spjaldtölvuverkefninu reiknuðum með og vonuðumst til. Fyrir því voru margar ástæður en almennur tímaskortur var ein ástæða sem gefin var og svo skipti máli hversu mikla áherslu skólastjórar lögðu á þessa vinnu. Einn skólastjórinn lagði mikla áherslu á þetta og fundaði reglulega með sínu innleiðingarteymi og náði að klára stefnumótunina að mestu í árslok 2015. Þetta má telja enn eitt dæmið um hvað skólastjórar gegna stóru hlutverki í svona innleiðingarstarfi.

UPPSKERUHÁTÍÐIR

Tvær uppskeruhátíðir hafa verið haldnar í Salnum í Kópavogi. Fyrri uppskeruhátíðin var haldin 14. júní 2016 í lok fyrsta árs innleiðingar og voru allir kennarar í Kópavogi hvattir til að mæta og svo var viðburðurinn auglýstur á samfélagsmiðlum Spjaldtölvuverkefnisins og öðrum miðlum þar sem áhugafólk um upplýsingatækni í skólastarfi fylgist með. Mætingin var rúmlega 150 manns sem taldist nokkuð gott þar sem öllu formlegu skólastarfi var lokið þetta skólaárið. Kennarar úr öllum skólum Kópavogs voru með fjölbreyttar kynningar á verkefnum tengd spjaldtölvum og svo var enskur sérfræðingur í spjaldtölvunotkun í skólastarfi með erindi, Joe Moretti að nafni.

uppskera2
Nemendur að segja frá rafbókarvinnu á uppskeruhátíðinni 2017

Seinni uppskeruhátíð spjaldtölvuverkefnis var á afmæli Kópavogsbæjar 11. maí 2017 en núna voru það nemendur úr öllum skólum Kópavogs sem voru í aðalhlutverki. Þeir sögðu frá skemmtilegum og gagnlegum verkefnum sem þeir höfðu unnið með hjálp spjaldtölvunnar og voru skólum sínum og sér sjálfum til mikils sóma.

Lærdómur

Uppskeruhátíðirnar tókust vel og má telja til eftirbreytni.

FRÆÐSLA UTAN KÓPAVOGS

Innleiðing á spjaldtölvum af þessari stærðargráðu eins og í Kópavogi hefur vakið athygli og áhuga út fyrir sveitarfélagið. Sem dæmi má nefna að Spjaldtölvuverkefnið var með kynningu á upphafi innleiðingarinnar á Menntakviku í október 2015 en Menntakvika er árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Um svipað leyti voru kennsluráðgjafar með fræðslu fyrir kennara í Menntaskólanum í Kópavogi um notkun spjaldtölva í skólastarfi. Það kom til vegna þess að rektor Menntaskólans, Margrét Friðriksdóttir, var jafnframt formaður skólanefndar Kópavogs og var því öllum hnútum kunnug varðandi spjaldtölvuinnleiðinguna. Hún vildi að kennarar menntaskólans væru undirbúnir að taka við nýnemum sem væru vanir að nota spjaldtölvur í námi enda kemur meirihluti nýnemanna úr grunnskólum Kópavogs.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni stóð fyrir málþingi í tilefni Alþjóðlega netöryggisdagsins 2016 en hann er haldinn annan þriðjudag í febrúar ár hvert. Slagorð dagsins þetta ár var Taktu þátt í að gera netið betra! Kennsluráðgjafi Spjaldtölvuverkefnisins var þar með erindi og sagði frá hvernig unnið var með bekkjarsáttmála á miðstigi í tengslum við stafræna borgaravitund.

Kennsluráðgjafar og verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingarinnar voru með námskeið og erindi á Vorráðstefnu miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri í apríl 2016. Hún bar yfirskriftina „Snjallari saman“ og var tileinkuð notkun upplýsingatækni og miðlunar í skólastarfi.

Spjaldtölvuverkefnið hefur sótt UTÍS síðustu tvö ár og verið þar með erindi og námskeið en UTÍS er ráðstefna, vinnu-og menntabúðir um upplýsingatækni í skólastarfi haldnar á Sauðárkróki.

Spjaldtölvuverkefnið hefur einnig verið með fræðslu á Menntabúðum í Borgarnesi sem Kennarafélag Vesturlands stóð fyrir og á starfsdegi grunnskólakennara Garðabæjar í ágúst 2016.

Margir skólastjórnendur og sveitarstjórnarmenn utan af landi hafa óskað eftir að koma á fund með fulltrúum Spjaldtölvuverkefnisins til að fræðast um innleiðinguna þegar þeir hafa verið á höfuðborgarsvæðinu.

Að síðustu má nefna að verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar hefur verið beðinn að segja stuttlega frá innleiðingunni við ólík tækifæri allt frá kaffifundum eldri borgara í Kópavogi til alþjóðlegrar ráðstefnu náttúrufræðikennara.

Lærdómur

Áhugi fólks úr öðrum sveitarfélögum virðist hafa farið stigvaxandi frá upphafi innleiðingarinnar. Við erum boðin og búin að vera með kynningar og námskeið sé þess óskað og í öllum tilvikum hefur það fallið í frjóan jarðveg og við fengið þakklátar móttökur.

SAMSTARF VIÐ AÐILA UTAN KÓPAVOGS

Listasafn Íslands

Spjaldtölvuverkefnið ásamt nokkrum myndlistarkennurum úr Kópavogi fóru á fund með forsvarsmönnum Listasafns Íslands á vormánuðum 2016 með hugsanlegt samstarf í huga. Afraksturinn var sá að skólaárið 2016-2017 var settur saman hópur nemenda úr öllum grunnskólum Kópavogs til að hanna app og/eða vef til að gera safnakost Listasafns Íslands aðgengilegri og áhuga hvetjandi fyrir ungt fólk. Ingibjörg Hannesdóttir grunnskólakennari í Smáraskóla hefur borið hitann og þungann af þessu starfi. Skólaárið 2017-2018 fengu skólarnir í Kópavogi 1.800.000 króna styrk úr Sprotasjóði til að þróa app/leik/veflausn í íslenskri listasögu fyrir spjaldtölvuumhverfi. Samstarfsstofnanir eru Listasafn Íslands og Menntamálastofnun.

ennlok
Auglýsing þar sem auglýst er eftir nemendum til að taka þátt í Listasafnsverkefninu

Lærdómur

Þetta er dæmi um verkefni sem hefur gengið einstaklega vel og er frábært að sjá hvernig ein lítil hugmynd vex og verður að svona stóru og metnaðarfullu verkefni.

Menntamálastofnun

content
Content rafbókarskápurinn er hluti af AirWatch umsýslukerfinu

Samstarf við Menntamálastofnun er ekki formlegt heldur felst samstarfið aðallega í því að Spjaldtölvuverkefnið fær að setja þær námsbækur sem eru á læstu svæði stofnunarinnar í sinn rafbókarskáp (Content) en allir nemendur með spjaldtölvur hafa aðgang að honum. Með þeim hætti geta nemendur og kennarar sótt sér nær allar þær námsbækur sem Menntamálastofnun gefur út.

 

 

Lærdómur

Þetta óformlega samstarf hefur verið gott og sviðsstjóri miðlunarsviðs kom á fund Spjaldtölvuverkefnisins vorið 2017 til að ræða mögulega útvíkkun á því samstarfi.

UTANLANDSFERÐIR

Spjaldtölvuverkefnið hefur farið í fjórar utanlandsferðir til að afla sér þekkingar. Fyrsta ferðin var í október 2015 til sveitarfélagsins Odder í Danmörku. Odder var að hefja sitt fjórða ár þar sem allir nemendur grunnskólana í sveitarfélaginu höfðu aðgang að spjaldtölvu til persónulegra nota líkt og í Kópavogi. Með í för voru allir skólastjórar grunnskóla Kópavogs, allir tölvuumsjónarmenn, sviðsstjóri menntasviðs og deildarstjóri grunnskóladeildar, sérkennslufulltrúi skólaskrifstofu ásamt forstöðumanni upplýsingatæknideildar. Fór þessi hópur í skólaheimsóknir og fékk kynningu frá menntayfirvöldum sveitarfélagsins um innleiðinguna.

Spjaldtölvuverkefnið fór í janúar 2016 og 2017 á The Bett Show í London sem er árleg tæknisýning fyrir skólafólk. Apple fyrirtækið heldur ráðstefnu í tengslum við þessa sýningu sem nefnist Apple Leadership Summit og sótti Spjaldtölvuverkefnið einnig þá ráðstefnu bæði árin.

Í mars 2017 fór Spjaldtölvuverkefnið til Danmerkur og Eistlands í skólaheimsóknir. Fræðast má meira um þá ferð hér.

Lærdómur

Þessar ferðir eru afskaplega mikilvægar fyrir Spjaldtölvuverkefnið og í öllum tilvikum aflaði verkefnið sér mikillar þekkingar og fékk ferskar hugmyndir. Eitthvað sem Spjaldtölvuverkefnið getur ekki aflað sér hér á landi, þar sem Kópavogur er í fararbroddi hvað varðar innleiðingu á spjaldtölvum í skólastarf og því litla þekkingu að sækja hér á landi.

 

LEIÐSÖGN, RÁÐGJÖF OG STEFNUMÓTUN – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Ráða þarf verkefnastjóra spjaldtölvuinnleiðingar og kennsluráðgjafa nokkrum mánuðum áður en kennarar og nemendur fá afhentar spjaldtölvur
  • Kostur að kennsluráðgjafar hafi ólíka styrkleika og bakgrunn, það gerir teymið sterkara
  • Skólastjórnendur þurfa að vera ábyrgir fyrir því að kennarar nýti sér aðstoð kennsluráðgjafa
  • Gott er að hafa tæknistjóra í teyminu með verkefnastjóranum og kennsluráðgjöfunum
  • Hlutverk innleiðingarteyma í skólum þarf að vera skýrt og það stutt dyggilega af skólastjórnendum
  • Gefa þarf kennurum tíma til að sækja sér þekkingu varðandi notkun spjaldtölva í kennslu
  • Foreldrar þurfa að vera vel upplýstir um markmið spjaldtölvuinnleiðingar og hvernig spjaldtölvur eru notaðar í námi nemenda bæði í skóla og heima
  • Nauðsynlegt að það sé einn aðili í hverjum skóla sem er tengiliður við verkefnisstjóra og kennsluráðgjafa
  • Skólar þurfa að setja sér skýr markmið hvernig þeir ætla að flétta spjaldtölvunotkun inn í sitt skólastarf