Markmið spjaldtölvuinnleiðingar í Kópavogi eru margþætt. Þau snúa að inntaki og framkvæmd kennslu, að viðhorfum nemenda, kennara og foreldra til skólastarfsins og að frammistöðu og árangri nemenda. Enginn einn mælikvarði nær yfir öll þessi markmið og ávallt er mikilvægt að hafa hugfast að breytingar, sem ætlað er að stuðla að framförum í skólastarfi, skila ekki endilega uppsveiflu ef mælingar taka mið af óbreyttum áherslum. Vitað var í upphafi innleiðingar að námslegur árangur út af spjaldtölvuinnleiðingunni sérstaklega væri vart mælanlegur fyrstu árin. Á þessari síðu er fjallað um kannanir og aðrar mælingar á því hvernig spjaldtölvur hafa breytt skólastarfi.
UTANAÐKOMANDI MÆLINGAR
Skólapúlsinn er mælitæki sem notast hefur verið við um árabil á Íslandi til að mæla viðhorf og líðan nemenda og hefur því þann kost að hægt er að bera saman niðurstöður fyrir og eftir innleiðingu spjaldtölva. Könnun þessi er lögð árlega fyrir nemendur í 6.-10. bekk en annað hvert ár fyrir foreldra og starfsfólk. Niðurstöður Skólapúlsins má nýta til að lesa í líðan og ánægju nemenda í skóla, hvort námið vekji áhuga þeirra og verkefni séu við hæfi og þar fram eftir götunum. Einnig má sjá hvort foreldrum finnist námsvinnan hæfilega krefjandi og hvort skólinn mæti þörfum barnsins. Innleiðingin á breyttum kennsluháttum er komin það stutt á veg að ekki er hægt að segja til um hvað áhrif hún hefur haft á líðan nemenda.

Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir árlega og gefa upplýsingar um stöðu nemenda í íslensku og stærðfræði. Varasamt getur verið að einblína á meðaleinkunn árganga en á hinn bóginn má nýta niðurstöður prófanna til að meta námsframfarir nemendahópa milli ára. Eins og með Skólapúlsinn þá er innleiðingin komin það stutt á veg að niðurstöður eru ekki mælanlegar en skoða má framfarastuðla hjá nemendum í 10. bekk vorið 2018.
Lærdómur
Þessi mælitæki eru góð til að bera saman nemendur í Kópavogi við nemendur í öðrum sveitarfélögum en enn sem komið er veita þau ekki marktækar upplýsingar vegna þess hve stutt er síðan innleiðingin hófst. Menntamálastofnum hefur lýst áhuga á að koma að mælingum á skólastarfi í tengslum við verkefnið en það er ekki komið í formlegt ferli.
MÆLINGAR KÓPAVOGSBÆJAR – KENNARAR
Sérsniðnar kannanir hafa verið lagðar fyrir nemendur og kennara til þess að meta áhrif spjaldtölvuinnleiðingarinnar á ýmsa þætti er varða skólastarf, nám og kennslu.
Niðurstöður úr kennarakönnunum vorið 2016 gáfu ekki vísbendingar um miklar breytingar en þær voru helstar að kennarar vörðu minni tíma í yfirferð verkefna og tæknikunnátta jókst. Hafa verður í huga að svarhlutfall kennara var rétt innan við 40%.
Mun skýrari niðurstöður komu úr kennarakönnuninni vorið 2017 og svarhlutfallið var mun betra. Svör bárust frá 288 kennurum af 450 og svarhlutfallið því um 65%. Meirihluti allra kennara og 75% unglingastigskennara sögðu að kennsluhættir hjá sér höfðu breyst.
Rúmur meirihluti kennara telja að þeir fái nægan stuðning við innleiðingu spjaldtölva.
Þegar þeir eru spurðir hvort vægi einhverra þátta hafa minnkað í þeirra kennslu þá svara 75% kennarar því neitandi.
Rúmur meirihluti kennara á mið- og unglingastigi leggja fyrir heimaverkefni sem á að vinna í spjaldtölvu en 30% þeirra segjast leggja þau sjaldnar fyrir. Einungis 5% kennara leggja vikulega fyrir heimaverkefni sem krefjast spjaldtölvu.
Í þessari könnun var spurt um hversu oft kennarar senda foreldrum upplýsingar um verkefni sem unnin eru í spjaldtölvu. 60% kennara á mið- og unglingastigi segjast aldrei eða sjaldnar en mánaðarlega gera það. Rúm 20% kennara senda upplýsingarnar vikulega og tæp 20% mánaðarlega.
Á kennaranámskeiðunum sem kennd voru við engisprettur sem fjallað var um á kennarasíðunni lögðu kennsluráðgjafar fyrir könnun í Nearpod þar sem spurt var um hvort námskeið gærdagsins kæmu til með að nýtast kennurum, hvað hefði betur mátt fara og fleira í þeim dúr. Einnig var spurt um hvort og hversu mikið kennarar nýttu sér leiðbeiningavef Spjaldtölvuverkefnisins og appa vefinn. Þeir voru einnig spurðir hvort þeir hefðu kynnt sér hugmyndafræðina á bak við innleiðinguna. Við í Spjaldtölvuverkefninu erum alltaf að læra og því vildum við fá endurgjöf frá kennurum um upplifun þeirra af námskeiðunum. Við notuðum Nearpod, bæði til þess að sýna kennurum hvað það væri einfalt og gott og svo er einfalt að safna saman niðurstöðum. Helstu niðurstöður voru þær að kennarar voru ánægðir með námskeiðin en mörgum fannst heldur hratt farið yfir. Það var meðvitað hjá okkur að keyra þessi tuttugu mínútna námskeið hratt og halda tímaáætlun því að ef einn hópur yrði lengur en til var ætlast þá myndi öll dagskráin fara úr skorðum. Svo hugsuðum við þetta líka meira sem kynningu frekar en djúpan lærdóm. Eins konar kveikju og svo myndu kennarar halda loganum gangandi.
Samkvæmt okkar könnun er innan við helmingur kennara sem nýtir sér leiðbeiningavefinn og aðeins örfáir sem nýta sér appa-vefinn. Að lokum ekki nema vel innan við helmingur kennara sem segist hafa kynnt sér hugmyndafræðina á bak við innleiðinguna.
Lærdómur
Samkvæmt kennarakönnuninni þá hafa kennsluhættir hjá meirihluta kennara breyst og hjá þremur fjórðu kennurum á unglingastigi eftir tveggja ára innleiðingu. Miðað við hversu breytingar á skólamenningu og kennsluháttum taka almennt langan tíma má segja að þetta sé góður árangur. Að minnsta kosti erum við í Spjaldtölvuverkefninu ánægð með þessa niðurstöður. Þó segja 75% kennara að vægi einhverra annarra þátta hafi ekki minnkað í þeirra kennslu. Það gæti skýrt þann tímaskort sem kennarar tala oft um. Þeir bæta spjaldtölvuvinnunni við án þess að taka neitt út í staðinn þrátt fyrir að hafa fengið reglulega ráðleggingar um að það þurfi að sleppa einhverju sem kennarar voru vanir að gera fyrir innleiðingu.
Kennarar leggja ekki fyrir mikla heimavinnu sem krefst notkunar spjaldtölvu og segja foreldrum sjaldan frá spjaldtölvuvinnu sem fram fer í skólanum og því hvernig spjaldtölvan er notuð í námi. Þetta er ein ástæða þess að sumir foreldrar skilja ekki þessa innleiðingu og segja að spjaldtölvan sé bara leikjatölva. Mikilvægt er að bæta úr þessu.
Niðurstöður úr Nearpod-könnuninni voru líka áhugaverðar. Það kom okkur í Spjaldtölvuverkefninu á óvart að aðeins innan við helmingur kennara hefði nýtt sér leiðbeiningarvefinn en á vefnum eru ýmis konar hagnýtar upplýsingar og kennsluhugmyndir. Það er full ástæða til að kanna þetta frekar en hugsanleg skýring á þessu getur verið að kennarar fái svo mikinn stuðning frá kennsluráðgjöfum og frá leiðtoga innleiðingar í skóla að þeir þurfi ekki á vefnum að halda.
Kanna þarf betur af hverju svona fáir kennarar hafi kynnt sér hugmyndafræðina á bak við innleiðinguna. Hvort það sé sami hópurinn sem veit ekki af hverju verið er að breyta kennsluháttum og er ekki að nýta spjaldtölvurnar í námi og kennslu?
MÆLINGAR KÓPAVOGSBÆJAR – NEMENDUR
Á vormánuðum 2016 gerðu kennsluráðgjafar og verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar könnun á viðhorfum rúmlega 450 nemenda á mið- og unglingastigi. Ítarlega er fjallað um niðurstöður könnunarinnar í greinargerðinni sem fylgir vefnum en hér verða reifaðar helstu niðurstöður.
Fyrst ber að nefna að nemendur segja að námið sé skemmtilegra og fjölbreyttara en áður. Þeim finnst léttara að læra og þeir nota færri bækur. Nemendum finnst gaman að gúggla og þeim finnst gott að hafa góðan aðgang að netinu. Verkefnaskil hafa breyst og nemendur hafa meira val um það hvernig verkefnum er skilað og þar sem námsáætlanir, fyrirmæli og verkefni eru á rafrænu formi í spjaldtölvunum er erfiðara en áður að finna afsökun fyrir því að skila ekki verkefnum. Engin verkefni gleymast heima eða eru týnd.

Heimanám er auðveldara af því að það er léttara að ferðast með spjaldtölvuna en allar bækurnar sem hún leysir af hólmi og nemendur hafa um sumt betri yfirsýn yfir vinnu sína. Spjaldtölvan getur því hjálpað nemendum að taka ábyrgð á eigin námi. Nemendur eru ánægðir með að geta notað rafbækur og segja að það sé auðvelt að sækja rafbækur. Nemendur segjast vera fljótari að skrifa á spjaldtölvu en að handskrifa og mjög lágt hlutfall nemenda kýs frekar að handskrifa texta en að nota spjaldtölvuna. Spjaldtölvan þykir spara tíma og pappírsnotkun hefur minnkað. Spjaldtölvan þykir frábær fyrir sjálfsprófin því það gengur allt svo miklu hraðar, segja nemendur og heimaprófin þykja líka góð. Nemendum líður betur að vinna að prófúrlausnum heima og þar fá þeir meira næði. Ekki er samt allt betra í spjaldtölvunni því meirihluta nemenda finnst betra að lesa texta af pappír en af spjaldtölvunni.
Langflestir nemendur töldu að nám og kennsla hefðu breyst til hins betra. Það væri miklu meiri fjölbreytni í öllu sem verið væri að gera og þeim leiddist ekki jafn mikið og áður. Þeir ynnu oftar að skapandi verkefnum og fengju að velja hvort þeir vildu nota námsbækur í stafrænum búningi eða á pappír. Þá kom fram að nemendum finnst gott að geta hlustað á tónlist á meðan þeir eru að læra. Almennt virðist mega álykta að námið sé meira við hæfi hvers og eins en áður var.
Eitt af því sem upp úr stendur þegar rætt er um neikvæðar afleiðingar spjaldtölvunotkunar er óhófleg leikjanotkun. Sumir nemendur nota hvert tækifæri til að spila leik í spjaldtölvunni, hvort sem það er innan eða utan kennslustundar. Mikill tími fer hjá kennurum í að fá nemendur til að hætta leikjaspili í upphafi kennslustunda og kennarar verða pirraðir á þeirri streitu sem því fylgir. Einhverjir nemendur ráða hreinlega ekki við sig þegar þeir eiga að vera vinna verkefni og spila leik í staðinn enda segja nemendur að það sé auðvelt að fara í eitthvað annað en maður á að vera gera þegar unnið er í spjaldtölvunni.

Í þeim tilvikum þar sem nemendur voru spurðir um notkun spjaldtölvanna heima fyrir sögðust flestir að hún væri ekkert vandamál. Samskipti við foreldra væru í lagi og oft héldu þeir að nemandinn væri að leika sér í spjaldtölvunni þegar hann væri að læra. Foreldrar væru jákvæðir gagnvart spjaldtölvum sem námstæki og ánægðir með þau verkefni sem nemendur sýndu þeim heima fyrir. Leikjanotkun heima væri ekki til vandræða enda gilda ákveðnar reglur um það efni á flestum heimilum.
Nemendur sögðu sig ekki vilja fara til baka og þorri þeirra sem við var rætt vildi halda áfram að nýta spjaldtölvuna í námi.
Lærdómur
Nám nemenda hefur breyst og í flestum tilvikum til hins betra. Leikjanotkun nemenda í kennslustundum er eitthvað sem má reikna með, sérstaklega fyrstu mánuðina eftir afhendingu. Undirbúa þarf kennara fyrir þetta og benda þeim á að takast á við þessi agabrot eins og önnur agamál inni í kennslustofunni. Ef nemandi sem er að nota spjaldtölvu fer ekki eftir fyrirmælum kennara á að taka á því eins og nemandi sem er með bók eða blýant og fer ekki eftir fyrirmælum kennara.
KANNANIR OG MÆLINGAR – HELSTU LÆRDÓMAR
- Nota skal mælitæki eins og Skólapúlsinn og samræmd próf til að meta árangur af spjaldtölvuinnleiðingu en einnig að leggja fyrir sérsniðnar kannanir
- Kennarar þurfa að sleppa einhverju af því gamla þegar þeir tileinka sér nýja hluti. Ekki hægt að bæta endalaust ofan á þá vinnu sem fyrir er
- Kennarar þurfa að upplýsa foreldra betur um hvernig spjaldtölvan er notuð í námi
- Tryggja þarf að kennarar kynni sér hugmyndafræðina að baki innleiðingunni en með því móti eru þeir líklegri til að tileinka sér breytta kennsluhætti
- Undirbúa þarf kennara til að takast á við leikjanotkun nemenda í kennslustundum