Námsefni og veitur

Kennsluráðgjafar og verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í Kópavogi hafa frá upphafi innleiðingar verið sammála um að leggja mikla áherslu á stafræna borgaravitund. Að hafa stafræna borgaravitund (e. digital citizenship) er að hafa þekkingu, færni og viðhorf sem þarf til að sýna ábyrga og virðingaverða hegðun þegar tækni er notuð eða þegar tekið er þátt í stafrænu umhverfi. Fljótlega ráku kennsluráðgjafar sig á að ekki var til mikið efni á íslensku í þessum málaflokki. Það varð því úr að Spjaldtölvuverkefnið útbjó töluvert af kennsluefni og öðru efni er tengist stafrænni borgaravitund. Á þessari síðu er fjallað um það efni og helstu upplýsingaveitur sem Spjaldtölvuverkefnið notar eða styður sig við.

KENNSLUEFNI Í STAFRÆNNI BORGARAVITUND

Þegar leið á haustönnina 2015 voru æ fleiri kennarar farnir að óska eftir kennsluhugmyndum og verkefnum sem þeir gætu notað í kennslu varðandi stafræna borgaravitund því þeir voru sjálfir farnir að átta sig á því að það væri nauðsynlegt að kenna nemendum þessa þætti. Ekki er til mikið íslenskt kennsluefni um þetta efni og í ársbyrjun 2016 bjó Spjaldtölvuverkefnið til verkefni sem voru send hvert af öðru með tölvupósti til skólastjóra, í samráði við þá, en einnig sett á vef Spjaldtölvuverkefnisins. Öllum verkefnunum, sem kölluð voru skylduverkefni, fylgdu þau skilaboð að kennsluráðgjafar væru kennurum innan handar við útfærslu á verkefnunum.

snapp
Frétt úr visir.is

Verkefnin voru send út einu sinni í mánuði og snerust meðal annars um samfélagsmiðla og ábyrga notkun á þeim, höfundarrétt og niðurhal, netávana, miðlalæsi og bekkjarsáttmála en um þá er fjallað sérstaklega á síðunni Nemendur.

Markmiðið með verkefnunum var aðallega að efla stafræna borgaravitund en einnig að kynna í leiðinni valin öpp til nota í skólastarfi. Sem dæmi má nefna að við bekkjarsáttmálaverkefnið átti að nota appið Padlet og í samfélagsmiðlaverkefninu appið Nearpod.

Flest skylduverkefnin voru send á umsjónarkennara en svokallað ferilmöppuverkefni var sent á list- og verkgreinakennara og Numbers-verkefni á stærðfræðikennara. Á vorönn 2017 voru öll verkefnin tíu tekin saman í eitt hefti svo þau væru öll aðgengileg á einum stað.

Lærdómur

Þrátt fyrir að margir kennarar hefðu óskað eftir verkefnum um stafræna borgaravitund, hugnaðist það ekki öðrum að vera skyldaðir til að leggja þessi verkefni fyrir. Spjaldtölvuverkefnið hefur ekkert boðvald yfir kennurum og því er það á ábyrgð skólastjóra að fylgja verkefnum eins og þessum eftir. Eitt er að hafa aðgang að kennsluhugmyndum og annað að nýta sér þær í kennslu. Reynsla okkar í Spjaldtölvuverkefninu sýnir að kennarar vita almennt ekki hvað stafræn borgaravitund er og átta sig ekki á hversu mikilvægt er að kenna hana. Einnig segja þeir að tímaskortur komi í veg fyrir að stafræn borgaravitund sé kennd. Það voru því ekki allir kennarar sem lögðu fyrir skylduverkefni um stafræna borgaravitund. Þegar síðar komu upp vandamál þar sem nemendur sýndu óábyrga notkun spjaldtölvanna kom oft í ljós að þessir nemendur höfðu ekki fengið að glíma við verkefnin sem Spjaldtölvuverkefnið sendi út. Þessi skylduverkefni þurfa að liggja fyrir í upphafi skólaárs svo kennarar geti gert ráð fyrir þeim í sínum áætlunum.

Þeir kennarar sem nýttu sér verkefnin lögðu þau flest fyrir án þess að fá aðstoð kennsluráðgjafa. Þegar kennarar þáðu aðstoð fólst hún frekar í að ræða mögulegar útfærslur verkefnanna en aðstoð í kennslustund. Það var helst í bekkjarsáttmálaverkefninu sem kennsluráðgjafar voru inni í kennslustund og tóku þátt í framkvæmdinni.

Í mars 2016 þegar ferilmöppuverkefni var sent á list- og verkgreinakennara féll það vægast sagt í grýttan jarðveg. Mikil þreyta og pirringur í kennurum var á þessum tíma út af kjarasamningum og miklu fundafargani og í Kópavogi var svo var verið að innleiða stimpilklukku meðal kennara, einmitt um sama leyti. Eftir á að hyggja hefði verið betra að kynna þessi verkefni strax í upphafi skólaárs eða annar því þá hefðu kennarar getað gert ráð fyrir þeim í sínum áætlunum.

Benda má á að kennsluráðgjafar Spjaldtölvuverkefnis halda tvenns konar námskeið fyrir kennara. Annars vegar er stundum í boði eitt stórt námskeið þar sem allir kennarar fara í gegnum sama efni og kennsluráðgjafarnir þrír eru með innlagnir og til aðstoðar. Hins vegar hafa kennsluráðgjafarnir verið hver með sitt námskeið og kennarar þá átt val um námskeið. Þegar kennarar hafa átt val um að fara á námskeið í stafrænni borgaravitund eða eitthvað „hagnýtara“, eins og að læra á einhver öpp, velja þeir oft það síðarnefnda. Mögulega mætti því vera meira um skyldunámskeið í stafrænni borgaravitund.

VEGGSPJÖLD

veggspjold
Veggspjöldin Verum snjöll og Ég tók ljósmynd á hurð inni í kennslustofu í Salaskóla

Spjaldtölvuverkefnið hefur útbúið tvö veggspjöld sem voru prentuð og send í alla grunnskóla Kópavogs. Annað veggspjaldið nefnist „Verum snjöll“ og fjallar um líkamsbeitingu og hitt nefnist „Ég tók ljósmynd“ og fjallar um myndbirtingar. Þess má geta að SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni hafði mikinn áhuga á að dreifa sem víðast veggspjaldinu um myndbirtingar. Svo fór að gerð var útgáfa með SAFT-merkinu sem SAFT svo dreifði á sína tengiliði.

UPPLÝSINGAVEITUR

Í innleiðingu sem snertir allt skólasamfélagið; nemendur, foreldra, kennara og stjórnendur, er nauðsynlegt að vera með góðar og fjölbreyttar upplýsingaveitur svo upplýsingar komist til skila og séu sem flestum aðgengilegar. Í þessum kafla er sagt frá helstu upplýsingaveitum Spjaldtölvuverkefnisins. Engir lærdómskaflar eru á eftir umfjöllun um Twitter, issuu, Instagram, Flickr og Slack þar sem ekki liggja fyrir enn sem komið er nægar upplýsingar um notkun á þessum miðlum í skólastarfi í Kópavogi eða reynslusögur til að læra af.

Vefur spjaldtölvuverkefnisins

Fyrst ber að nefna hefðbundinn vef með fréttum almenns eðlis um innleiðinguna og síðum um markmið, skilmála um afnot af spjaldtölvunum og fleira þess háttar. Ein síðan nefnist Leiðbeiningar og þar eru ýmsar leiðbeiningar um stillingar í spjaldtölvunni, hugbúnað til nota í námi og kennslu, kennsluhugmyndir og handbækur foreldra, nemenda og kennara. Oftar en ekki hafa þessar leiðbeiningar fyrst verið sendar notendum með tölvupósti og síðan settar á vefinn.

Lærdómur

Vefumsjónarkerfið Eplica sem Spjaldtölvuverkefninu var skylt að nota var vægast sagt ekki gott. Flókið var að setja inn efni á vefinn og þegar mikið efni var komið á leiðbeiningarsíðuna reyndist erfitt að finna það efni sem leitað var að. Í ágúst 2017 var unnið að uppsetningu á nýjum vef sem á að vera einfaldari í notkun.

Facebook

Spjaldtölvuverkefnið nýtir sér samfélagsmiðilinn Facebook til að koma upplýsingum á framfæri. Spjaldtölvuverkefnið þarf að senda frá sér tilkynningar og annað efni oft á dag og þá hentar betur að nota samfélagsmiðla en tölvupóst. Ákveðið var að nota Facebook eftir að hafa skoðað vel hvort aðrir miðlar myndu henta betur. Að nota einhvern lokaðan miðil þar sem notendur þurfa að skrá sig sérstaklega inn til að sjá hvað er um að vera var ekki talið vænlegt, notendur færu síður inn á þannig vef en Facebook þar sem líta má á efni tengt hópum Spjaldtölvuverkefnisins um leið og annað efni í fréttaveitunni.

Hópurinn Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs er vettvangur fyrir upplýsingagjöf til kennara, fyrirspurnir þeirra og umræður um spjaldtölvuvæðinguna. Þessi Facebook-hópur er lokaður og bara fyrir okkur sem vinnum beint að innleiðingunni, kennara og stjórnendur í grunnskólum Kópavogs. Hópurinn er ekki fyrir starfsmenn menntasviðs Kópavogs og menntaráð Kópavogs eða kennara úr öðrum sveitarfélögum. Tilgangur með því að hafa hópinn svo lokaðan er að þá eru meiri líkur að fá hreinskiptar fyrirspurnir og umræður frá kennurum. Til að ná til þeirra sem ekki eru á Facebook hefur verið mælst til þess að þeir kennarar sem eru í þessum Facebook-hópi miðluðu efni til þeirra. Því var sérstaklega beint til lykilstarfsmanna og innleiðingarteyma.

Í hópnum Spjaldtölvuvæðing Kóp lykilstarfsmenn eru, ásamt Spjaldtölvuteyminu, tölvuumsjónarmenn og lykilstarfsmenn (leiðtogar innleiðingar í einstökum skólum). Á þeim vettvangi má spyrjast fyrir og skiptast á skoðunum um ýmis tæknimál sem þessir aðilar geta leyst og eiga því lítið erindi til hins almenna kennara.

lykilstarfsmenn
Dæmi um innlegg í lykilstarfsmannahópnum á Facebook

Þriðji Facebook-hópurinn er sá sem Spjaldtölvuverkefnið notar eingöngu til samskipta í sínum þrönga hóp verkefnastjóra og kennsluráðgjafa. Þetta kemur sér sérstaklega vel á þeim dögum þegar kennsluráðgjafar eru úti í sínum skólum. Brýn mál eru leyst með símtölum en öðrum fyrirspurnum og hugleiðingum er beint í Facebook-hópinn og flest afgreidd þar eða ákveðið að ræða þau á næsta fundi teymisins.

Að lokum verður að nefna að Spjaldtölvuverkefnið heldur úti Facebook Like-síðu sem nefnist Spjaldtölvuvæðing í grunnskólum Kópavogsbæjar og er vettvangur fyrir alla þá sem hafa áhuga á að fylgjast með spjaldtölvuvæðingu í grunnskólum Kópavogs.

Lærdómur

Facebook-hópar sem hér voru nefndir nýtast allir mjög vel. Reynslan hefur sýnt að það eru fáir kennarar sem setja inn efni eða spurningar í hópinn Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs en fyrir liggur að hann er mikið lesinn og margir kennarar nýta sér það efni sem þar kemur fram. Það eru við kennsluráðgjafarnir og verkefnastjóri innleiðingarinnar sem setjum inn megnið af efninu sem fer þar inn. Kennarar leggja ekki mikið af mörkum en eru aðeins duglegri við að bregðast við færslum með því að „læka“ þær eða með stuttum skriflegum athugasemdum. Það að útiloka starfsmenn menntasviðs Kópavogs, menntaráð Kópavogs og kennara úr öðrum sveitarfélögum frá hópnum Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs hefur því ekki stuðlað að jafn mikilli eða hreinskiptri umræðu hjá kennurum og vonast var eftir.

Twitter

Spjaldtölvuverkefnið er með Twitter reikning sem nefnist Spjaldtölvuverkefnið@kopSpjold og þar er tístað um málefni er tengjast spjaldtölvum.

issuu

Spjaldtölvuverkefnið hefur gefið út nokkrar handbækur og sett þær á issuu-vefinn sinn, Spjaldtölvuverkefni grunnskóla í Kópavogi.

Instagram

Spjaldtölvuverkefnið á reikning á Instagram til að setja inn myndir tengdar innleiðingunni.

Flickr

Þegar Spjaldtölvuverkefnið fer í skólaheimsóknir eða sækir ráðstefnur eru teknar myndir til að fanga það sem fyrir augu ber og brot af því besta sett á ljósmyndavefinn flickr. Allar myndirnar eru teknar og birtar með leyfi þeirra sem á þeim birtast.

flickr
flickr – myndavefur Spjaldtölvuverkefnisins

Slack

Einn skóli í Kópavogi, Kársnesskóli, hefur notað samskiptaforritið Slack í einhverjum mæli til að minnka tölvupóstsamskipti. Það hefur ekki enn náð almennri útbreiðslu í skólanum en spjaldtölvuteymi skólans notar það til samskipta sín á milli og við kennsluráðgjafa skólans.

 

NÁMSEFNI OG VEITUR – HELSTU LÆRDÓMAR

  • Skylduverkefni þurfa að liggja fyrir í upphafi skólaárs
  • Skylda mætti kennara til að sækja námskeið í stafrænni borgarvitund
  • Vefumsjónarkerfi fyrir upplýsingavef þarf að vera einfalt í notkun
  • Facebook-hópar hafa reynst vel við að miðla upplýsingum