Grunnskólar í Kópavogi voru árið 2015 níu talsins og nemendur á því skólastigi um 4.700 talsins. Stærstur var Hörðuvallaskóli með um 770 nemendur og minnstur Kópavogsskóli með rétt rúmlega 300 nemendur. Engir safnskólar eru í Kópavogi heldur eru skólahverfin skipulögð þannig að það séu um 40-50 nemendur í árgangi í hverjum skóla eða 20-25 nemendur í hverri bekkjardeild. Í Álfhólsskóla er hlutfall innflytjenda frekar hátt þar sem svokölluð nýbúadeild hefur verið starfrækt frá árinu 1999 en markmið deildarinnar er að framfylgja lögum um grunnskóla þar sem segir að nemendur með annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Spjaldtölvuverkefnið þurfti því að taka tillit til þessa og þýða mikilvægar upplýsingar á erlend tungumál og bjóða upp á túlkaþjónustu á mikilvægum fundum fyrir foreldra.
Á þessari síðu er fjallað um afhendingu spjaldtölva til nemenda og notkun þeirra í skólastarfi.
Afhending spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs var sem hér segir og athugið að nemendur í 6. bekk fá tvisvar sinnum afhentar spjaldtölvur árið 2016 en þar sem þetta er á sitthvoru skólaárinu eru þetta ekki sömu nemendurnir:
- Haustið 2015: 8. og 9. bekkur, nemendur fæddir árið 2002 og 2001
- Febrúar 2016: 6. og 7. bekkur, nemendur fæddir árið 2004 og 2003
- Haustið 2016: 5. og 6. bekkur, nemendur fæddir árið 2006 og 2005
UNDIRBÚNINGUR
Snemma árs 2015 voru umræður í stýrihópi um innleiðinguna hvaða tveir árgangar ættu fyrst að fá spjaldtölvur. Fljótlega voru nemendur í 10. bekk útilokaðir á þeim forsendum að reynslan sýndi að námslegur ávinningur af spjaldtölvuvæðingu skóla skilaði sér ekki strax og því var tekin sú afstaða að nemendum sem væru að hefja sitt síðasta ár í grunnskóla væri lítill greiði gerður ef farið yrði í umfangsmiklar breytingar á námi þeirra.
Uppi voru hugmyndir að nemendur í 6. og 7. bekk yrðu fyrstu árgangarnir til að fá spjaldtölvur en niðurstaðan var sú að nemendur í 8. og 9. bekk yrðu þeir fyrstu þar sem talið var að þessi árgangar hefðu minnstan námslegan ávinning af spjaldtölvuinnleiðingunni. Þess vegna hefðu þeir líka minnstu að tapa ef spjaldtölvuinnleiðingin myndi misheppnast. Í næstu afhendingu fengju nemendur í 6. og 7. bekk spjaldtölvur og nemendur í 5. og 6. bekk í þriðju afhendingu eins og var útskýrt hér fyrir ofan.
Nemendur í 8. og 9. bekk voru ekki undirbúnir neitt sérstaklega áður en þeir fengu spjaldtölvurnar í hendur enda áttu skólarnir fáar eða engar spjaldtölvur til að nota í þann undirbúning. Þeim var sagt um vorið 2015 að þá um haustið ættu þeir að fá spjaldtölvur til að nota í námi. Um haustið, nokkrum dögum fyrir afhendingu, gengu kennsluráðgjafarnir í bekki og sögðu nemendum í stuttu máli hvað fram undan væri. Foreldrar þessara nemenda voru sérstaklega boðaðir á fund til að segja frá markmiðum innleiðingarinnar en fjallað er nánar um það á síðunni Foreldrar.
Nemendur í 6. og 7. bekk fengu mun meiri undirbúning en nemendurnir í unglingadeildinni. Þeir höfðu haft aðgang að spjaldtölvum í bekkjarsettum í rúma fjóra mánuði og því gátu umsjónarkennarar notað þær spjaldtölvur til að búa nemendur undir að fá sín eigin tæki til afnota. Jafnframt höfðu kennarar þeirra haft spjaldtölvur í lengri tíma og voru þar af leiðandi búnir að sækja fleiri námskeið í notkun þeirra en kennarar unglinganna þegar þeir fengu sínar spjaldtölvur.
Áður en nemendur fengu spjaldtölvur í hendur þurftu þeir og foreldrar eða aðrir forsjáraðilar þeirra að skrifa undir samning um afnot af tækjunum. Samningurinn kvað á um ábyrgð nemandans og forsjáraðila á meðferð og notkun tækisins meðan nemandi hefði það til afnota. Veturinn 2015-2016 var samningurinn á pappírsformi en haustið 2016 var samningurinn rafrænn og birtur í Íbúagátt Kópavogsbæjar. Hér má sjá samninginn um afnot en hann er einnig til á ensku og pólsku.
Í samningnum kemur meðal annars fram að afnot af spjaldtölvunni eru nemendum að kostnaðarlausu á meðan þeir stunda nám í grunnskólum Kópavogs. Þeir mega og eiga að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi og mega hafa hana um helgar og í öllum fríum á skólaárinu en skila henni að vori í lok skólaárs. Nemandi fær svo sömu spjaldtölvu að hausti. Þar sem öllum nemendum stendur til boða að geyma gögn í gagnaskýjum geta þeir komist í þau að sumri þó að spjaldtölvan sé geymd í skólanum.

Nemendur mega setja öpp að eigin vali í spjaldtölvurnar svo framarlega að þau hæfi þeirra aldri. Spjaldtölvunum fylgir hulstur til að verja þær skemmdum en ef óhapp verður og tölvan skemmist eða týnist þá útvegar Spjaldtölvuverkefnið annað tæki. Foreldrum er boðið upp á að kaupa spjaldtölvuna á 27.000 krónur og skiptist sú upphæð á jafnar greiðslur á þrjú ár en það er sá tími sem reiknað er með að þær endist áður en þarf að endurnýja þær. Kópavogsbær er því eigandi að tölvunum þar til lokagreiðslan hefur farið fram en það er nauðsynlegt svo hægt sé að gera við spjaldtölvurnar án þess að foreldrar þurfi að greiða fyrir viðgerðirnar eða útskiptitæki. Ef nemendur eru að eignast spjaldtölvurnar með þessum hætti mega þeir hafa þær yfir sumarið. Um tveir þriðju hlutar foreldrahópsins eru að nýta sér þann kost að nemendur eignist tölvurnar. Nánar má lesa um kaup á spjaldtölvunum á síðunni Foreldrar.
Nemendur í 10. bekk sem ljúka námi sem hafa ekki eignast spjaldtölvurnar fá að eiga áfram öll gögn sem þeir geyma í skýjum sem Spjaldtölvuverkefnið útvegaði þeim.
Lærdómur
Eins og kom fram hér að ofan voru uppi hugmyndir að hefja afhendingu í 6. og 7. bekk en ekki 8. og 9. bekk eins og raunin varð. Mun fleiri álitamál varðandi aldurstakmörk, samfélagsmiðla og óhóflega leikjanotkun komu eftir afhendingar á miðstiginu en unglingastiginu og Spjaldtölvuverkefnið hafði öðlast dýrmæta reynslu eftir fyrstu afhendinguna haustið 2015 til að takast á við þessi álitamál. Eftir á að hyggja má telja það hafi verið rétt ákvörðun að byrja á unglingastiginu en ekki miðstiginu vegna þess hve kennararnir fengu stuttan undirbúning og flestir þeir sem komu að innleiðingunni höfðu litla reynslu. Notendasamningurinn hefði strax um haustið 2015 mátt vera rafrænn í Íbúagátt. Mikil vinna fór í að innheimta samninginn á pappírsformi.
AFHENDING NEMENDATÆKJA Í SEPTEMBER 2015
Fyrsta afhending á spjaldtölvum til nemenda var í byrjun september árið 2015 en þá fengu allir nemendur í 8. og 9. bekk í grunnskólum Kópavogs spjaldtölvur. Til að mismuna ekki skólum var ákveðið að hafa afhendingarnar allar á sama degi í öllum skólunum. Umsjónarkennarar höfðu fengið sendar glærur sem sýndu skref fyrir skref hvernig nemendur áttu að setja upp spjaldtölvurnar. Því miður þá gengu uppsetningar ekki vel þar sem net Kópavogsbæjar þoldi ekki álagið.
Lærdómur
Þrátt fyrir að netumsjónarmenn Kópavogsbæjar teldu að netið ætti að standast það álag að 850 spjaldtölvur væru settar upp á sama tíma þá hrundi netið þegar til kom. Það varð til þess að í sumum skólum þurfti að hætta við uppsetningu og halda áfram daginn eftir en aðrir náðu að klára þó að það hafi tekið miklu lengri tíma en áætlað var.
Þetta var mjög lærdómsríkt fyrir Spjaldtölvuverkefnið og í næsta kafla verður sagt ítarlegra frá afhendingarferli sem tókst vel en það var afhending spjaldtölva til nemenda í 5. og 6. bekk haustið 2016 eða ári eftir fyrstu afhendingu. Þá var álaginu á netið dreift yfir marga daga.
Afhending tækja til nemenda í 6. og 7. bekk í febrúar 2016 var önnur afhending en ekki er farið nánar út í hana hér þar sem afhending í september var slípuð útgáfa af febrúarafhendingunni og því gagnlegra að fræðast um hana.
AFHENDING NEMENDATÆKJA Í SEPTEMBER 2016
Afhending spjaldtölva í 5. og 6. bekk haustið 2016 var í fjórum skrefum og dreifðist í flestum tilvikum á fjóra daga. Skólarnir máttu ráða hvenær þeir færu í gegnum uppsetningarferlið og tilgangurinn með því að hafa skrefin fjögur en ekki eitt var í fyrsta lagi að dreifa álaginu á net bæjarins og í öðru lagi að auðvelda aðstoð við nemendur og kennara ef þeir lentu í vandræðum í uppsetningarferlinu. Ef nemendur lentu til dæmis í vandræðum í fyrsta skrefi yrði hægt að gera ráðstafanir eftir kennslustundina þannig að allir væru á sama stað þegar skref tvö hæfist. Reiknað var með að hvert skref tæki um það bil eina kennslustund. Umsjónarkennarar áttu að sjá um uppsetningarnar en þeir höfðu fengið sendar skjákynningu sem Spjaldtölvuverkefnið hafði útbúið. Þeir gátu líka óskað eftir því að tölvuumsjónarmenn væru til aðstoðar ef þeir treystu sér ekki til að fara í gegnum uppsetningarferlið einir.

Í fyrsta skrefinu fengu nemendur spjaldtölvuna óuppsetta beint upp úr kassanum ásamt hulstri sem var líka í umbúðunum. Tilgangurinn með því að hafa spjaldtölvuna og hulstrin í umbúðunum var að nemendur fengju skýrar þá tilfinningu að þetta væri nýr búnaður og væru þá líklegri til að fara betur með hann en ella. Í nokkrum skólum höfðu tölvuumsjónarmenn eða umsjónarkennarar útbúið límmiða með nöfnum nemenda sem þeir áttu að líma á hulstrin. Í þessu skrefi þurftu nemendur að koma spjaldtölvunni í netsamband, setja inn fingrafaraskanna, setja inn kóða fyrir læsingu á spjaldtölvunni (Passcode), búa til Apple-auðkenni (Apple ID), setja inn íslenskt lyklaborð og setja upp tölvupóst. Þegar þessu var lokið var tölvunum skilað til umsjónarkennara sem geymdi þær til næsta dags.
Í öðru skrefinu var Apple-auðkennið (Apple ID) virkjað og í framhaldi voru öppin Padlet og Google Drive sótt í App Store en þau átti að nota í þriðja skrefi afhendingar. Þá var Find my iPad virkjað en það gerir notandanum kleift að sjá staðsetningu tækisins ef það týnist. Það er gert með því að slá inn Apple-auðkennið og lykilorð í vafra. Þegar þessu er lokið og spjaldtölvan er í netsambandi sést hvar hún er. Ef henni er stolið er þá hægt að setja hana í Lost mode en þá læsist spjaldtölvan og verður ónothæf þar til eigandinn slekkur á þeirri stillingu.
Í þriðja skrefinu áttu nemendur að ræða saman um einfaldar reglur um notkun spjaldtölvanna sem yrði svo grunnur að bekkjarsáttmála til að hengja upp í stofunni og senda heim til foreldra. Kennari fékk ítarleg fyrirmæli um hvernig leggja átti þetta verkefni fyrir. Talið var að með því að láta nemendur sjálfa búa til reglur og sáttmála í stað þess að kennarinn eða Spjaldtölvuverkefnið mótuðu reglur yrðu nemendur líklegri til að halda hvort tveggja.
Í fjórða og síðasta skrefinu áttu nemendur að skrá spjaldtölvurnar í umsýslukerfið AirWatch og þegar því var lokið máttu nemendur taka spjaldtölvurnar með sér heim svo framarlega að þeir og foreldrar þeirra hefðu skrifað undir notendasamning.
Lærdómur
Ein aðalástæða þess að við í Spjaldtölvuverkefninu kusum að fenginni reynslu að láta nemendur sjálfa setja upp tækin sín var að það eru mörg handtökin við uppsetningu á hverri spjaldtölvu og þegar verið var að afhenda 800-1000 spjaldtölvur í einu var hreinlega ekki til mannskapur að setja upp öll tækin fyrirfram. Slá þurfti inn notendanöfn og lykilorð í hvert einasta tæki því það var ekki hægt að gera miðlægt og senda í tækin.
Þetta fyrirkomulag á uppsetningu spjaldtölvanna í september 2016 gekk mun betur en fyrirkomulagið árinu áður enda voru skólarnir ekki að gera þetta allir á nákvæmlega sama tíma og því voru engar truflanir á netsambandi. Spjaldtölvuverkefnið ætlaðist til að umsjónarkennarar færu í gegnum þetta ferli með nemendum en það var meðal annars gert til að sýna nemendum að spjaldtölvan væri námstæki og að þarna væri umsjónarkennarinn við stjórn en ekki tölvuumsjónarmaður. Í nær öllum tilvikum gekk þetta vel en í einu tilviki neitaði kennari hreinlega að afhenda tækin hvort sem það var af tæknihræðslu eða af því að hann taldi það ekki vera í sínum verkahring. Í því tilviki sá tölvuumsjónarmaður um uppsetningarferlið í bekknum. Þessi sami kennari neitaði líka að standa að bekkjarsáttmála með nemendum sínum en vildi þess í stað fá reglur frá Spjaldtölvuverkefninu. Hann fékk þær ekki enda eiga almennar skólareglur að gilda um spjaldtölvurnar. Nánar er fjallað um bekkjarsáttmála og reglur í næsta kafla.
BEKKJARSÁTTMÁLAR OG REGLUR
Við fyrstu afhendingu spjaldtölva til nemenda í 8. og 9. bekk haustið 2015 ráðlögðu kennsluráðgjafar skólum að búa ekki strax til sérstakar reglur um spjaldtölvunotkunina heldur sjá til hvort almennu skólareglurnar dygðu ekki. Eftir nokkrar vikur settu nokkrir skólar sérstakar reglur um notkun spjaldtölva í matsal þar sem notkun var takmörkuð og jafnvel alveg bönnuð. Það var gert bæði vegna þess að brögð voru að því að nemendur misstu fartölvurnar þegar þeir héldu á henni með annarri hendi og mat og drykk í hinni og svo var matur og drykkir að sullast yfir tækin.
Við afhendingu spjaldtölva til nemenda í 6.- og 7. bekk og svo síðar í 5. bekk var ákveðið að allar bekkjardeildir í þessum árgöngum myndu setja sér sérstakar reglur um notkun spjaldtölva, bæði í skóla og heima. Lögð var áhersla á að nemendur myndu sjálfir ræða og koma sér saman um bekkjarreglurnar því það yki líkurnar á því að þeir héldu þær. Þessar reglur voru kallaðar bekkjarsáttmálar og voru hluti af afhendingarferlinu en með því móti þótti tryggt að allir nemendur og umsjónarkennarar í þessum árgöngum tækju þátt í að skapa hefð um notkunina. Hér má sjá kynningu til undirbúnings fyrir kennara og hér kynningu með verkefninu sjálfu en reglurnar voru að mestu unnar í Padlet.

Lærdómur
Nemendur eiga sömu virðingu skilið og fullorðnir og því mælum við í Spjaldtölvuverkefninu ekki með því að taka tækin af nemendum við agabrot heldur að leysa málin fyrir utan kennslustofuna og þá með skólastjórnendum og foreldrum ef þörf þykir. Ef nemandi með spjaldtölvu fylgir ekki fyrirmælum kennara á að taka á því með sama hætti og annars konar agabrotum.
Þrátt fyrir þessi tilmæli okkar þá setti einn skólinn ansi harkalegar reglur haustið 2016 eftir að nemendur í 5. og 6. bekk höfðu fengið sínar spjaldtölvur. Spjaldtölvurnar voru þá gerðar upptækar til skemmri eða lengri tíma við agabrot. Verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar ásamt kennsluráðgjafanum í þessum skóla fóru á fund skólastjórnenda til að ræða þessi mál og í kjölfarið voru reglurnar endurskoðaðar og mildaðar. Það er mikilvægt að skólar séu ekki að vinna í andstöðu við eigin innleiðingaráætlun. Að taka spjaldtölvu sem er námstæki af nemanda á að vera algert neyðarúrræði.
Vel gekk að vinna bekkjarreglurnar í Padlet og umræður nemenda og niðurstöður urðu góðar. Spjaldtölvuverkefnið lagði til að reglurnar væru prentaðar út og hengdar upp í kennslustofunni en hefði átt að fylgja því betur eftir. Í mörgum tilvikum voru reglurnar ekki sýnilegar nemendum og því ekki hægt að benda nemendum á þær þegar þær voru brotnar.
NOTKUN SPJALDTÖLVA Í SKÓLASTARFI
Spjaldtölvur eru spennandi tæki fyrir börn og það var vitað fyrir afhendingu tækjanna að nemendur myndu vera mikið í spjaldtölvunum til að byrja með í ýmiss konar leikjum og annarri afþreyingu. Samkvæmt reynslu annarra mátti reikna með að nýjabrumið þætti mikið í nokkra mánuði en að svo myndi draga úr þeim áhrifum og viðhorf til tækjanna leita jafnvægis. Kennarar voru búnir undir þetta. Spjaldtölvurnar eru námstæki og því fá nemendur tækin fyrst og fremst til að nema og fá annað aðgengi að námi en áður sem og möguleika á nýjum leiðum við miðlun og úrlausn verkefna. Algerlega var og er skýrt af hálfu menntayfirvalda í Kópavogi að ekki á að nota tölvurnar þannig að nemendur fái að fara í þær sem umbun fyrir að vinna önnur og hefðbundnari verkefni. Spjaldtölvurnar eiga að vera jafn sjálfsagt verkfæri til náms og blað og blýantur.
Algengasta notkun spjaldtölva í námi grunnskólabarnanna og unglinganna eru verkefni sem eru tengd myndavélinni eða því að leita sér upplýsinga á netinu. Nemendur útbúa ýmiss konar kynningar í Keynote og svo er stuttmyndagerð í iMovie mjög vinsæl.

Rafbókargerð með Book Creator hefur verið algeng en með því appi geta notendur búið til sínar eigin gagnvirku rafbækur. Í útgáfunni sem notendur fá ókeypis geta þeir bara búið til eina bók í einu og verða svo að færa hana yfir í iBooks til að búa til aðra bók. Í keyptu útgáfunni er hægt að búa til eins margar bækur í einu og maður vill. Sumir skólar keyptu þetta app í öll tæki nemenda í einstaka árgöngum, þó aðallega á miðstigi og er Book Creator það app sem hefur verið mest keypt til skólanna frá því að innleiðing á spjaldtölvunum hófst.
Sífellt algengara er að kennarar biðji nemendur að sækja sér rafbækur og þá oftar en ekki þær kennslubækur sem þeir eru með prentaðar á pappír. Þetta gildir um alla árganga sem komnir eru með spjaldtölvur. Með þessu móti gleymist námsbókin aldrei heima eða í skólanum og einnig er hægt að skrifa inn í bækurnar ef þær eru geymdar í PDF-lesaraappi.
Á vorönninni 2017 var vinsælt að beita grænum bakgrunni við myndatökur og kvikmyndagerð (sjá grein um Green Screen) til að segja frá sögulegum viðburðum eða landfræðilegum fyrirbærum. Til eru mörg Green Screen-öpp sem kosta ekkert en þau eru misjöfn að gæðum. Spjaldtölvuverkefnið mælti með Green Screen by Do Ink-appinu sem kostar þrjá dollara en er vel þess virði. Appið var þá keypt í kennaratæki, í bekkjarsettin eða keypt í tæki einstakra nemenda sem voru að vinna með öðrum nemendum í hópavinnu.
Spjaldtölvurnar eru einnig notaðar til að skila verkefnum með rafrænum hætti í Google Classroom eða Showbie en nánar er fjallað um þessar rafrænu skólastofur á síðunni Tæknimál.
Spjaldtölvuverkefnið hefur lagt áherslu á að spjaldtölvurnar fari heim til nemenda en rannsóknir sýna að með því móti eru meiri líkur á að nemandi noti hana í óformlegu námi. Það hefur líka verið raunin í Kópavogi og það eru dæmi þess að nemendur noti þær í tónlistarnámi, tungumálanámi, læri karate og arkitektúr.
Þar sem mörg öpp og vefsíður eru með hljóði er oft nauðsynlegt að nemendur hafi heyrnatól tiltæk og verða þeir að útvega þau sjálfir.
Lærdómur
Reynslan sýndi að nemendur í Kópavogi eru ekki frábrugðnir öðrum nemendum hvað varðar spjaldtölvunotkun. Þeir voru mikið í spjaldtölvunum til að byrja með og margir unglingastigskennarar kvörtuðu yfir að erfitt væri að fá nemendur til að hætta í spjaldtölvunum þegar kennarinn kallaði eftir því. Nemendur gengu jafnvel inn í kennslustofurnar eftir frímínútur niðursokknir í spjaldtölvurnar og kennarinn náði engri athygli þegar inn var komið. Kennsluráðgjafi var stundum kallaður til og beðinn að ræða við nemendur um ábyrga hegðun sem þetta einmitt snýst um. Svona hegðun er ekki spjaldtölvuvandamál heldur agavandamál en margir kennarar vilja kenna spjaldtölvunni um. Þeir sem kennt hafa unglingum þar sem engar voru spjaldtölvurnar hafa eflaust reynt að oft er erfitt bara að lesa upp nöfn í upphafi kennslustundar því nemendur eru svo mikið að ræða saman eða annars hugar að þeir heyra ekki nafnakallið. Við í Spjaldtölvuverkefninu höfum oft rætt okkar á milli að mörg þessara vandamála sem tengjast spjaldtölvunotkun eru í raun venjuleg agavandamál og að kennarar þyrftu aðstoð og fræðslu til að takast á við þau en ekki fræðast um sérstök vandamál tengd spjaldtölvum.
Leikjanotkun nemenda er vissulega mikil en nemendur höfðu, áður en spjaldtölvur Kópavogsbæjar komu til, aðgang að snjalltækjum, tölvum og leikjatölvum heima hjá sér. Eitt sinn var rætt við nemendur í 10. bekk sem höfðu haft spjaldtölvur í rúmt eitt og hálft ár og spurt út í leikjanotkun. Þeir sögðu að hún hefði vissulega verið mikil á tímabili en nú væri komið meira jafnvægi á þá hluti og sérstaklega strákarnir farnir að nota leikjatölvurnar sínar aftur eftir skóla eins og þeir gerðu fyrir innleiðingu. Þessir nemendur töldu að engin vandamál hefðu komið upp eins og neteinelti eða að ósæmilegar myndir væru í dreifingu út af spjaldtölvunum sérstaklega. Þessir nemendur áttu allir snjallsíma þegar þeir fengu spjaldtölvur í upphafi 9. bekkjar og spjaldtölvurnar voru því þægileg viðbót við þeirra einkalíf frekar en hitt. Þeir láta spjaldtölvurnar ekki halda fyrir sér vöku og vakna ekki upp á nóttunni til að skoða tilkynningar frá samfélagsmiðlum. Kennsluráðgjafinn sem í hlut átti myndi lýsa þessum nemendum sem heilbrigðum og flottum unglingum sem kunna vel að umgangast spjaldtölvurnar.
Eins og ráða má af því sem hér kom fram hafa flestir nemendur haft aðgang að snjalltækjum og tölvum heima hjá sér og fyrir þá er það í raun ekki viðbót að fá spjaldtölvuna heim og hefur ekki valdið neinum vanda. Í þeim tilvikum þar sem foreldrar hafa ekki ráðið við spjaldtölvunotkun barns síns hefur þeim verið boðið að kennari haldi spjaldtölvunni eftir í skólanum í eina til tvær vikur. Það er samt ekki varanleg lausn heldur verður skólinn að fræða bæði barnið og foreldra þess um rétta notkun á snjalltækjum og tölvum.
Við kennsluráðgjafarnir reiknuðum með strax í upphafi að iMovie-myndklippiappið yrði vinsælt og því var það eitt af fyrstu öppunum sem við kynntum okkur og lærðum á því við reiknuðum með að þurfa að kenna bæði nemendum og kennurum á það. Raunin var sú að nemendur lærðu fljótt á iMovie með því að fikta í appinu þannig að færni margra þeirra eftir um hálftíma var orðin meiri en okkar kennsluráðgjafanna. Það kom líka í ljós í þessari vinnu hvað nemendur eru duglegir að hjálpa hverjir öðrum og mun viljugri en sum okkar áttu að venjast í hefðbundnari vinnu. Þetta hefur síðan gilt um aðra spjaldtölvuvinnu. Það er nóg að sýna nemendum helstu grunnaðgerðir í hverju appi og svo verða þeir sjálfbjarga það sem eftir er. Nemendur eru líka duglegir að gúggla ef þeir vita ekki hvernig á að gera hlutina eða „jútjúpa“ eins og einn nemandi orðaði það en þá leitar hann á YouTube þegar hann vantar svör við vandamálum.
Eitt af því sem hefur breyst með tilkomu spjaldtölvunnar er að nemendur vilja oft fara út úr kennslustofunni til að leysa verkefni. Þeir sækja út úr kennslustofunni til að ná í myndefni eða taka upp myndskeið enda oftast of mikil truflun í stofunni til að taka upp hljóð. Þetta gerir yfirleitt að verkum að nemendum líður betur, þeir hreyfa sig meira og fá tækifæri til að breyta um umhverfi og vinnustöðu; standa, liggja í gluggakistum eða koma sér fyrir í krókum og skúmaskotum. Allt brýtur þetta upp daginn.
Það sem hefur líka breyst er að rammi stundatöflunnar er oftar en áður teygður til eða sprengdur upp. Vinna nemenda verður þá verkefnatengd fremur en tímatengd og nemendur ekki eins uppteknir af því hvenær tíminn er búinn. Þeir vilja oft klára verkefnin þó að tíma sé lokið því þau eru áhugaverð, krefjandi og skemmtileg. Við í Spjaldtölvuverkefninu höfum rætt það okkar á milli að losa þurfi um stundatöflurnar og að það sé eitt af því sem stefna ætti að í næstu skrefum.
Reynslan þykir okkur sýna að spjaldtölvurnar styðji vel við breytta kennsluhætti.
NEMENDUR – HELSTU LÆRDÓMAR
- Varast ber að afhenda mörg hundruð tæki á sama tíma til að forðast netvandræði
- Almennar skólareglur eiga að gilda um spjaldtölvur en gott að nemendur geri einnig bekkjarsáttmála um myndatökur og aðra notkun á spjaldtölvunum
- Forðast ætti í lengstu lög að taka spjaldtölvu af nemanda við agabrot
- Gera þarf ráð fyrir tölvuverðri leikjanotkun fyrstu vikurnar og mánuði eftir að nemendur fá spjaldtölvur í hendur
- Nægilegt er að kenna nemendum á helstu grunnaðgerðir í öppum
- Losa þarf um stundatöflur þegar spjaldtölvur eru notaðar í námi