Foreldrar

Burtséð frá spjaldtölvuvæðingu grunnskóla í Kópavogsbæ hafa börn greiðan aðgang að netinu með eigin snjalltækjum eða tölvum á heimilum. Ekki eru skörp skil milli heimila og skóla í þessum tækniheimi og því hefur samstarf heimila og skóla aldrei verið eins mikilvægt og nú. Af þessum sökum er mikið lagt upp úr góðu samstarfi við foreldra í spjaldtölvuinnleiðingunni og að þeir séu upplýstir um hvað er í gangi hverju sinni varðandi spjaldtölvurnar. Á þessari síðu er fjallað um hvernig Spjaldtölvuverkefnið hefur staðið að ýmis konar fræðslu fyrir foreldra.

KYNNINGARFUNDIR FYRIR FORELDRA

Áður en nemendur fengu afhentar spjaldtölvur þurftu foreldrar að koma á kynningarfund þar sem kennsluráðgjafar fóru yfir markmið innleiðingarinnar, skilmála, notkun tækis heima fyrir og fleiri hagnýt atriði. Nemendur í 8. og 9. bekk fengu fyrstu spjaldtölvurnar í september 2015 og fundir fyrir foreldra þessara nemenda voru í ágúst sama ár, einn í hverjum skóla. Þeir foreldrar sem ekki komu á þessa fundi fengu sendar upplýsingar í tölvupósti um þau atriði sem komu fram á fundunum.

foreldrafundur
Úr auglýsingu fyrir foreldrafund

Í næstu afhendingu voru nemendur yngri eða í 6. og 7. bekk og Spjaldtölvuverkefnið lagði því mun meiri áherslu á að foreldrar mættu á þessa kynningarfundi. Fundirnir voru auglýstir með hjálp bekkjarfulltrúa en einnig voru skólastjórar beðnir um að leggja hönd á plóg og sjá til þess að umsjónarkennarar viðkomandi árganga væru viðstaddir fundina. Foreldrar í hverjum skóla áttu val um tvo fundartíma, annar tíminn var að morgni frá klukkan átta til níu og hinn var frá klukkan fimm til sex næsta dag. Með þessu móti taldi Spjaldtölvuverkefnið að foreldrar allra nemenda ættu tök á að mæta á þessa fundi. Skólastjórar báru ábyrgð á því að skrá niður mætingu foreldra á þessa fundi svo hægt væri að hafa samband síðar við þá foreldra sem ekki komu og sjá til þess að hvergi færi spjaldtölva heim nema að foreldri væri vel upplýst um það efni. Hér má sjá nánari upplýsingar um hvernig fundirnir voru auglýstir og hér gefur að líta skjákynningu frá fundunum.

Lærdómur

Þó að foreldrar hefðu val um fundartíma voru allt of margir forsjáraðilar nemenda í 6. og 7. bekk sem ekki komu á þessa fundi í desember 2015. Það var því ákveðið að halda enn einn fundinn í hverjum skóla í janúar 2016. Þrátt fyrir alla þessa fundi áttu foreldrar um 150 barna í skólunum níu eftir að koma á fund í lok janúar og því var enn boðið upp á þrjá fundi til viðbótar. Samt voru nokkrir foreldrar sem ekki létu sjá sig og gengu kennsluráðgjafar svo langt að bjóða þeim upp á einkafundi í skólunum. Eftir á að hyggja fór allt of mikill tími og orka í að fá alla foreldra til að mæta á fund.

Við næstu afhendingu haustið 2016 voru haldnir kynningarfundir fyrir foreldra nemenda í 5. og 6. bekk strax eftir skólasetningu og ákvað Spjaldtölvuverkefnið að ganga ekki jafn langt í að bjóða upp á aukafundi eins og áður. Þess í stað var öllum foreldrum send vefslóð á handbækur foreldra og nemenda tengdar verkefninu.

 

SAMNINGAR UM AFNOT AF SPJALDTÖLVU

Áður en nemendur fengu spjaldtölvur í hendur þurftu þeir og foreldrar eða aðrir forsjáraðilar þeirra að skrifa undir samning um afnot af tækjunum. Samningurinn kveður á um ábyrgð nemandans og forsjáraðila á meðferð og notkun tækisins á meðan nemandi hefur það til afnota. Spjaldtölvan er nemendum til afnota að kostnaðarlausu á meðan þeir stunda nám í grunnskólum Kópavogs. Veturinn 2015-2016 var samningurinn á pappírsformi en haustið 2016 var samningurinn rafrænn og birtur í Íbúagátt Kópavogsbæjar. Hér má sjá samninginn um afnot en hann var einnig til á ensku og pólsku.

Lærdómur

Samningurinn hefði strax um haustið 2015 mátt vera rafrænn í Íbúagátt. Mikil vinna fór í að innheimta pappírsformið.

KAUP Á SPJALDTÖLVUM

Fljótlega eftir afhendingu nemendatækja haustið 2015 komu fyrirspurnir frá foreldrum þar sem spurt var hvort þeir mættu kaupa spjaldtölvurnar. Stýrihópur innleiðingar hafði

vor
Björn Gunnlaugsson verkefnastjóri að afhenda keyptar spjaldtölvur vorið 2017

gert ráð fyrir þessum möguleika og á haustdögum 2015 stóð foreldrum til boða að kaupa spjaldtölvuna sem barn þeirra hafði til afnota. Markmið tilboðsins var margþætt eins og að stuðla að sem bestri meðferð nemenda á tækjunum en reynslan sýnir að líkur eru á því að nemandi fari betur með eigur sem hann á en eigur sem hann er með í láni frá skóla. Markmið var einnig að Kópavogsbær sæti ekki uppi með gamlar spjaldtölvur sem nemendur skila að loknu námi í 10. bekk. Verðinu var stillt mjög í hóf eða 27.000 krónur sem deildust á jafnar mánaðarlegar greiðslur yfir lengd kaupsamningsins sem var rúmlega eitt og hálft ár hjá nemendum í 9. bekk og tvö og hálft ár hjá nemendum í 8. bekk. Ekki var hægt að ganga frá kaupum með einni greiðslu þar sem spjaldtölvan á að vera eign Kópavogsbæjar á meðan nemandi er í skóla. Þannig er tryggt að hægt sé að framfylgja reglum um notkun og einnig er þannig skýrt að tjón vegna skemmda á spjaldtölvum leggist ekki á heimilið. Til að ganga frá kaupum þurfti foreldri eða forsjáraðili að skrá sig inn á Íbúagátt Kópavogsbæjar og fylla þar út umsókn.

Að sjálfsögðu var það engin kvöð að kaupa tækið. Aðgengi og notkun í námi eru eins hvort sem tilboðið er nýtt eða ekki. Kaupunum fylgir hins vegar réttur til að halda spjaldtölvunni í sumarleyfinu. Kaupsamninginn má sjá hér.

Lærdómur

Kaup foreldra fóru frekar rólega af stað en þegar nær dró vori og foreldrar gerðu sér grein fyrir að til þess að barnið þeirra fengi að hafa spjaldtölvuna yfir sumartímann þyrfti að kaupa hana jukust kaupin. Nú tveimur árum eftir fyrstu afhendingu þá hafa um það bil tveir þriðju foreldra nýtt sér þetta kauptilboð. Ekki hefur orðið vart við óánægju þeirra sem ekki hafa átt þess kost að taka tölvu með sér heim yfir sumartímann eða þótt erfitt að fjármagna kaup á spjaldtölvunum.

HANDBÆKUR FORELDRA

Til að halda foreldrum upplýstum um gang mála og veita þeim hagnýtar upplýsingar um verkefnið var gefin út Handbók foreldra og er hún á rafrænu formi eins og allt efni sem kemur frá Spjaldtölvuverkefninu.

handbok
Úr handbók foreldra

Í handbókinni er fjallað lauslega um markmið innleiðingarinnar, ýmisleg tæknileg atriði eins og Google Classroom og AirWatch, notkunarskilmála og hvar megi finna frekari upplýsingar um einstök atriði. Hér má sjá handbókina en hún er einnig til á ensku og pólsku.

Lærdómur

Þær upplýsingar og leiðbeiningar sem við í Spjaldtölvuverkefninu tökum saman setjum við líka á vefinn okkar með það að markmiði að það efni sé alltaf aðgengilegt. Gögn sem send eru með tölvupósti vilja oft týnast þegar frá líður. Við höfum ekki kannað með formlegum hætti hversu mikið foreldrar hafa nýtt sér þessar bjargir en það væri áhugavert að kanna frekar.

FORELDRANÁMSKEIÐ

Spjaldtölvuverkefnið í samstarfi við forritunarskólann Skema bauð upp á námskeið fyrir foreldra á vorönn árið 2015. Þetta voru tveggja tíma námskeið, þar sem farið var yfir helstu möguleika sem iPad hefur upp á að bjóða fyrir grunnskóla.

Skema namskeid

Foreldrum var ráðlagt að koma með spjaldtölvu barn síns á námskeiðin. Foreldrar gátu valið úr nokkrum dagsetningum og voru námskeiðin þeim að kostnaðarlausu. Á námskeiðunum var farið í:

  • Helstu aðgerðir á tækinu
  • Öpp sem nýtast í kennslu
  • Hvaða möguleikar eru fyrir foreldra að stjórna notkun heima fyrir

Hér má sjá auglýsingu þar sem svona námskeið var auglýst.

Lærdómur

Foreldrar þurftu að skrá sig á þessi námskeið þar sem sætaframboð var takmarkað við tuttugu sæti og einnig til að áætla magn veitinga sem í boði voru, en námskeiðið var á kvöldmatartíma. Því miður þá komu ekki allir sem skráðu sig og var mætingin yfirleitt 70-80% af þeim sem höfðu skráð sig. Á einu námskeiðinu komu bara tólf af þeim tuttugu sem höfðu skráð sig. Þeir foreldrar sem mættu voru ánægðir með námskeiðin.

SAMSTARF VIÐ SAMKÓP

Á vorönn árið 2016 hélt Samkóp, sem eru samtök foreldrafélaga í Kópavogi, fyrirlestraröð í samstarfi við Spjaldtölvuverkefnið um leiðir fyrir foreldra til að sinna uppeldi barna sinna í umhverfi spjaldtölva, tölva og síma. Lilja Rós Agnarsdóttir, félagsráðgjafi og starfsmaður velferðarsviðs Kópavogsbæjar fræddi foreldra um hvernig þeir gætu sett fáar og skýrar reglur um notkun snjalltækja heima við og benti foreldrum á að þeir gætu gert samning um notkun snjalltækja.

Uppeldistaekni samkop
Úr auglýsingu frá Samkóp

Eftir fyrirlestur Lilju Rósar fræddu kennsluráðgjafar Spjaldtölvuverkefnisins foreldra um tækniúrræði og svöruðu svo spurningum foreldra í lok fundar. Á þessum fundum var dreift upplýsingabæklingi um góð ráð varðandi uppeldistækni og tækniuppeldi sem Spjaldtölvuverkefnið hafði gert.

Lærdómur

Þessir fundir gengu vel og styrktu tengsl Samkóps og Spjaldtölvuverkefnisins. Lilja Rós talaði á sömu nótum og við í Spjaldtölvuverkefninu hvað varðar umgengnisreglur og agavandamál; Ef barn kemur ekki að borða þegar kvöldmaturinn er tilbúinn þá er það agamál en ekki sérstakt spjaldtölvuvandamál. Ef barnið væri að lita í litabók og vildi ekki koma að borða þá væri það varla sérstakt litabókarvandamál. Það eru foreldrar sem bera ábyrgð á uppeldi barna sinna.

 

FORELDRAR – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Gera þarf ráð fyrir að hluti foreldra mæti ekki á kynningarfundi og því þarf að koma upplýsingum til þeirra með öðrum hætti
  • Hafa ætti notendaskilmála rafræna
  • Setja ætti allt efni sem fer í tölvupósti til foreldra einnig á vef