Hér er samantekt á því helsta varðandi innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs og tillögur og ábendingar fyrir þá sem vilja innleiða spjaldtölvur í grunnskóla síns sveitarfélags.
MARKMIÐ OG MÆLINGAR
- Markmiðin þurfa að vera skýr.
- Hægt er að nota mælitæki eins og Skólapúlsinn og samræmd próf til að meta árangur af spjaldtölvuinnleiðingu en einnig að leggja fyrir sérsniðnar kannanir.
KENNSLURÁÐGJÖF
- Ráða þarf verkefnastjóra spjaldtölvuinnleiðingar og kennsluráðgjafa að lágmarki tveimur mánuðum áður en kennarar og nemendur fá afhentar spjaldtölvur.
- Það er kostur að kennsluráðgjafar sem ráðnir eru í tengslum við innleiðingu hafi ólíka styrkleika og bakgrunn, það gerir teymið sterkara.
- Nauðsynlegt er að einn aðili í hverjum skóla fái það hlutverk að vera tengiliður við verkefnisstjóra og kennsluráðgjafa.
SKÓLASTJÓRNENDUR
- Skólastjórnendur þurfa að hafa þekkingu á markmiðum innleiðingarinnar til að geta fylgt henni eftir.
- Þeir þurfa að gefa kennurum tíma og aðstoð til að breyta kennsluháttum.
- Það verða að eiga sér stað umræður milli stjórnenda og kennara en ekki bara milli kennara um innleiðinguna, nýja tækni og breytta kennsluhætti.
- Hlutverk innleiðingarteyma í skólum þarf að vera skýrt og það stutt dyggilega af skólastjórnendum.
- Skólastjórnendur þurfa að funda reglulega, til dæmis tvisvar á önn, með verkefnisstjóra og kennsluráðgjafa til að meta stöðuna hverju sinni og ákveða næstu skref.
- Skólastjórnendur þurfa að vera ábyrgir fyrir því að kennarar nýti sér aðstoð kennsluráðgjafa.
KENNARAR
- Allir kennarar þurfa að vita til hvers er ætlast af þeim og það þarf að setja þeim markmið rétt eins og nemendum.
- Þeir verða að læra að sleppa verkefnum eða kennsluaðferðum en ekki bara bæta ofan á það gamla. Minnka þarf önnur verkefni á móti þeim nýju sem bætast við.
- Þeir verða að nýta sér þær bjargir sem eru í boði eins og kennsluráðgjafa og efni á vef.
- Verkefni nemenda verða að vera þannig að hægt sé að deila þeim með foreldrum.
- Kennarar þurfa tíma til undirbúnings, að lágmarki tvo mánuði, áður en nemendum eru afhentar spjaldtölvur.
- Kennarar þurfa að fjalla um og efla stafræna borgaravitund á meðal nemenda.
NEMENDUR
- Almennar skólareglur eiga að gilda um spjaldtölvur en gott er að láta nemendur vinna að bekkjarsáttmála um myndatökur og aðra notkun á spjaldtölvunum.
- Forðast þarf í lengstu lög að taka spjaldtölvu af nemanda við agabrot.
- Gera verður ráð fyrir tölvuverðri leikjanotkun fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að nemendur fá spjaldtölvur í hendur.
- Nóg er að kenna nemendum á helstu grunnaðgerðir í öppum.
- Losa þarf um stundatöflur þegar spjaldtölvur eru notaðar í námi.
- Treysta þarf nemendum og kenna þeim að bera ábyrgð á eigin námi.
FORELDRAR
- Gera þarf ráð fyrir að hluti foreldra mæti ekki á kynningarfundi og koma líka upplýsingum til þeirra með öðrum hætti.
- Setja ætti allt efni sem fer í tölvupósti til foreldra einnig á vef.
- Foreldrar þurfa að vera vel upplýstir um markmið spjaldtölvuinnleiðingar og hvernig spjaldtölvur eru notaðar í námi nemenda bæði í skóla og heima.
TÆKNIMÁL
- Þráðlaust net í skólum þarf að vera þétt og gott með góðum netsíum.
- Tölvuumsjónarmenn þurfa að hafa þekkingu og tíma til að sinna verkefnum tengdum spjaldtölvum.
- Gott er að hafa tæknistjóra í teyminu með verkefnastjóranum og kennsluráðgjöfunum.