Innleiðing á spjaldtölvum í starf grunnskóla

Vefurinn sem hér birtist haustið 2017 er handbók um innleiðingu spjaldtölva fyrir nemendur og kennara á mið- og unglingastigi grunnskóla í heilu sveitarfélagi. Byggt er á reynslu við innleiðingu á spjaldtölvum á þessu aldurstigi við alla grunnskóla í Kópavogi á árunum 2015 til 2017.

Vefnum er skipt upp í nokkra efnisflokka eða síður eins og sjá má í valmynd hér fyrir ofan. Á síðunum eru ásamt fleiru stuttir lærdómskaflar þar sem höfundur reifar það sem hann telur gagnlegt fyrir þá sem vilja feta svipaða leið og Kópavogsbær. Það sem helst ætti að hafa í huga má svo sjá síðunni Samantekt og tillögur.

MARKHÓPURINN SVEITARSTJÓRNARMENN OG SKÓLAFÓLK

Markhópurinn er sveitarstjórnar- og skólafólk sem hefur áhuga á að innleiða spjaldtölvur í skólastarf í sínu sveitarfélagi. Einnig ætti vefurinn að nýtast starfsfólki, teymum og stýrihópum þar sem ákvörðun um innleiðingu hefur þegar verið tekin.

GREINARGERÐ OG FRÆÐILEG SJÓNARMIÐ

Vefnum fylgir greinargerð þar sem bakgrunni verkefnisins er lýst og sagt frá markmiðum með innleiðingunni, reynslu af henni og sumum þeim lærdómum sem draga má af spjaldtölvuvæðingunni á því stigi innleiðingar sem hún er um þessar mundir hjá Kópavogsbæ. Þar er leitast við að bregða fræðilegu ljósi á viðfangsefnið og vísað til rannsókna á innleiðingu á nýrri tækni í skólastarf og notkun spjaldtölva til náms og kennslu.

MEISTARAVERKEFNI Í MENNTAVÍSINDUM

Sigurður Haukur Gíslason hefur fengist við grunnskólakennslu um árabil en gegnir nú ásamt fleirum starfi kennsluráðgjafa í teyminu sem Kópavogsbær fól að leiða spjaldtölvuvæðingu grunnskólanna. Vefurinn og greinargerðin eru meistaraverkefni hans við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

NÝ STEFNA ÁRIÐ 2012 LAGÐI GRUNNINN

Árið 2012 var sett fram ný stefna í upplýsingatækni í grunnskólum Kópavogs og má segja að með henni hafi orðið til jarðvegur fyrir þá innleiðingu sem ráðist var í að loknum sveitarstjórnarkosningum árið 2014 og hófst árið 2015. Með þessari nýju stefnumótun árið 2012 var ætlunin að efla notkun upplýsingatækni í grunnskólastarfinu og gera skólum kleift að koma til móts við kröfur nútímans. Í nútímalegum skóla án aðgreiningar þurfa kennsluaðferðir að vera fjölbreyttar þannig að nemendur fái allir jöfn tækifæri til að afla sér þekkingar og upplýsinga og geti miðlað reynslu sinni og sýn á skapandi og gagnrýninn hátt. Til að ná þessum markmiðum þurfa kennarar að hafa góða þekkingu á upplýsingatækni og aðgang að tækjabúnaði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.

Upplysingataeknistefna
Skjáskot úr upplýsingatæknistefnunni

ÁÆTLUN Í NOKKRUM ÞÁTTUM

Upplýsingatæknistefnunni fylgdi á sínum tíma framkvæmdaráætlun og skiptist hún í nokkra þætti. Þeir voru þróunar- og nýbreytniverkefni, samvinna skóla, fræðsla, ráðgjöf og innleiðing á breyttu fyrirkomulagi við úthlutun tæknibúnaðar.

Í þróunar- og nýbreytnihluta áætlunarinnar var meðal annars sagt frá því að við Salaskóla væri ætlunin á skólaárinu 2012–2013 að hrinda úr vör þróunarverkefni í 1.–4. bekk þar sem beita ætti spjaldtölvum og leggja megináherslu á upplýsingalæsi og markvissa þjálfun ákveðinna atriða í námskrá. Þetta varð raunin og er nánar fjallað um það í kaflanum Þróunarverkefni um spjaldtölvur hér á eftir.

Í hluta um samvinnu skóla var lýst því hlutverki grunnskóladeildar og upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar að halda upplýsinga- og samráðsfundi til að efla samstarf og tryggja upplýsingaflæði til skóla varðandi upplýsingatækni, svo sem með einum fundi á önn með tölvuumsjónarmönnum í skólum og árlegum kynningarfundi þar sem skólar yrðu hvattir til að sækja um styrki frá innlendum og erlendum sjóðum til þróunarverkefna á sviði upplýsingatækni.

Auka átti fræðslu og ráðgjöf á sviði upplýsingatækni í skólastarfi og veita skólum frelsi til að velja aðrar tegundir af tölvum þegar kæmi að endurnýjun á borðtölvum og þá fartölvur eða spjaldtölvur. Þessu samhliða var stefnt á að styrkja þráðlaust net í skólum sem á þessum tíma, árið 2012, var óvíða fyrir hendi. Einnig átti að skoða hvort nemendur gætu komið með eigin tæknibúnað í skólann.

Eins og af þessu má ráða var miðið sett á fartækni: fartölvur, spjaldtölvur og jafnvel síma. Má því segja að með þessari stefnumörkun hafi verið stigin fyrstu skref í átt að þeirri innleiðingu á spjaldtölvum sem síðar varð, að hún hafi sprottið úr þeim jarðvegi sem þarna var plægður.

ÞRÓUNARVERKEFNI UM SPJALDTÖLVUR OG HEIMSÓKN Á TÆKNISÝNINGU

Eins og áður sagði urðu ákveðin þáttaskil árið 2012 þegar þegar yfirvöld í Kópavogsbæ lögðu fram nýjar og skipulegar hugmyndir um upplýsingatækni í grunnskólum. Þá var mörkuð sú stefna að koma upp þráðlausum nettengingum í grunnskólunum og að skólar hefðu aukið frjálsræði um val á tölvubúnaði. Ný fartækni með snjalltækjum á borð við snjallsíma og spjaldtölvur var þá rétt að koma fram.

Einn grunnskólanna, Salaskóli, nýtti tækifærið skólaárið 2012-2013 og fór af stað með þróunarverkefni í upplýsingatækni um notkun spjaldtölva í kennslu. Skólinn fékk til afnota þrjátíu spjaldtölvur auk þess sem nemendum bauðst að koma með sín eigin tæki í skólann. Þróunarverkefnið var unnið í samstarfi við upplýsingatæknideild bæjarins og þótti það ganga vel og átti sinn þátt í að vekja áhuga bæjaryfirvalda á að nýta spjaldtölvur í öllum skólum bæjarins.

Vefur um þróunarverkefni Salaskóla

Í janúar 2014 fóru fulltrúar menntasviðs og upplýsingatæknideildar Kópavogs á The Bett Show í London, árlega tæknisýningu fyrir skólafólk, til að kynna sér strauma og stefnur í upplýsingatækni í skólastarfi. Segja má að þessi heimsókn hafi orðið til þess að sannfæra bæjaryfirvöld endanlega um að skynsamlegt væri að stefna á almenna innleiðingu á spjaldtölvum í grunnskóla bæjarins.

HVER VAR STAÐAN VIÐ UPPHAF INNLEIÐINGAR ÁRIÐ 2015?

Grunnskólar í Kópavogi voru árið 2015 níu talsins og nemendur á því skólastigi um 4.700 talsins. Stærstur var Hörðuvallaskóli með um 770 nemendur og minnstur Kópavogsskóli með rétt rúmlega 300 nemendur. Engir safnskólar eru í Kópavogi heldur eru skólahverfin skipulögð þannig að um 40–50 nemendur verði í árgangi í hverjum skóla eða um 20–25 nemendur í hverri bekkjardeild. Skólarnir höfðu tölvuvæðst um svipað leyti og aðrir skólar á Íslandi og áhugi á upplýsingatækni í skólastarfi risið hátt með þeirri netvæðingu sem varð undir lok síðustu aldar. Efnahagshrun árið 2008 hafði þó sett sitt strik í reikninginn og búnaður við marga skólana orðinn úr sér genginn.

Nánar má lesa um rannsóknir á innleiðingu á búnaði og stöðu tölvunotkunar í grunnskólum á Íslandi áður en fartæknin tók að ryðja sér rúms í bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar í kafla níu, Upplýsingatækni í skólastarfi.

Almennt voru skólarnir í Kópavogi búnir PC-borðtölvum í svokölluðum tölvuverum þar sem almenn tölvukennsla fór fram. Einnig gátu einstaka kennarar pantað tíma til að fara með nemendahópa í tölvuver og fást þar við ýmis verkefni. Einhvern tölvubúnað til nota við heimildaleit og úrvinnslu upplýsinga gat líka verið að finna á skólasöfnum. Í kennslustofunum var að jafnaði ein borðtölva á kennaraborði til nota fyrir kennara og höfðu nemendur almennt takmarkaðan aðgang að þeim tölvum. Í flestum kennslustofunum voru skjávarpar sem voru tengdir kennaratölvunum og í einstökum skólum voru nokkrar gagnvirkar töflur sem oft eru nefndar snjalltöflur.

Við hvern skóla var oftast að finna einn eða fleiri kennara sem höfðu verið leiðandi um notkun upplýsingatækni í skólastarfinu og nýttu lausa tíma í tölvuverunum þegar færi gafst. Þar sem lítið var um fartölvur, hvað þá spjaldtölvur, var notkun nemenda á tölvutækninni í almennri kennslu nær alveg takmörkuð við tölvuverin.

Þráðlaust net var komið í alla skóla árið 2015 en mismunandi eftir skólum hversu útbreitt það var. Yfirleitt voru þráðlausu sendarnir á göngum skólanna svo netsamband gat verið brokkgengt inni í skólastofunum. Sumir skólanna höfðu orðið sér út um spjaldtölvur en þá í litlum mæli og ekki voru nema fáir kennarar í hverjum skóla sem notuðu þær markvisst.

ÁTAK UM SPJALDTÖLVUVÆÐINGU

Eftir sveitarstjórnarkosningar vorið 2014 var myndaður nýr meirihluti í bæjarstjórn Kópavogs. Eitt af áherslumálum hans var að taka í notkun spjaldtölvur á mið- og unglingastigi grunnskólanna í samvinnu við skólana og starfsfólk þeirra. Það var svo í desember 2014 sem bæjarstjórnin samþykkti fjárhagsáætlun þar sem gert var ráð fyrir 200 milljónum í eflingu upplýsingatækni og kaup og innleiðingu á spjaldtölvum fyrir alla kennara og nemendur á mið- og unglingastigi grunnskóla í bæjarfélaginu. Með þeirri ákvörðun var gengið lengra í spjaldtölvuvæðingu grunnskóla en dæmi voru um að hér á landi. Átakið átti að ná til allra grunnskóla í öðru stærsta sveitarfélagi landsins, til allra kennara og með tímanum allra nemenda á tveimur aldursstigum, frá 5. upp í 10. bekk.

Í ársbyrjun 2015 var svo útboð á spjaldtölvum fyrir alla kennara í Kópavogi og alla nemendur í 8. og 9. bekk auk 300 spjaldtölva til að nota í svokölluð bekkjarsett. Nánar er fjallað um val og útboð á spjaldtölvum á síðunni Spjaldtölvurnar. Á vormánuðum 2015 var ráðinn verkefnastjóri innleiðingarinnar og strax í kjölfarið þrír kennsluráðgjafar til að styðja við innleiðinguna úti í skólunum en nánar er fjallað um það á síðunni Leiðsögn, ráðgjöf og stefnumótun.

Til hægðarauka verður hér á vefnum notað heitið Spjaldtölvuverkefnið um þetta átak og þennan hóp verkefnastjóra og kennsluráðgjafa enda bar sá hópur hitann og þungann af innleiðingunni, lagði línur og hélt utan um verkefnið í samráði við bæjaryfirvöld og skólana.