Kennarar

Kennarar í grunnskólum Kópavogs eru um það bil 450. Í fámennasta grunnskólanum, Kópavogsskóla, eru þeir rúmlega 30 og í fjölmennasta skólanum, Hörðuvallaskóla, um 80. Um er að ræða umsjónarkennara bekkja, sérgreinakennara og sérkennara og því eru bæði þarfir og væntingar misjafnar þegar kemur að spjaldtölvunotkun í námi og kennslu. Grunnskólakennarar í Kópavogi hafa haft greiðan aðgang að borðtölvum í mörg ár og nýtt þær til að undirbúa kennslu en minna notað þær í tengslum við nám nemenda þar sem aðgangur nemenda að tölvubúnaði hefur verið takmarkaður þar sem tölvukostur skólanna hefur verið of lítill. Á þessari síðu verður sagt frá afhendingu spjaldtölva til kennara, fræðslu þeim til handa og hvernig þeir nota spjaldtölvuna.

UNDIRBÚNINGUR AFHENDINGAR Á SPJALDTÖLVUM

Eftir að ákvörðun hafði verði tekin um hvaða megingerð af spjaldtölvum skyldi innleidd í skólastarfið var farið í útboð á þeim búnaði eins og nánar er lýst á síðunni Spjaldtölvurnar. Upphaflegar áætlanir gengu út á að kennarar fengju spjaldtölvur á vorönn 2015 með það fyrir augum að þeir gætu lært á spjaldtölvurnar og þjálfað upp færni í að nýta þær í skólastarfi áður en nemendur fengju þær í hendur. Útboðs- og afhendingarferlið var hins vegar svo langt að spjaldtölvurnar voru ekki tilbúnar til afhendingar fyrr en á síðustu starfsdögum kennara vorið 2015. Engu að síður var áfram gert ráð fyrir að afhenda nemendum sín tæki þá um haustið, í skólabyrjun skólaárið 2015-2016.

Lærdómur

Kennarar hefðu átt að fá lengri tíma til undirbúnings eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar sem afhendingu á spjaldtölvum til kennara seinkaði frá upphaflegri áætlun hefði átt að seinka afhendingu á tækjum fyrir nemendur um haustið og gefa kennurum nokkra mánuði til að læra betur á spjaldtölvurnar og leyfa þeim að átta sig á hvernig best væri að laga notkun þeirra að námi og kennslu. Á móti má velta því fyrir sér hvort lengri aðlögunartími hefði skilað því sem til væri ætlast. Kennarar og aðrir starfsmenn þurfa oftast að forgangsraða verkefnum og ef afhendingu nemendatækja hefði verið frestað um nokkra mánuði hefðu kennarar getað hneigst til að fresta því að læra á spjaldtölvurnar sem því næmi. Stundum getur verið gott að henda sér út í djúpu laugina.

AFHENDING KENNARATÆKJA

Spjaldtölvur voru afhentar kennurum og skólastjórnendum í grunnskólum Kópavogs dagana 10. og 11. júní 2015. Allir kennarar og skólastjórnendur fengu spjaldtölvur til afnota eftir að hafa skrifað undir notendaskilmála. Foruppsetning spjaldtölvanna hafði farið fram nokkrum dögum áður og þegar þær voru afhentar var farið með kennurum í gegnum uppsetningu og skráningu í AirWatch sem er umsýslukerfi spjaldtölvanna. Að því ferli loknu voru tækin tilbúin til notkunar, þótt enn hafi verið eftir að ganga frá nokkrum atriðum svo sem að setja upp póst og íslenskt lyklaborð.

Öllum spjaldtölvunum fylgdu hulstur enda er það áskilið í notendaskilmálunum en kennurum og nemendum er heimilt að nota sín eigin hulstur kjósi þeir það. Þá er þeim uppálagt að skila hulstrinu sem Kópavogsbær útvegar þeim.

Ákveðið var að prófa afhendingu kennaratækja í einum skóla daginn áður en afhendingar færu fram í hinum skólunum átta. Sú prufukeyrsla fór fram í Smáraskóla miðvikudaginn 10. júní 2015. Talið var skynsamlegt að ganga í gegnum afhendingarferlið á einum stað í ró og næði daginn áður en allur þorri kennara og skólastjórnenda grunnskóla í Kópavogi fengi sín tæki afhent. Smáraskóli er tiltölulega fámennur vinnustaður, nær allir starfsmenn voru á staðnum og gekk afhending fljótt og vel fyrir sig. Kennarar höfðu fyrr um daginn fengið afhent skjal með notendaskilmálum og samþykktu kennarar þá með undirskrift sinni. Þeir afhentu skólastjóra skjalið, sem svo lét þá fá tæki til afnota í starfi sínu. Kennarar voru því næst beðnir að fylgja leiðbeiningum starfsmanns upplýsingatæknideildar sem útskýrði hvert handtak uppsetningarferlis og skráningar í umsýslukerfið AirWatch en nánar er fjallað um það kerfi á síðunni Tæknimál. Til að skýra málin enn frekar var varpað upp skjámyndum í sérstakri kynningu og rætt um þær. Að þessu ferli loknu voru starfsmenn upplýsingatæknideildar ásamt starfsfólki Skema á staðnum til að aðstoða kennara frekar og veita ráðleggingar. Þegar spjaldtölvur eru keyptar í svona miklu magni til nota í skólastarfi þykir fara vel á því að láta fylgja með í kaupunum ákveðinn fjölda tíma í aðstoð og námskeið. Skema veitti þá þjónustu fyrir hönd Apple á Íslandi en fyrirtækið fæst við námskeiðahald og skólastarf um forritun og spjaldtölvunotkun barna og unglinga.

Næsta dag fór afhending fram í átta skólum á mismunandi tímum dags. Starfsmenn upplýsingatæknideildar og Skema voru til staðar í allt að tvær klukkustundir í hverjum skóla. Ferlið á hverjum stað var með sama hætti og lýst er hér að ofan. Í flestum skólum fór afhending fram á sal en í einum skóla á kennarastofu og í öðrum í kennslustofu, sem var þrautalending vegna framkvæmda í sal þess skóla.

Lærdómur

Það kom á óvart hversu margir kennarar voru ekki á staðnum þegar formleg afhending á spjaldtölvunum fór fram. Það varð til þess að afhenda þurfti fjölda tækja næstu daga og vikur sem kostaði mikla vinnu og fyrirhöfn. Ýmsir starfsmenn sem ekki áttu að fá tæki, fengu þau, þar sem nöfn þeirra voru á listum frá skólastjórunum. Þessir starfsmenn voru í einhverjum tilvikum forstöðumenn dægradvalar, húsverðir og stuðningsfulltrúar. Stýrihópur hafði áður ákveðið að einungis kennarar og skólastjórnendur ættu að fá tæki til afnota og skólastjórar áttu ekki að eiga þess kost að beina tækjum til annarra starfsmanna. Þetta var leyst með því að starfsmaðurinn skilaði tækinu eða skólinn keypti það fyrir sinn starfsmann. Um stýrihópinn er nánar fjallað á síðunni Leiðsögn, ráðgjöf og stefnumótun.

Vonast hafði verið til að póststillingar væru komnar á tækin þegar þau væru afhent og þá hefðu notendur aðeins þurft að slá inn notandanafn og lykilorð við afhendingu. Þetta gekk ekki eftir og því þurftu kennarar að setja upp póstinn sinn með handvirkum hætti með því að slá inn alls konar póstþjónastillingar. Margir kennarar þurftu töluverða hjálp við þetta.

Óheppilegt var að afhenda notendaskilmálana á pappír og láta undirrita þá á sama tíma og spjaldtölvurnar voru afhentar. Betra hefði verið að kennarar hefðu gengið frá notendaskilmálunum nokkrum dögum fyrr því þá hefði listi yfir móttakendur tækja verið réttur í upphafi afhendingar.

Tími til afhendingar á búnaði var um tvær klukkustundir og reyndist í naumara lagi. Ekki reyndist gott að skilja kennara eftir með óleyst uppsetningarvandamál á afhendingardegi.

Að kennarar áttu þess kost að nota eigin hulstur flækti málin og tafði fyrir, því sum hulstrin pössuðu ekki við þessa tegund af spjaldtölvu. Sum þeirra voru með innbyggðu lyklaborði sem ekki virkaði og þar fram eftir götunum. Dýrmætur tími aðstoðarmanna fór því í hjálp sem þessu tengdist. Í ljósi þess hve margir þáðu hulstrið sem Spjaldtölvuverkefnið bauð upp á hefði verið betra að halda sig eingöngu við það.

Töluverð vandræði sköpuðust vegna Apple-auðkennis (Apple ID) kennara en nánar er fjallað um Apple-auðkennið á síðunni Spjaldtölvur. Kennarar höfðu fengið fyrirmæli um að stofna Apple-auðkenni áður en að sjálfri afhendingunni kom en margir höfðu ekki gert það. Þeir þurftu þá að stofna þau eftir að þeir fengu spjaldtölvurnar í hendur en margir lentu í því að þurfa að gefa upp greiðslukort og það skapaði óánægju enda á að vera hægt að stofna auðkennið án þess. Engin skýring var á þessu önnur en sú að þetta kynni að hafa verið einhver sjálfvirk þjófavörn frá Apple þar sem verið var að stofna mörg auðkenni á sama stað á sama tíma.

FRÆÐSLA FYRIR KENNARA

Eðli málsins samkvæmt krefst jafn viðamikil breyting á kennsluháttum og felst í innleiðingu á spjaldtölvum í skólastarf mikillar fræðslu fyrir kennara. Í þessum vefhluta er fjallað um þá fræðslu sem Spjaldtölvuverkefnið hefur staðið fyrir.

Opin hús

Þar sem afhending kennaratækja fór fram á lokadögum starfsársins 2014-2015 gafst enginn tími til að bjóða kennurum upp á námskeið vorið 2015. Til að koma til móts við áhugasama kennara sem vildu byrja strax að læra á spjaldtölvurnar var boðið upp á opin hús á kaffistofu Kópavogsskóla fimm föstudaga þá um sumarið. Þar gátu kennarar komið og rætt við tæknimenn og kennsluráðgjafa, auk þess sem stuttar kynningar á vinsælum forritum eða öppum til nota í námi og kennslu fóru fram. Aðsókn á þessa viðburði var töluverð eða frá tuttugu til fjörutíu manns og þótti það lýsa metnaði og jákvæðni í kennarahópnum gagnvart innleiðingunni.

Sumarið 2016 var boðið upp á opnu húsin þrisvar sinnum en ekki þótti ástæða til að hafa opin hús sumarið 2017 þar sem kennarar höfðu síðustu tvö árin á undan fengið ýmsa fræðslu og svo var mikið af hjálplegu efni á Spjaldtölvuvefnum sem kennarar gátu kynnt sér.

Skjáskot af upplýsingavef Spjaldtölvuverkefnisins

Lærdómur

Opnu húsin gengu vel og voru nauðsynleg til að koma til móts við þá kennara sem vildu byrja að læra strax á spjaldtölvurnar og átta sig á hvernig hægt væri að nýta þær í námi og kennslu. Sumarið 2016 var ekki eins mikil þátttaka enda höfðu kennarar fengið mikla fræðslu veturinn á undan og gátu sjálfir sinnt sinni endurmenntun eftir áhuga og þörfum.

Grunnnámskeið í spjaldtölvunotkun

Grunnnámskeið í spjaldtölvunotkun var haldið fyrir alla kennara á starfsdögum fyrir skólasetningu í ágúst 2015. Þetta var heilsdagsnámskeið sem haldið var í hverjum skóla. Kennari frá Skema sá um kennsluna en einn kennsluráðgjafi Spjaldtölvuverkefnisins var til aðstoðar. Kennt var á helstu notendaöppin sem fylgja spjaldtölvunum frá Apple en þau eru Pages, Keynote, Numbers, iBooks, iMovie og Garageband. Einnig var appið Showbie kynnt en með því geta kennarar lagt fyrir verkefni með rafrænum hætti og nemendur skilað verkefnum með rafrænum hætti. Markmiðið með námskeiðinu var að gera kennarana öruggari gagnvart tækninni með því að gefa þeim tækifæri til að sjá og prófa mismunandi leiðir til að miðla þekkingu sinni til nemenda. Stefnt var að því að grunnnámskeið yrði endurtekin í skólunum og að allir kennarar myndu ljúka þeirri þjálfun fyrir áramót.

Á námskeiðunum vöknuðu margar spurningar hjá kennurum spurðu þeir meðal annars hvort reikna mætti með fleiri námskeiðum, til dæmis fyrir list- og verkgreinakennara. Því var til að svara að höfðað yrði sérstaklega til hópa á borð við list- og verkgreinakennara á Skólaþingi í október en nánar er fjallað um þingið hér neðar á síðunni.

Fyrirspurnir komu fram um það hvort Kópavogsbær gæfi út miðlægar reglur um viðurlög við brotum nemenda á reglum um notkun tækjanna. Svör Spjaldtölvuverkefnisins voru á þá leið að það væri ekki í verkahring þess að setja skólum agareglur, enda er stefna skóla í agamálum mismunandi. Í flestum tilvikum þyrfti ekki að setja sérstakar reglur um spjaldtölvunotkun heldur ættu skólareglurnar að duga. Spjaldtölvuverkefnið mælist til þess að meðalhófs sé gætt þegar reglur eru settar og að forðast í lengstu lög að taka spjaldtölvu af nemanda. Hafa þarf í huga að nemandi getur lítið unnið ef tæki er tekið af honum. Mikilvægt er að samtal eigi sér stað milli kennara, nemenda og foreldra um hvað sé æskilegt og að hverju þurfi að hyggja varðandi notkun tækjanna.

namskeidkenn 1
Kennarar í Snælandsskóla á námskeiði

Á námskeiðunum var spurt af hverju lyklaborð og rafrænir pennar fylgdu ekki spjaldtölvunum og lýstu nokkrir kennarar þeirri skoðun að þessi búnaður hefði mátt fylgja þeim öllum. Því var svarað til að Spjaldtölvuverkefnið taldi ekki grundvöll fyrir því að kaupa þennan aukabúnað handa öllum þar sem óvíst væri að allir myndu nota þann búnað og hann væri dýr. Lyklaborð sem tengist þráðlaust við iPad og penni sem hægt er að nota á iPad kosta um tuttugu þúsund krónur sem er fjórðungur af innkaupaverði einnar spjaldtölvu. Svo var kennurum bent á að spjaldtölvur henta ekki í mikla ritvinnslu og kæmu ekki í staðinn fyrir borðtölvur. Skólastjórar gætu tekið ákvörðun um slík kaup fyrir sína kennara ef þeir kysu það.

Lærdómur

Námskeiðin gengu vel og var almenn ánægja með þau. Flestir kennarar voru jákvæðir og lögðu sig mikið fram. Fyrirspurnir um miðlægar agareglur komu fram og hafa reglulega skotið upp kollinum. Telja má líklegtað ástæðurnar séu tvenns konar. Önnur er sú er að þegar kennarar spyrja þessarar spurningar líta þeir ekki á spjaldtölvuna sem eitt af verkfærunum í verkfærakistu kennarans heldur eitthvað sem stendur eitt og sér og hljóti að kalla á sérstakar reglur. Hin ástæðan er sú að kennurum finnst fylgja því aukið álag að fá spjaldtölvurnar inn í kennslustofurnar og vilja einfaldlega fá með þeim skýrar reglur. Á stundum var eins og þeir vildu einhverjar reglur þar sem viðurlögin væru að taka spjaldtölvurnar af nemendum. Við í Spjaldtölvuverkefninu leggjum áherslu á við kennara að það sé ekki lausn að taka spjaldtölvu af nemanda brjóti hann reglur. Betra er að ræða við nemandann um ábyrga notkun og gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt.

Nokkrir kennarar í hverjum skóla keyptu lyklaborð innbyggð í hulstur en það verður að segjast að reynslan af þeim búnaði var almennt ekki góð. Gæðin á honum voru misjöfn, lyklaborðin voru ekki með íslenskum lyklum og svo þurfti að hlaða þau sérstaklega, nokkur biluðu fljótlega og urðu hreinlega ónýt. Nú tveimur árum eftir innleiðingu eru mun færri kennarar með slík lyklaborð en í upphafi enda hafa kennarar aðgang að borðtölvum í sínum kennslustofum og í vinnurýmum kennara þegar skrifa þarf mikinn texta.

Námskeið í stafrænni borgaravitund

Haustið 2015, um það leyti sem nemendur í 8. og 9. bekk fengu sínar fyrstu spjaldtölvur, voru kennsluráðgjafar með fræðsluerindi fyrir umsjónarkennara þessara árganga um mikilvægi þess að kenna nemendum ábyrga umgengni um tækin og tæknina sem þeim fylgdi. Kennarar fengu líka afhentar kennsluhugmyndir tengdar stafrænni borgaravitund. Að baki lá sú hugsun að kennararnir gætu útfært þær í kennslu og lagað að sínum nemendum.

Skjáskot af upplýsingasíðunni á spjaldtölvuvefnum sem geymir kennsluhugmyndir í stafrænni borgaravitund

Námskeið um stafræna borgaravitund hafa svo reglulega verið haldin fyrir alla umsjónarkennara áður en nemendur þeirra hafa fengið spjaldtölvur í hendur, það er að segja í janúar 2016 fyrir nemendur í 6. og 7. bekk og í september sama ár fyrir nemendur í 5. og 6. bekk.

Lærdómur

Kennarar voru áhugasamir á námskeiðum sem þeim voru ætluð og sýna skilning á mikilvægi innleiðingar á nýrri tækni en þegar á hólminn er komið hafa margir þeirra ekki nýtt það sem þeir lærðu á námskeiðunum og ekki farið í nauðsynlega vinnu með nemendum.

Við í Spjaldtölvuverkefninu höfum fengið inn á okkar borð flókin mál sem upp hafa komið og skólarnir hafa verið í vandræðum með að leysa úr. Má þar nefna dæmi um nemendur á miðstigi sem hafa notað tækin til að skoða klám og jafnvel dreifa klámmyndum í tæki samnemenda sinna eða spilað ofbeldisleiki sem eru bannaðir yngri en 17 ára. Í allt of mörgum tilvikum kemur í ljós, þegar þessi mál eru skoðuð, að kennari hefur lítið sem ekkert unnið með stafræna borgaravitund með nemendum. Stafræn borgaravitund er ekki afgreidd í eitt skipti fyrir öll í einni kennslustund. Það þarf stöðugt að vinna með hana líkt og einelti, forvarnir ýmiss konar og nám almennt. Sérstaklega þarf að vinna með þætti eins og myndatökur og samfélagsmiðla en spjaldtölvurnar eru mikið notaðar við samskipti og miðlun á myndefni. Stafræn borgaravitund og umræða um netöryggi eiga að vera rauður þráður í allri vinnu nemenda og kennara í spjaldtölvum. Nánar er fjallað um stafræna borgaravitund í kaflanum Námsefni og veitur.

Skólaþing 2015

Síðustu árin hefur einn starfsdagur kennara verið sameiginlegur fyrir alla grunnskólakennara í Kópavogi og borið yfirskriftina Skólaþing. Skólaárið 2015-2016 var þingið tileinkað breyttum kennsluháttum með innleiðingu spjaldtölva. Dagurinn byrjaði með fyrirlestri Hjálms Dórs Hjálmssonar kennara í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit en sá skóli innleiddi spjaldtölvur í sitt skólastarf árið 2013 og bjó því yfir reynslu sem hann gat deilt með öðrum. Þó að Spjaldtölvuverkefnið styðjist við ýmsar erlendar rannsóknir er dýrmætt fyrir okkur sem stöndum að innleiðingu á spjaldtölvum í grunnskólum Kópavogs að fá íslenskar reynslusögur úr öðrum landshornum frá fyrstu hendi.

Eftir fyrirlestur Hjálms gátu kennarar valið um ýmsar vinnustofur tengdar spjaldtölvum. Nánari upplýsingar um dagskrá þessa dags má finna hér.

Lærdómur

Skólaþing grunnskólakennara í Kópavogi hafa verið haldin árlega í um áratug og gefist vel. Með þeim er hægt að bjóða upp á fjölbreytta fræðslu fyrir kennara eins og dagskráin ber með sér og svo eru árganga- og faghópafundirnir eftir hádegi mikilvægir fyrir kennara því þar gefst þeim tækifæri á að ræða við kennara úr öðrum skólum. Þá hittast allir kennarar sem eru að kenna nemendum í 1. bekk í grunnskólum Kópavogs, allir náttúrufræðikennararnir eða allir myndmenntakennararnir svo nokkur dæmi séu tekin. Yfirleitt er bara einn sérgreinakennari í hverju fagi í hverjum skóla og því mikilvægt að hittast, bera saman bækur og læra hver af öðrum.

Kennaraheimsóknir

Spjaldtölvuverkefnið skipulagði jafningjafræðslu sem var útfærð þannig að tveir eða þrír kennarar úr einum skóla fóru á kennarafund í öðrum skóla og sögðu frá markverðum hlutum sem þeir voru að vinna að með spjaldtölvunum. Kennsluráðgjafar fundu og bókuðu tíma sem hentaði og sáu til þess að skólarnir veldu kennara til að fara í kynningarnar en kennararnir sjálfir höfðu alveg frjálsar hendur með hvað þeir ætluðu að kynna. Hver skóli sendi fulltrúa einu sinni í annan skóla og fékk eina heimsókn skólaárið 2015-2016. Þessar heimsóknir stóðu í um það bil hálftíma og voru yfirleitt í upphafi kennarafunda.

Lærdómur

Heimsóknir kennara í aðra skóla gengu almennt vel og margir kennarar stigu út fyrir þægindarammann sinn með því að segja ókunnugum kennurum hvað þeir sjálfir voru að gera. Stundum sýndu kennarar eitthvað sem móttökukennararnir höfðu ekki séð áður eða útfærslur sem þeir þekktu ekki og stundum voru kennarar að sýna eitthvað sem móttökukennararnir höfðu reynt eða séð. Það var líka í góðu lagi því í því fólst bara staðfesting á því að móttökukennarar væru á réttri leið. Oftar en ekki fengu þeir kennarar sem voru að kynna sín vinnubrögð einnig góð ráð frá móttökukennurunum.

Mikilvægt er að það sé ekki valkvætt fyrir kennara að hlusta á kynningar kennara úr öðrum skólum . Í einum skóla hafði skólastjóri gefið það út að kennarar mættu ráða hvort þeir mættu og því miður fór það svo að örfáir kennarar voru mættir til að hlusta á kynningar gestanna sem höfðu varið miklum tíma í undirbúning.

Námskeið fyrir umsjónarkennara í 6. og 7. bekk

Um miðjan janúar 2016 voru haldin námskeið fyrir umsjónarkennara í 6. og 7. bekk þar sem þeirra nemendur áttu að fá spjaldtölvur í byrjun febrúar. Sem fyrr voru það kennarar frá Skema sem sáu um þessi námskeið en kennsluráðgjafar Spjaldtölvuverkefnisins voru til aðstoðar. Kennarar úr þremur skólum voru á hverju námskeiði og þannig varð fjöldi þátttakenda hæfilegur á hverju námskeiði eða á bilinu fimmtán til tuttugu kennarar. Efni námskeiðsins var útbúið og gæðavottað af Apple-fyrirtækinu en Skema hafði lagað efnið og sniðið að íslenskum aðstæðum. Kennt var á öppin GarageBand, iMovie, Keynote og Showbie.

Lærdómur

Námskeið fyrir umsjónarkennara tókust vel en sumir kennarar voru óánægðir með að þurfa að fara á þessi námskeið því þeir töldu sig kunna flest sem þar var kennt og sögðu tíma sínum betur varið í annað. Það var að vissu leyti réttmæt gagnrýni en við í Spjaldtölvuverkefninu vildum vera viss um að allir kennarar hefðu fengið þá fræðslu sem var í boði á þessum námskeiðum og mæltum því með því að þeir sæktu allir námskeiðið.

Undirbúningsfundur fyrir miðstigskennara vorið 2016

Í byrjun júní 2016 var haldinn undirbúningsfundur með þeim kennurum sem áttu að kenna nemendum í 5. og 6. bekk skólaárið 2016-2017 en þessir nemendur áttu að fá spjaldtölvur afhentar þá um haustið. (Athugið að tvisvar sinnum voru nemendum í 6. bekk afhentar spjaldtölvur árið 2016 en þar sem þetta var á sitthvoru skólaárinu var þetta sitthvor árgangurinn. Nánar er fjallað um afhendingu nemendatækja á síðunni Nemendur). Á þessum fundi var farið yfir markmiðin með innleiðingunni og sagt frá því hvernig afhendingarferlið yrði. Einnig hvernig væri best að stjórna hegðun og notkun nemenda á spjaldtölvunum. Farið var yfir aldurstakmörk á öppum og samfélagsmiðlum enda voru þessir nemendur yngri en 13 ára eða undir þeim mörkum sem langflestir samfélagsmiðlar setja.

YouTube appið í App Store

Dæmi um aðrar aldurstakmarkanir er að YouTube-appið er ekki fyrir börn yngri en 17 ára. Á YouTube getur verið efni sem er ekki við hæfi barna og þess vegna setur Apple þessi aldursmörk á appið í App Store. Spjaldtölvuverkefnið mælir þó með því að nemendur sæki sér appið enda eru síur á neti Kópavogsbæjar sem eiga að sía frá efni sem ekki hæfir grunnskólanemendum. Þegar nemendur eru skráðir inn í Google-umhverfi skólans eru einnig síur í gangi af hálfu Google því aldur nemenda er skráður í það kerfi og YouTube er í eigu Google. Svo komast nemendur að sjálfsögðu á YouTube í gegnum vafra ef ekkert væri appið. Spjaldtölvuverkefnið mælti þó með því að kennarar ræddu þessi mál vel við nemendur því spjaldtölvurnar fara líka heim og ekki eru öll heimili með netsíur. Nánar er fjallað um öpp og App Store á síðunni Spjaldtölvur. Ýmis hagnýt atriði voru einnig rædd á þessum fundum svo sem ábyrgð nemenda varðandi tækin, skemmdir og bilanir.

Lærdómur

Fundir með kennurum á miðstigi fóru fram í lok fyrsta skólaársins eftir að spjaldtölvuinnleiðing hófst og því bæði Spjaldtölvuverkefnið og kennarar komnir með töluverða reynslu af notkun spjaldtölva í skólastarfi. Í kennarahópnum voru nokkrar óánægjuraddir í þá veru að pólitíkin hefði þrýst tækjunum ofan í fólk og kennarar ekkert haft um það að segja. Það er reyndar rétt enda var þessi spjaldtölvuinnleiðing að frumkvæði yfirvalda í bænum og það eru þau sem setja sér skólastefnu samkvæmt grunnskólalögum. Skólastjórnendum og kennurum er svo ætlað að framfylgja þeim stefnviðmiðum sem bærinn setur. Þeir eru ráðnir til ákveðinna verka og ef vinnuveitandinn, almannavaldið í bæjarfélaginu, ákveður að spjaldtölvur skuli vera hluti af skólastarfinu er gert ráð fyrir að kennarar almennt tileinki sér notkun á þeim tæknibúnaði. Kennarar við grunnskóla Kópavogs geta varla vikið sér undan þessari stefnumörkun og hafa í raun lítið val um það hvort þeir noti spjaldtölvur í skólastarfi eða ekki.

Hvað varðar aldurstakmörkin þá er það óvinnandi vegur fyrir kennara að fylgjast daglega með því hvort nemendur séu með öpp í tækjunum sem hæfa þeirra aldri eða ekki. Kennari gæti beðið nemanda að henda út appi en nemandinn sótt það aftur eftir skóla og verið kominn með það næsta dag. Engu að síður er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að aldurstakmörk geta veitt ágæta leiðsögn um það hvað er við hæfi og hvað ekki í skólastarfi með börnum og unglingum.

Nær allir þeir nemendur sem eru á samfélagsmiðlum án þess að hafa aldur eru þar með vitund og samþykki foreldra sinna. Spjaldtölvuverkefnið hefur því lagt til að í stað þess að banna samfélagsmiðlana eða loka augum og eyrum fyrir þeim, séu nemendur með öppin stillt þannig að enginn geti séð neitt af þeim myndum og texta sem þeir setja þar inn nema vinir þeirra og að þeir gerist ekki vinur neins sem þeir vita ekki hver er.

Námskeið skólaárið 2016-2017, annað ár innleiðingar

Margvísleg námskeið voru á öðru ári innleiðingar. Á starfsdögum fyrir skólabyrjun var námskeið fyrir nýja kennara sem voru að hefja störf í Kópavogi og höfðu ekki reynslu af að nota spjaldtölvur í skólastarfi. Þar var farið yfir helstu atriðin sem farið hafði verið yfir með kennurum skólaárið á undan.

Haustið 2016 stóð öllum grunnskólunum til boða að fá námskeiðspakka frá okkur kennsluráðgjöfunum í Spjaldtölvuverkefninu. Pakkinn samanstóð af fjórum námskeiðum sem skiptust á tvær innkomur í skólana. Í fyrri innkomunni var eitt námskeið fyrir alla kennara sem nefndist Lesskilningur án bóka og stóð það yfir í eina og hálfa klukkustund. Á námskeiðinu var fjallað um hvernig hægt er að vinna með bókmenntir á lifandi og skapandi hátt. Kennarar sóttu bókmenntaefnið sem var ætlað nemendum í Showbie, náðu sér í ljósmyndir og teikningar af netinu, tóku ljósmyndir og skeyttu þeim saman í Adobe Photoshop Mix. Myndirnar notuðu þátttakendur síðan til að búa til stuttar myndir í Adobe Spark Video þar sem þeir endursögðu efni sagna með sínum hætti. Markmiðið með þessu námskeiði var að gefa þátttakendum tækifæri til að kynnast nýjum leiðum til náms og tjáningar.

lesskilningur
Mynd sem varpað var upp á tjald á námskeiðunum

Í seinni innkomunni voru þrjú klukkutíma löng námskeið í boði en kennarar áttu að velja eitt af þeim.

Á námskeiði eitt var farið í hvernig byggja má upp kennslustund, það er að leggja inn verkefni þar sem spjaldtölvan nýtist til náms, menntunar og kennslu. Byggt var á þáttum eins og kveikju, heimildaöflun og námsmati og fóru kennarar í gegnum ferlið í hlutverki nemenda og unnu kynningu sem byggir á notkun appa að eigin vali til dæmis Keynote, Adobe Spark Video eða iMovie.

Á námskeiði tvö sem nefndist Google Classroom var farið yfir helstu grunnatriði þessarar rafrænnu kennslustofu sem öllum kennurum í grunnskólum Kópavogs stendur til boða. Nánar er fjallað um Google Classroom á síðunni Tæknimál.

Á námskeiði þrjú var fjallað um ýmsar kennsluhugmyndir í stafrænni borgaravitund með áherslu á myndatökur og samfélagsmiðla.

Fyrir námskeiðin fengu kennarar póst með upplýsingum um námskeiðin og þar sem gerð var krafa að þeir væru búnir að ná í Adobe-öppin og skrá sig í þau.

Í nóvember var sérstakt námskeið fyrir náttúrufræðikennara. Þar sýndi danskur kennari kennurum hvernig nota mætti ýmis konar þráðlaus mælitæki frá Vernier með spjaldtölvunum.

Lærdómur

Öll þessi námskeið tókust vel og fengu góðar viðtökur af hálfu kennara. Námskeiðið Lesskilningur án bóka vorum við kennsluráðgjafarnir fyrst með á vorráðstefnu á vegum Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri í apríl 2016 en nánar er fjallað um hana á síðunni Leiðsögn, ráðgjöf og stefnumótun. Námskeiðið gekk svo vel að við ákváðum að leggja áherslu á að kynna það meðal kennara í Kópavogi. Á námskeiðinu vinna kennarar með stuttar þjóðsögur með því að endursegja þær með sínum orðum, taka myndir af sjálfum sér og setja sig sem persónur inn í sögurnar. Segja má að þetta námskeið hafi slegið í gegn og mikil gleði ríkt þegar það hefur verið haldið. Einhverjir kennarar hafa notað þessa sögugerð með sínum nemendum og það er ánægjulegt að sjá þessa vinnu okkar kennsluráðgjafanna skila sér til nemenda.

Fyrir námskeiðin fengu kennarar skýr fyrirmæli: „Gerð er krafa [um] að þátttakendur hafi sótt sér öppin Showbie, Adobe Photoshop Mix og Adobe Spark Video ásamt því að þátttakendur hafi skráð sig inn í Adobe-forritin (skráð inn Adobe ID).“ Samt var undir hælinn lagt hvort kennarar væru búnir að ná í þau öpp sem lágu til grundvallar á námskeiðunum. Of margir kennarar gerðu þetta ekki og því þurftum við kennsluráðgjafarnir að gera ráð fyrir því í upphafi námskeiða að gefa kennurum tíma til að ná í öppin. En þá þurftu þeir kennarar sem höfðu farið eftir fyrirmælum að bíða eftir hinum sem er heldur ekki gott.

Engisprettufaraldur

Á vorönn 2017 fór Spjaldtölvuverkefnið í sérstakt fræðslu- og ráðgjafarátak sem nefndist Engisprettufaraldur. Nafnið er tilkomið vegna þess að í stað þess að hver og einn kennsluráðgjafi væri í sínum skóla að flögra þar um eins og húsfluga færu þeir allir þrír saman í hvern skóla í tvo daga samfellt með skipulagða dagskrá frá klukkan átta til fjögur. Svona eins og engisprettufaraldur. Uppleggið var að fara inn í kennslustundir með kennurum og aðstoða þá með það sem þeir vildu fá aðstoð með. Eftir að kennslu lauk voru svo kennsluráðgjafar með námskeið frá kl. 14:30 til 16 báða dagana. Skólarnir höfðu alveg frjálst val með hvaða tvo daga þeir vildu og pöntunarfyrirkomulagið var einfalt: „Fyrstur kemur – fyrstur fær.“

Hver kennsluráðgjafi sá um skipulagningu í sínum skóla og sendi á alla kennara slóð á Google Sheets-skjal en með þeim hætti gátu kennarar sjálfir skráð í hvaða tíma þeir óskuðu eftir aðstoð kennsluráðgjafa og hvert viðfangsefnið þar ætti að vera.

Pöntunarskjalið á Engisprettudögunum

Dagskrá námskeiðsins fyrri daginn var þannig að kennsluráðgjafarnir þrír voru hver með sitt tuttugu mínútna námskeið um verkseðla í Pages, Numbers-verkefni og þráðlausa hitamæla sem hægt er að tengja við spjaldtölvur. Kennurum var því skipt upp í þrjá hópa.

Í upphafi seinni námskeiðsdagsins var könnun í Nearpod þar sem spurt var hvort námskeið gærdagsins kæmu til með að nýtast kennurum, hvað hefði betur mátt fara og fleira í þeim dúr. Einnig voru kennarar spurðir hvort og hversu mikið þeir nýttu sér leiðbeiningavef Spjaldtölvuverkefnisins og appavefinn sem við köllum svo. Þeir voru einnig spurðir hvort þeir hefðu kynnt sér hugmyndafræðina á bak við innleiðinguna. Fjallað verður nánar um niðurstöðurnar á síðunni Kannanir og mælingar.

Lærdómur

Skólastjórnendur fengu upplýsingar um Engisprettufaraldurinn í byrjun febrúar og Spjaldtölvuverkefnið mælti með að skólarnir veldu dagana tvo sem fyrst þannig að allir skólar væru búnir með Engisprettudagana í síðasta lagi í apríl. Skólarnir drógu allt of lengi að velja dagana, þannig að fyrsta innkoman í skóla var ekki fyrr en í byrjun apríl og sú síðasta upp úr miðjum maí. Helsta umkvörtunarefni kennara var hvað við vorum seint á ferð, þeir vildu að við hefðum komið fyrr á skólaárinu en þar var ekki við Spjaldtölvuverkefnið að sakast heldur skólastjórnendur. Spjaldtölvuverkefnið hefur ekkert boðvald yfir skólum og gat þar af leiðandi ekki ákveðið hvenær þessi fræðsla yrði í boði eða færi fram.

Nýting á þessum dögum var misjöfn eftir skólum. Spjaldtölvuverkefnið hafði reiknað með að allir þrír kennsluráðgjafarnir væru nær samfellt í kennslustundum frá klukkan átta til tvö í öllum skólunum. Reyndin var sú að einungis var eftirspurn eftir slíku í innan við helming skólanna. Þar sem skólastjórnendur höfðu fylgt þessu fast eftir var nýting best og verst þar sem skólastjórnendur skiptu sér lítið af skipulagningunni. Þetta er því gott dæmi um hversu skólastjórnendur eru mikilvægir í svona innleiðingu.

Við í Spjaldtölvuverkefninu erum alltaf að læra og því vildum við fá endurgjöf frá kennurum um reynslu þeirra af námskeiðunum. Við notuðum Nearpod, bæði til þess að sýna kennurum hvað það væri einfalt og gott kerfi og svo er einfalt að safna þar saman niðurstöðum. Helstu niðurstöður voru þær að kennarar voru ánægðir með námskeiðin en mörgum fannst heldur hratt farið yfir efnið. Það var meðvitað hjá okkur að keyra þessi tuttugu mínútna námskeið hratt og halda tímaáætlun því að ef einn hópur yrði lengur en til var ætlast færi öll dagskráin úr skorðum. Svo hugsuðum við þetta líka meira sem kynningu en djúpan lærdóm. Hugmyndin var að kveikja í kennurum og að svo myndu þeir sjálfir halda loganum gangandi.

Samkvæmt okkar könnun nýtir innan við helmingur kennara sér leiðbeiningavef okkar í Spjaldtölvuverkefninu og örfáir nýta sér appavefinn. Innan við helmingur kennara sögðust hafa kynnt sér hugmyndafræðina á bak við innleiðinguna. Nánar er fjallað um niðurstöðurnar á síðunni Kannanir og mælingar.

NOTKUN KENNARA Á SPJALDTÖLVUM

Eins og kom fram í kaflanum hér að ofan um afhendingu á spjaldtölvunum fengu kennarar þær fyrst í hendur rétt áður en þeir fóru í sumarfrí vorið 2015. Einu fyrirmælin sem kennarar fengu frá Spjaldtölvuverkefninu var að þeir ættu að vera duglegir að fikta í tækjunum, nota spjaldtölvuna til að skoða fréttasíður, fara á samfélagsmiðla, nota tölvupóstinn og setja inn öpp að eigin vali. Markmiðið var að kennarar hefðu sem mesta ánægju af að nota spjaldtölvuna og uppgötvuðu sjálfir gagnsemi hennar. Þeir myndu sjálfir, með daglegri notkun, kynnast kostum hennar og göllum og væru því í vel í stakk búnir að nota spjaldtölvurnar í kennslu um haustið.

Á starfstíma skóla er misjafnt eftir kennurum hvernig og hve mikið þeir nota spjaldtölvurnar. Allir grunnskólakennarar í Kópavogi hafa aðgang að borðtölvum í sínum stofum og einnig í vinnuherbergjum kennara. Þeir nota borðtölvurnar til að útbúa kennsluáætlanir, svara tölvupóstum og fleira í þeim dúr eins og þeir hafa gert mörg undanfarin ár. Spjaldtölvurnar hafa ekki tekið mikið við því hlutverki. Kennarar vilja þó hafa aðgang að tölvupósti í spjaldtölvunni, bæði vinnupósti og einkapósti sem er merki þess að þeim finnst hentugt að geta fylgst með tölvupóstinum í spjaldtölvunni.

Kennarar nota spjaldtölvurnar líka til að fylgjast með fréttamiðlum, gúggla ýmislegt og vera á samfélagsmiðlum eins og Facebook en það er ekki lokað fyrir það í Kópavogi eins og reyndin er í sumum sveitarfélögum eða á sumum vinnustöðum.

Síðast en ekki síst nota kennarar spjaldtölvurnar til að læra á ýmis öpp sem hægt er að nota í námi og kennslu. Þar má fyrst nefna rafrænu kennslustofurnar Google Classroom og Showbie en með þeim geta kennarar lagt fyrir verkefni hvort sem er með appi í spjaldtölvunum eða í vafra í borðtölvu og svo geta nemendur skilað verkefnum með rafrænum hætti með sínum spjaldtölvum. Kennarar nota líka Nearpod sem er ekki ósvipað og PowerPoint en í stað þess að glærurnar eða skjámyndirnar birtist uppi á töflu með hjálp skjávarpa birtast þær í spjöldum nemenda. Hægt er að leggja fyrir spurningar, bæði opnar spurningar og lokaðar fjölvalsspurningar, sem nemendur svara en kennarinn einn sér svörin. Framangreind öpp hafa að segja má tvær notendahliðar. Önnur er kennarahliðin sem aðeins kennarinn sér og hin er nemandahliðin sem bæði kennari og nemandi sjá.

Loks nota kennarar líkt og nemendur glærugerðar- eða skjákynningarappið Keynote, myndklippiforritið iMovie, rafbókargerðarappið Book Creator og fleira í þeim dúr.

Lærdómur

Hægt er að sjá í AirWatch-kerfinu hvenær spjaldtölva var síðast nettengd og þegar við í Spjaldtölvuverkefninu sjáum að tiltekin tölva hefur ekki verið tengd í marga daga eða vikur verður okkur náttúrulega ljóst að spjaldtölvan er lítið sem ekkert notuð. Tengsl við netið þurfa þó ekki að merkja að unnið sé með spjaldtölvuna í skólastarfi. Þó að spjaldtölva tengist netinu daglega er ekki tryggt að hún sé notuð í námi og kennslu. Kennari gæti verið að nota hana til að komast á Facebook eða sinna öðrum þörfum sem ekkert tengjast skólanum.

Eðlilega voru kennarar misduglegir sumarið 2015 að nota spjaldtölvurnar, enda nýbúnir að fá þær. Spjaldtölvuverkefnið fór ekki í neinn lögguleik til að skoða hvaða kennarar væru ekki að nota spjaldtölvurnar. Það sama á við um skólaárin tvö sem nú eru að baki. Við í Spjaldtölvuverkefninu reyndum bara að vera jákvæð og hvetjandi og héldum ótal námskeið eins og kemur fram hér að ofan og hvöttum kennara, nemendur og skólastjórnendur til að nýta spjaldtölurnar til góðra verka. Við létum þá mest vera sem lítinn áhuga sýndu en einbeittum okkur frekar að þeim sem voru móttækilegir og til í slaginn.

Eftir að kennarar hafa fengið fræðslu á öpp eins og Keynote og iMovie og þeir unnið með þau með nemendum sínum þurfa þeir að jafnaði ekki meiri fræðslu eða hjálp varðandi notkun þeirra. Nemendur verða fljótt sjálfbjarga og eru oftar en ekki fljótir að ná betri tökum á öppunum en kennararnir. Nemendur eru yfirleitt viljugir til að hjálpa hverjir öðrum og verða sérstaklega uppnumdir þegar kennarinn biður þá um að kenna sér. Við kennsluráðgjafarnir höfum því lítið sem ekkert þurft að vera með framhaldsnámskeið í þessum öppum. Varðandi öppin Google Classroom, Showbie og Nearpod gilda önnur lögmál. Þessi öpp hafa tvær notendahliðar eftir því hvort þú ert kennari eða nemandi. Með þessum öppum leggja kennarar fyrir verkefni með rafrænum hætti og fá úrlausnir til baka frá nemendum. Þeir geta gefið nemendum einkunnir og haft yfirsýn yfir vinnu þeirra eftir því sem þörf krefur. Nemendur þekkja ekki þessa hlið og geta eins og gefur að skilja lítið aðstoðað kennarann við að skrá þar inn nemendur eða leggja fyrir verkefni. Þess vegna þurfa kennarar oftar aðstoð og meiri hjálp með þessi öpp.

Kennarar í Kópavogi eru fjölskrúðugur hópur og því fátt hægt að fullyrða um viðhorf þeirra. Margir voru jákvæðir, aðrir voru hlutlausir en svo voru líka í hópnum kennarar sem voru neikvæðir og fannst þessi spjaldtölvuvæðing alger vitleysa. Hér kemur stutt lýsing á þessum hópum.

Þeir jákvæðu:

Ef reynt er að lýsa jákvæða hópnum fyrst þá voru það kennarar sem höfðu notað upplýsingatækni í námi og kennslu og sáu gríðarleg tækifæri í því að nemendur væru komin með snjalltæki sem væru sínettengd og meðfærileg. Þeir voru því reiðubúnir að leggja á sig mikla vinnu til að læra að nýta spjaldtölvurnar á fjölbreyttan hátt. Þeir voru jákvæðir á námskeiðum, komu vel undirbúnir og kunnu að meta það sem þar kom fram. Í skólunum sínum voru þeir líka duglegir að hjálpa samkennurum sínum. Þessir kennarar voru líka duglegir að leita til kennsluráðgjafa og fá aðstoð. Það voru því kennarar sem bjuggu yfir mestri færni í notkun spjaldtölva sem nýttu sér mest aðstoð kennsluráðgjafa þegar þeir voru í húsi.

Þeir hlutlausu:

Hlutlausi hópurinn var fjölmennastur og alveg tilbúinn að glíma við og nota spjaldtölvur en hefði líka alveg geta beðið í eitt eða tvö ár með þessa innleiðingu. Þessi hópur sá í spjaldtölvunum fullt af tækifærum en líka mikla vinnu vegna innleiðingarinnar. Helsta umkvörtunarefni kennara í þessum hópi varðandi innleiðinguna var tímaskortur. Í skólum um þetta leyti voru innleiddar miklar breytingar á námsmati sem tóku kennara mikinn tíma að innleiða. Þessi hópur mætti á námskeið en undir hælinn lagt hvort þeir höfðu náð í þau öpp sem átti að kenna á. Á námskeiðunum var þessi hópur mjög jákvæður og „keypti“ hugmyndafræðina og ætlaði svo sannarlega að nýta hana í sinni kennslu í lok námskeiðs en svo tók grámyglulegur hversdagsleikinn við og gamla lestarsporið og eftir nokkra daga virtist fennt yfir allar fyrirætlanir og langanir.

Þeir neikvæðu:

Þriðji og sem betur fer fámennasti hópurinn voru þeir neikvæðu. Þeir fundu innleiðingunni allt til foráttu og geymdu helst spjaldtölvuna ofan í skúffu. Þeir litu margir á spjaldtölvuna sem leiktæki sem ekkert erindi ætti í grunnskóla. Þeir gerðu allt til að sleppa við að mæta á námskeið en þegar þeir mættu þá reyndu þeir að sleppa frá þeim eins auðveldlega og hægt var. Þessir kennarar og í sumum tilvikum skólastjórnendur hikuðu ekki við að koma gagnrýni sinni og neikvæðum viðhorfum á framfæri hvenær sem tækifæri gafst.

AÐRIR STARFSMENN

Í einhverjum tilvikum fengu stuðningsfulltrúar afhentar spjaldtölvur með þeim rökum að nemendur sem þeir voru að aðstoða væru með spjaldtölvur. Til að aðstoð stuðningsfulltrúanna nýttist sem best þyrftu þeir líka að hafa spjaldtölvur.

Í einum skólanum ákvað skólastjóri að láta húsvörð skólans fá spjaldtölvu en það var ekki með samþykki Spjaldtölvuverkefnisins svo að skólinn þurfti að greiða sérstaklega fyrir hana. Einungis þeir sem starfa við kennslu og skólastjórnendur áttu að fá spjaldtölvur.

Forsvarsmenn dægradvalar, sem er frístundastarf eftir skóla á vegum Kópavogsbæjar fyrir nemendur í 1.-4. bekk, óskuðu eftir að fá spjaldtölvur. Spjaldtölvuverkefnið taldi það vera fyrir utan sitt verksvið þar sem nemendur í þessum árgöngum væru ekki með spjaldtölvur frá Spjaldtölvuverkefninu. Í einhverjum tilvikum létu skólastjórar forsvarsmenn dægradvala fá spjaldtölvur en það var þá á kostnað viðkomandi skóla.

Forstöðumenn félagsmiðstöðva í Kópavogi óskuðu eftir að fá spjaldtölvur og Spjaldtölvuverkefnið lét þeim í té spjaldtölvur með þeim rökum að félagsmiðstöðvarnar væru fyrir nemendur í 8.-10. bekk sem að væru með spjaldtölvur frá Kópavogsbæ. Eitt af mörgum markmiðum innleiðingarinnar er að nemendur noti spjaldtölvur í sínu tómstundastarfi og að þær styðji líka við óformlegt nám og því var þessi ráðstöfun talin réttlætanleg.

Lærdómur

Þegar svo miklu magni spjaldtölva er deilt út til skóla verða margir sem vilja fá spjaldtölvu þó að þeir starfi ekki beint við kennslu. Mikilvægt er að viðmiðin séu skýr, hverjir eigi rétt á spjaldtölvu og hvers vegna.

KENNARAR – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Kennarar hefðu átt að fá lengri tíma til undirbúnings áður en nemendum voru afhentar spjaldtölvur
  • Skýrt þarf að vera hvaða starfsmenn eigi að fá spjaldtölvur og sjá til þess að þeir sæki þær á skilgreindum tíma
  • Afhendingartími á afhendingardegi þarf að vera rúmur
  • Ganga þarf frá notendaskilmálum áður en spjaldtölvur eru afhentar
  • Kennarar þurfa að huga að og sinna stafrænni borgaravitund
  • Jafningjafræðsla kennara er góð
  • Námskeið þurfa að vera á tímum sem henta kennurum
  • Gera þarf kennurum skýra grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim og tryggja að skólastjórnendur fylgi því eftir
  • Gefa þarf kennurum tíma til að sinna innleiðingunni